[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snorri Bergmann fæddist í Moskvu 14. júlí 1961. „Pabbi var þar í meistaranámi í rússnesku og bókmenntum og kynntist mömmu. Við fluttumst til Íslands 1963, þegar ég var tveggja ára.

Snorri Bergmann fæddist í Moskvu 14. júlí 1961. „Pabbi var þar í meistaranámi í rússnesku og bókmenntum og kynntist mömmu. Við fluttumst til Íslands 1963, þegar ég var tveggja ára.“ Snorri ólst upp fyrstu árin í Drápuhlíð og hann hóf skólagönguna í Ísaksskóla og síðar Hlíðaskóla. Þegar hann var 8 ára fluttist fjölskyldan í Álfheima og hann fór í Langholtsskólann. „Æskan skiptist á milli Hlíðanna og Heimanna og svo var ég mikið í Keflavík hjá ömmu og afa á sumrin. Síðan fórum við í árlegar ferðir til Smólensk þar til afi dó 1968, en þá flutti amma með okkur til Íslands og varð íslenskur ríkisborgari og bjó hér til dauðadags.“

Snorri segir að ferðalögin til Rússlands hafi verið miklar ævintýraferðir. Það þurfti að fljúga fyrst til Kaupmannahafnar og þar var gist og svo flogið með Aeroflot til Rússlands. „Ég man í einni ferðinni þegar ég var 4-5 ára að ég var alveg takkaóður og flugfreyjurnar voru stöðugt að koma. Í íslensku vélinni voru þær mjög elskulegar og buðu mér kók og tóku þessu stússi bara vel, en ekki voru þær jafn geðgóðar í Aeroflot vélinni. Þar hélt ég uppteknum hætti, en flugfreyjan þar spurði mig höstuglega hvað ég vildi. Í þriðja skiptið sem hún kom sagði hún að ef ég hætti ekki að ýta á þennan takka þá myndi hún opna dyrnar og henda mér út úr vélinni, en mamma myndi halda áfram og fljúga til Rússlands. Það gefur að skilja að ég snarhætti leiknum skelfingu lostinn.“

Snorri var bráðger og lærði snemma að lesa, ekki á íslensku, heldur á rússnesku. Hann byrjaði ári fyrr í skóla vegna þess að hann var hraðlæs og fór þá í Hlíðarskóla. Snorri talaði oft rússnesku við mömmu sína, en þegar amma hans flutti til þeirra í Álfheimana talaði hann nánast eingöngu við hana á rússnesku og hélt þannig málinu lifandi. „Þessi kunnátta hefur farið hrakandi eftir að amma dó 1980, enda erfitt að halda við tungumáli þegar maður notar það ekki. Hins vegar var móðurbróðir minn rússneskur hérna nýlega og var í nokkra daga og við töluðum alltaf rússnesku saman og þá fann ég að málið fór að lifna við og koma til baka.“

Snorri var í síðasta árganginum sem tók landspróf og fór fyrst í Menntaskólann við Sund, en ákvað síðan að færa sig yfir í Menntaskólann í Reykjavík og náði þar með jafnöldrum sínum í skólanum. „Það var mikið happaskref, því flestir mínir bestu vinir í dag eru skólafélagarnir úr MR.“ Snorri var virkur í félagslífinu og var eitt árið gjaldkeri Framtíðarinnar. „Við vorum nú í eðlisfræðideild 1 sem sumir kölluðu nördadeildina, og þetta var mjög skemmtilegur tími.“ Hann útskrifaðist úr MR 1981 og fór í tölvunarfræði í Háskóla Íslands. Eftir tvö ár í náminu fór hann að vinna hjá Verkfræðistofunni Streng, þar sem hann vann við forritun í rúm 20 ár. „Við unnum mörg skemmtileg verkefni hjá Streng, m.a. settum við Gagnasafn Morgunblaðsins á netið 1993, sem var mjög áhugavert. Fyrst var þetta í gegnum skjáhermi, en svo fór þetta á vefinn 1997 og þá var hægt að leita í gagnasafninu og skoða blað dagsins, ekki á pdf-formi eins og í dag, heldur sem greinalista.“ Þegar Strengur sameinaðist Landsteinum og Kögun keypti fyrirtækið ákvað Snorri að hætta 2006, en hefur samt haldið sig við hugbúnaðargerð, kerfisstjórnun og gagnasafnsumsýslu.

Helstu áhugamál Snorra eru tónlist og lestur. „Bæði börnin okkar lærðu á píanó og búa að því og eru mjög ánægð með það. Ég hlusta á allt og við hjónin erum áskrifendur að sinfóníunni. En ég hlusta líka á þungarokk og fannst gaman þegar Sinfónían vann með Skálmöld um árið. Annars geri ég mér far um að festast ekki í einhverju tímabili, heldur hlusta á eitthvað nýtt og ferskt og finnst margt skemmtilegt að gerast í tónlistinni í dag. Svo hef ég líka áhuga á hljómgæðum og er þess vegna ekki á Spotify, heldur Tidal, þar sem tónlistin er í fullum gæðum og í sumum tilfellum í háskerpu. Það er allt annað líf.“

Snorri les líka mikið, en reynir að safna ekki bókum, heldur notar kyndilinn. „Ég tek stundum svona höfunda fyrir og er núna t.d. að lesa 22. bók af 28 í bókaflokki eftir Andrea Camilleri.“ Auk þess spilar Snorri fótbolta með vinum sínum tvisvar í viku. Þá er ótalið golfið sem hann stundar af kappi.

„Síðan erum við Védís, kona mín, mikið að tína sveppi og höfum gaman af matjurtarrækt. Ég er vanur sveppatínslu, því þegar mamma kom hingað tíndum við alltaf sveppi, en þá gerði þetta varla nokkur maður hérna. Það hefur breyst með komu fleira fólks frá Austur-Evrópu, og við förum með okkar tínslusvæði eins og mannsmorð, því þetta eru viðkvæm svæði og auðvelt að eyðileggja.“

Fjölskylda

Eiginkona Snorra er Védís Húnbogadóttir hjúkrunarfræðingur, f. 3.12. 1961. Foreldrar hennar eruHúnbogi Þorsteinsson, f.11.10. 1934, d. 14.9. 2017, fv. sveitarstjóri í Borgarnesi og ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu og Jóna Vilborg Jónsdóttir, f. 5.8. 1942, d. 30.9. 2002. Þau skildu. Stjúpmóðir: Erla Ingadóttir, f. 19.2. 1929, hjúkrunarfræðingur. Börn Snorra og Védísar eru 1) Lena, f. 20.9. 1987, verkfræðingur í Reykjavík. Maki hennar er Daniel Zeyen, f. 9.12. 1980, verkfræðingur og þau eiga dæturnar Sóleyju, f. 2015 og Lóu, f. 2019. 2) Árni Freyr, f. 8.11. 1990, tölvunarfræðingur í Reykjavík. Maki hans er Auður Friðriksdóttir, f. 21.5. 1990, sálfræðingur og þau eiga Jökul Húna, f. 2017, og óskírðan dreng, f. 2021. Systir Snorra er Olga Soffía Bergmann, f. 4.11. 1967, myndlistarmaður í Reykjavík.

Foreldrar Snorra eru hjónin Árni Bergmann, f. 22.8. 1935, ritstjóri og rithöfundur, og Lena Bergmann (fædd Elena Rytsjardovna Tuvina), f. 13.6. 1935, d. 9.6. 2008, lífeindafræðingur. Þau bjuggu í Reykjavík.