[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Þeir sem á annað borð nýta sér netverslun hér á landi gera það af miklum móð. Oftast er það á þriðjudögum.

Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Þeir sem á annað borð nýta sér netverslun hér á landi gera það af miklum móð. Oftast er það á þriðjudögum. „Við sjáum það á tölum frá evrópsku hagstofunni að 83% Íslendinga á aldrinum 16-74 ára hafa pantað sér þjónustu eða vöru á netinu á síðustu 12 mánuðum og af þeim hafa 62% nýtt sér þjónustuna undanfarna 3 mánuði,“ segir Egill Fannar Halldórsson, framkvæmdastjóri Górilla vöruhúss, en hann hefur tekið saman forvitnlega tölfræði um notkun Íslendinga á netverslunum. Notast hann við tölur frá fyrrnefndri hagstofu ásamt rauntímagögnum úr kerfum Górilla en í gegnum vöruhúsið hafa farið u.þ.b. 44 þúsund sendingar frá ríflega 50 netverslunum síðasta árið. „Þessar rannsóknir veita spennandi innsýn í netverslun á Íslandi, þá þróun sem er að eiga sér stað og mögulega það sem koma skal á næstu árum,“ að sögn Egils Fannars. Bendir hann á að tilfinnanlegur skortur hafi verið á mælitækjum þegar kemur að netversluninni þar sem Hagstofa Íslands hafi ekki birt tölur um þróun hennar síðustu 15 mánuði eða svo. Sé litið fram til ársins 2020 er Ísland í 7. sæti á lista yfir þær þjóðir þar sem notkun netverslana er útbreiddust. Hlutfallið er 90% í Bretlandi og það eru Þýskaland, Svíþjóð og Noregur, Holland og Danmörk sem skilja á milli.

„En þegar fókusinn er settur á þá sem versla mest á netinu er Ísland í öðru sæti af öllum löndum Evrópu. 25% Íslendinga segjast kaupa vörur á netinu 10 sinnum eða oftar á hverju þriggja mánaða tímabili en Bretarnir hafa betur þar einnig með hlutfallið 29%,“ segir Egill Fannar.

Íslenska verslunin stendur vel

Þegar rýnt er dýpra í tölurnar segir hann að fróðleg mynd blasi við. Á síðustu þremur mánuðum hafi 46% Íslendinga verslað við íslenska netverslun en hlutfallið sé 42% þegar litið er til erlendra verslana.

„Það er magnað að fleiri eigi viðskipti við íslenska netverslun en erlenda. Það er í raun frábært. Við vitum ekki nákvæmlega hvað veldur en mögulega kjósa Íslendingar fremur að versla við íslensk fyrirtæki, en svo getur verið að þjónustan við Íslendinga sé betri hjá íslenskum verslunum, t.d. fljótlegri vöruafhending, minna vesen eða þægindin meiri. Þá má einnig velta upp hvort fólk treysti betur verslunum hér heima.“

Þriðjudagur til þrautar?

Í gögnum Górillu vöruhúss kemur margt áhugavert í ljós. M.a. að 16,5% pantana eru gerð á þriðjudögum og enginn annar dagur sem skákar því hlutfalli. Mánudagarnir koma þar næst á eftir með 16% og því ljóst að fyrri hluti vikunnar er vinsæll meðal þeirra sem nýta sér netverslunina. Lægst fer hlutfallið á föstudögum og sunnudögum en þá virðast Íslendingar sinna öðrum málum en innkaupum af netinu.

„Flestar pantanir sjáum við koma inn í kringum hádegið. Algengasti pöntunartími dagsins er milli kl. 10 og 11 á morgnana eða 8,2% og milli kl. 11 og 12 eða 8%. Flestar pantanir í netverslun eru gerðar milli kl. 9 og 14 á daginn eða 37%. Ef horft er til hefðbundins vinnutíma milli 8 og 17 þá eru 60% pantananna að detta inn á þeim tíma,“ segir Egill Fannar.

Hann bendir sömuleiðis á að rannsóknir að utan sýni að 32% Íslendinga hafi keypt föt á netinu á undangengnu þriggja mánaða tímabili.

„Þar erum við talsvert á eftir nágrannalöndunum í Norður-Evrópu þar sem stórar fatakeðjur hafa komið sér vel fyrir.“

20% fólks hafa keypt húsgögn, gjafavöru eða aðrar heimilisvörur á sama tímabili.

Matvaran virðist hins vegar koma mjög sterk inn en 42% Íslendinga hafa á undangengnum þremur mánuðum keypt hana eða veitingar af öðru tagi. „Það segir manni að veitingastaðir og verslanir sem ekki eru með gott þjónustustig á vefnum ættu að uppfæra sig.“