Það eru enn fjölmargar þúfur sem geta velt hlassinu ef illa er að gætt.

Fjölmargir eru forvitnir um gang ferðaþjónustu þessar síðustu vikur og horfurnar inn í sumarið. Ljóst er að þær skynsamlegu ákvarðanir sem stjórnvöld hafa tekið um tilhögun sóttvarnaráðstafana á landamærum frá því í byrjun apríl, ásamt afléttingu takmarkana innanlands, hafa skilað því að Ísland er í betri stöðu til að taka á móti ferðamönnum en fjölmargir aðrir áfangastaðir í Evrópu.

Þetta, ásamt góðu orðspori landsins gagnvart Covid, vel heppnaðri markaðssetningu og svolitlu eldgosi hefur skilað sér í töluverðum áhuga á landinu. Því má segja að ferðaþjónustan hafi náð að komast fyrr og hraðar af stað en vonir stóðu til í vetur. Bókanir inn í haustið hafa tekið vel við sér og komið hefur í ljós að ferðamenn á leið til Íslands í sumar eru að langstærstum hluta bólusettir. Það eru mjög góðar fréttir því að í samhengi við frábæra stöðu bólusetninga innanlands þýðir það að áhætta af ferðalögum milli landa er afar lítil – rétt eins og sóttvarnalæknir og stjórnvöld lögðu upp með í vor. Það er því sannarlega vert að hrósa þeim sem lögðu upp leikplanið, sem nú er á góðri leið með að landa góðum úrslitum úr sumrinu.

Lítið má út af bera

Það er rétt að minna enn og aftur á að þetta snýst ekki bara um ferðaþjónustufyrirtæki í afmarkaðri búbblu. Greiningaraðilar um efnahagsmál, allt frá greiningardeildum viðskiptabankanna til Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins, hafa ítrekað bent á að fljót og vel heppnuð efnahagsleg endurreisn samfélagsins alls byggist á hraðri og vel heppnaðri viðspyrnu ferðaþjónustunnar – atvinnugreinarinnar sem getur hvað hraðast tekið að skapa ný verðmæti fyrir samfélagið og koma atvinnulausum í vinnu fyrr en síðar.

Þessi viðspyrna er nú hafin og efnahagsleg heill samfélagsins veltur á því að hún nái að halda áfram og byggjast upp af fullum krafti næstu vikur og mánuði. Eins og fyrr eru ýmsar óvissubreytur sem við ráðum ekki við hér á landi – t.d. staða Covid og bólusetninga í öðrum löndum – en sem fyrr er það okkar hlutverk hér innanlands að styðja við þessa efnahagslegu uppbyggingu og tryggja að ekkert í okkar valdi hindri hana. Öllum slíkum hindrunum sem lagðar eru í götu viðspyrnunnar fylgir meiri samfélagslegur kostnaður til lengri tíma fyrir okkur öll, það er einfaldlega margsannaður kreppusannleikur.

Það eru enn fjölmargar þúfur sem geta velt hlassinu ef illa er að gætt. Sem fyrr er fyrirsjáanleiki um sóttvarnaaðgerðir á landamærum þar mikilvægastur. Það skiptir miklu meira máli nú en fyrr í vetur, þegar hundruð þúsunda gesta hafa bókað ferðir til Íslands næstu mánuði, að ferðamenn, ferðaskrifstofur og flugfélög geti treyst á að ekki sé hringlað með sóttvarnir og skilyrði um inngöngu í landið með stuttum fyrirvara eða af litlu tilefni.

En er þá allt komið á blússandi siglingu?

Það er mikilvægt að muna að það er ekki allur vandi leystur þótt ferðamenn hafi nú loks birst í Leifsstöð. Tölur um brottfarir frá Keflavík í júní – sem voru undir fjórðungi af því sem þær voru í júní 2019 – sýna í hendingu að það er alls engin holskefla á ferð. Enn vantar sárlega að stærri hópferðir komist í gang, sérstaklega frá lykilmörkuðum í Evrópu.

Ýmsan vanda leiðir einnig af síðasta ári, t.d. við afhendingu þjónustu. Starfsfólk vantar til að hægt sé að fullopna hótel, bílaleigur eru jafnvel orðnar uppseldar í ágúst og september og enn er vandi við að ráða fólk í sérhæfð og mikilvæg störf, t.d. ævintýraleiðsögumenn og matreiðslumenn um allt land. Og eins og alltaf bíður veturinn fram undan, þar sem ekki verður endilega hægt að stóla á skólaferðir frá Bretlandi í haust og vor eða ferðamenn frá Asíu um jól og áramót. Allt er það enn mikilli óvissu undirorpið.

Svo að nei – það er ekki allt á blússandi siglingu. En staðan er hins vegar öll í áttina og margt betra en búist var við. Og takist að viðhalda viðspyrnunni í þeim gír, þannig að verðmætasköpunin nái að byggjast vel upp næstu vikur og mánuði og leggja grunn að sterku ferðaþjónustuári 2022, eru það afar góðar fréttir fyrir okkur öll.