Smásala Miklatorg hf. sem er rekstraraðili IKEA á Íslandi hagnaðist um 500 milljónir króna á reikningsárinu sem stóð frá 1. september 2019 til 31. ágúst 2020. Er það mikil aukning frá árinu 2019 þegar hagnaðurinn nam 210 milljónum króna.

Smásala

Miklatorg hf. sem er rekstraraðili IKEA á Íslandi hagnaðist um 500 milljónir króna á reikningsárinu sem stóð frá 1. september 2019 til 31. ágúst 2020. Er það mikil aukning frá árinu 2019 þegar hagnaðurinn nam 210 milljónum króna. Þetta kemur fram í nýjum ársreikningi fyrirtækisins.

Vörusala nam 12,3 milljörðum króna og jókst um tæplega 300 milljónir. Í skýringum með reikningnum segir að sala hafi dregist saman um 15% frá marsmánuði 2020 og fram til júlímánaðar en að eftir það hafi salan verið á uppleið.

Brugðust stjórnendur fyrirtækisins m.a. við með því að lækka launakostnað og hagræða í rekstri. Launakostnaður hækkaði lítillega milli ára og nam tæpum 2,9 milljörðum króna. Laun framkvæmdastjóra félagsins lækkuðu verulega, fóru úr 52 milljónum árið 2019 í 31 milljón í fyrra. Miklatorg greiddi á síðasta rekstrarári 368 milljónir í leyfisgjöld til IKEA og hækkuðu gjöldin um rúmar 8 milljónir frá fyrra ári. Heildareignir Miklatorgs námu 2,7 milljörðum í lok ágúst í fyrra og höfðu aukist um ríflega 300 milljónir frá fyrra ári. Skuldir félagsins námu tæpum 1,8 milljörðum króna og höfðu lækkað um ríflega 70 milljónir á árinu. Eigið fé félagsins stóð því í ríflega 970 milljónum við lok reikningstímabilsins og hafði vaxið um tæp 70% milli ára.

Handbært fé í lok rekstrarársins nam 475 milljónum en hafði staðið í 7,5 milljónum við uppgjör ársins 2019.

Samkvæmt skýrslu stjórnar er lagt til að greiddur verði arður vegna liðins rekstrarárs sem nemi 500 milljónum króna.

Miklatorg hf. er í eigu bræðranna Jóns og Sigurðar Gísla Pálmasona. ses@mbl.is