Banfi framleiðir góðan Brunello sem þarf góðan tíma til að anda. Ekki skemmir fyrir að drekka vínið úr voldugu glasi sem tryggir góða öndun.
Banfi framleiðir góðan Brunello sem þarf góðan tíma til að anda. Ekki skemmir fyrir að drekka vínið úr voldugu glasi sem tryggir góða öndun. — Morgunblaðið/Stefán E. Stefánsson
Árið 1978 tóku bræðurnir John og Harry Mariani ákvörðun um að stofna til víngerðar á Ítalíu.

Árið 1978 tóku bræðurnir John og Harry Mariani ákvörðun um að stofna til víngerðar á Ítalíu. Þeir voru af ítölsku og bandarísku bergi brotnir og nýttu sér menningu beggja heima til þess að leggja undirstöður að fyrirtæki sem vaxið hefur mjög að virðingu til dagsins í dag.

Starfsemi fyrirtækisins teygir sig nokkuð víða þótt þungamiðjan hafi lengst af legið í Toscana og undirhéraðinu Montalcino. Hins vegar leituðu þeir bræður fljótlega einnig tækifæranna lengra í norðri og festu kaup á víngerðinni Bruzzone í Piedmont og hafa frá þeim tíma sent frá sér forvitnilegt hvítvín sem unnið er úr ítölsku Cortese-þrúgunni.

En stjörnunar í safni Banfi eru án efa Brunello-vínin sem eðli máls samkvæmt koma af bestu ekrum fyrirtækisins í Montalcino. Brunello-vínin sem koma frá svæðinu eiga sér í sjálfu sér ekki mjög langa sögu. Komu fyrst á markað á öndverðri 19. öldinni þegar maður að nafni Clemente Santi fékk þá „geggjuðu“ hugmynd að gera afar kröftug vín sem aðeins voru unnin úr Sangiovese-þrúgunni og hefðu mikla möguleika á að eldast vel. Á grunni þessa tilraunastarfs byggði barnabarn Clemente sem markaðssetti í fyrsta sinn árið 1888 Brunello di Montalcino frá víngerðinni Biondi-Santi. Síðan þá hafa margir fylgt í fótsporin og er Banfi í hópi þeirra sem hvað best hefur tekist til. Hér heima er auðvelt að komast í 2015 árganginn af Brunello frá Banfi og er full ástæða til að veita því víni eftirtekt. Þar er á ferðinni hörkuárgangur þótt ekki sé laust við að þeir sem þekkja Banfi vel séu farnir að hlakka til þeirrar stundar þegar 2016 árgangurinn lítur dagsins ljós enda hafa dómar um hann verið afar hagstæðir.

Líkt og með önnur Brunello-vín (nýverið fjallaði ég um Il Poggione 2014 sem kom skemmtilega á óvart — 20. janúar 2021) er þetta ekki léttleikandi og tápsamt vín. Það þarf góða öndun enda stórt og mikið á flesta kanta. Plóman og kirsuberin að vanda ekki langt undan en kryddkeimur úr ýmsum áttum vekur sannkallaða gleði, allt frá anís og kanil og út í kardimommu. Skemmtilegur eiginleiki þessara vína er að miðla angan og bragði af lakkrís sem leitar svo út í jarðkenndari tóna. Litur vínsins vísar sannarlega til móður jarðar, brúnrautt eins og Brunello á að vera. Áferðin er glansandi og mjúk og tannínin eru vel rúnuð og aðgengileg. Þau hvísla því að þeim sem nýtur að sennilega hefði alveg mátt geyma vínið í þrjú til fimm ár hið minnsta og fá þá mun meira út úr því sem dylst undir yfirborðinu sjálfu. ses@mbl.is