Adam Glapinski seðlabankastjóri Póllands birtir grein í blaðinu í gær. Yfirskrift hennar er það mat hans að „ávinningur þess að hafa eigin gjaldmiðil, pólskt zloty, er einmitt sá að við erum fær um að reka sjálfstæða og óháða peningamálastefnu, sem við teljum vera mikilvægan dempara.“

Adam Glapinski seðlabankastjóri Póllands birtir grein í blaðinu í gær. Yfirskrift hennar er það mat hans að „ávinningur þess að hafa eigin gjaldmiðil, pólskt zloty, er einmitt sá að við erum fær um að reka sjálfstæða og óháða peningamálastefnu, sem við teljum vera mikilvægan dempara.“ Hann rekur viðbrögð bankans við erfiðum aðstæðum sem heimsfaraldurinn skóp þar eins og víðast hvar. Á fáeinum vikum, gjörbreyttist staðan vegna ofsahræðslu sem veiran olli og lokunaraðgerða sem óhjákvæmilega fylgdu. Hagkerfi margra landa sneru frá mikilli efnahagsþenslu yfir í djúpa lægð. Það kallaði á skjót og afgerandi viðbrögð.

Pólski seðlabankinn, NBP, hafi verið einn fyrsti seðlabankinn sem hafi brugðist við með öflugri peningalegri tilslökun. Þökk sé því að fylgt hafi verið hefðbundinni, íhaldssamri peningastefnu síðustu ár, hafi verið svigrúm til að bregðast hiklaust við og lækka vexti niður í næstum núll og hefja kaup á skuldabréfum sem gefin voru út eða tryggð af ríkissjóði.

Þótt þessar ákvarðanir hafi verið teknar mjög hratt og í mikilli óvissu, liggi nú fyrir að þær hafi veitt pólska hagkerfinu áhrifaríkan stuðning. Glapinski bendir á að tekist hafi að koma í veg fyrir að ástandið á vinnumarkaði versnaði, sem sést m.a. á lægsta hlutfalli atvinnuleysis í öllu ESB. Hann segir hina hröðu endurreisn efnahagslífsins gleðiefni.

Reynslan sem NBP hafi öðlast, einkum á síðasta ári, greiningartækin og samskiptaleiðirnar við markaðinn sem hann hafi þróað, hafi búið hann undir þessa áskorun. Seðlabankinn hafi sannað skilvirkni sína í því að draga úr efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins og muni gera það enn með skynsamlegri stefnu til að leiða hagkerfið á ný á braut örs vaxtar, þótt viðhaldið verði verðstöðugleika og þjóðhagslegu jafnvægi. Ekki sé hægt að láta óhóflegar gengissveiflur eða breytingar á ávöxtun skuldabréfa takmarka vaxtarmöguleika pólska hagkerfisins. „Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að við höfum okkar eigin gjaldmiðil, pólskt zloty,“ segir Glapinski.