[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Gosið í Fagradalsfjalli á sér ekki hliðstæðu í þeim eldgosum sem hafa orðið á Íslandi eftir að menn fóru að fylgjast með þeim með vísindalegum hætti og nákvæmum mælitækjum,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. „Þetta eldgos er ólíkt flestum öðrum íslenskum gosum að því leyti að það byrjaði rólega og óx svo heldur. Það er alveg öfugt við það sem langflest eldgos hafa gert.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Gosið í Fagradalsfjalli á sér ekki hliðstæðu í þeim eldgosum sem hafa orðið á Íslandi eftir að menn fóru að fylgjast með þeim með vísindalegum hætti og nákvæmum mælitækjum,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. „Þetta eldgos er ólíkt flestum öðrum íslenskum gosum að því leyti að það byrjaði rólega og óx svo heldur. Það er alveg öfugt við það sem langflest eldgos hafa gert.

Gosið nú stjórnast af gosrásinni og hve víð hún er en ekki aðallega af þrýstingnum í hólfinu sem sendir kvikuna frá sér. Slíkur þrýstingur hefur keyrt áfram Heklugos, Grímsvatnagos, Bárðarbungu og flest önnur gos sem við höfum fylgst með.“

Talið er að gosrásin í Geldingadölum sé um 17 km löng. Magnús Tumi sagði ekki vitað hvað gosrásin var djúp í Surtsey eða í Heimaey. Hún gæti mögulega hafa verið eitthvað svipuð þeirri sem nú gýs.

„Jarðskjálftamælingar voru mun ófullkomnari í báðum Vestmannaeyjagosunum. Við höfum ekki upplýsingar um dýpi jarðskjálftanna sem fylgdu þeim og mælingar á aflögun yfirborðsins voru ekki til á þeim tíma,“ sagði Magnús Tumi.

Gosóróinn gefur upplýsingar

Mikið hefur verið talað um gosóróa í tengslum við eldgosið í Geldingadölum. Jarðskjálftamælar nema titring sem fylgir eldgosum og er kallaður gosórói. Talið er að hann tengist hreyfingum bergkviku í jarðskorpunni. Magnús Tumi var spurður um gosóróann í Geldingadölum.

„Það fer svolítið eftir aðstæðum í gígnum hvernig óróinn lýsir sér. Það er alls ekki alltaf ljóst hvað stýrir óróa. En það hefur sýnt sig hvað eftir annað að þegar aðstæður eru svipaðar í gígnum er óróinn góður mælikvarði á það sem er að gerast,“ sagði Magnús Tumi.

Hann sagði að ekki væri hægt að bera saman gosóróa úr sprengigosi, eins og t.d. í Grímsvötnum, við óróa í hraungosi eins og því sem nú stendur yfir. „Í eldgosinu í Eyjafjallajökli 2010 var óróinn alls ekki sterkastur þegar sprengigosið var og mesta efnið kom upp. Hann var sterkastur þegar hraungosið stóð yfir þótt miklu minni kvika kæmi upp en í sprengigosinu. Gosórói er ekki algildur mælikvarði en hann er eitt mikilvægasta tólið sem við höfum til að fylgjast með eldgosum, til dæmis þegar ekkert sést til gosstöðva vegna dimmviðris eða þegar eldgos verða á afskekktum og óaðgengilegum stöðum,“ sagði Magnús Tumi.

Hviður hafa komið í eldgosinu við Fagradalsfjall og svo hefur verið rólegra á milli. Magnús Tumi segir gosóróann hafa endurspeglað þá virkni mjög vel. Þegar koma goshviður í gígnum hafa um leið sést óróahviður.

„Óróinn er góður mælikvarði á hvað er að gerast hverju sinni í þessu gosi. Óróinn er meiri nú en hann var fyrir fjórum vikum. En það er ekki þar með sagt að það sé að koma upp meira hraun nú en þá. Aðstæður í gígnum geta hafa breyst. Óróamæling er eitt mikilvægasta tækið sem við höfum og gagnleg en hún er ekki rennslismæling.“

Lítil virkni á tímabili

Óróinn í Geldingadölum datt niður um miðnætti mánudaginn 5. júlí og var með minnsta móti til 10. júlí.

„Virkni var sýnilega mjög lítil á tímabilinu þegar óróinn datt niður, ef þá nokkur. Virkni var ef til vill einhver í Geldingadölum. Við teljum að hraunrennslið hafi ekki verið meira en 2-3 m 3 /sek. og jafnvel nánast ekki neitt á því tímabili,“ sagði Magnús Tumi. Hraunrennslið í gosinu hefur mælst mest 13-14 m 3 /sek.

Ekki hafa verið tök á að fara í ljósmyndaflug undanfarið vegna veðurs og annarra ástæðna. Þess vegna hefur ekki verið hægt að mæla stækkun hraunsins síðustu tvær vikur. Magnús Tumi setti upp merki við hraunbrúnina í Meradölum 27. júní til að meta breytingar á hrauninu. Eftir um vikutíma hafði yfirborð hraunsins hækkað um tæplega fimm metra við merkið. Það er því ljóst að talsvert bættist við hraunið á þeim stað.