Guðrún Brá Björgvinsdóttir
Guðrún Brá Björgvinsdóttir
Atvinnukylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir tók risastökk á heimslistanum í kvennaflokki sem gefinn var út í gær eftir frábæra frammistöðu á Armanco Team Series-golfmótinu í London um síðustu helgi.

Atvinnukylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir tók risastökk á heimslistanum í kvennaflokki sem gefinn var út í gær eftir frábæra frammistöðu á Armanco Team Series-golfmótinu í London um síðustu helgi.

Guðrún hafnaði þar í tólfta sæti og fyrir vikið stekkur hún upp um hvorki meira né minna en 209 sæti á listanum. Hún var í 878. sæti í síðustu viku en er nú í 669. sæti. Áður hafði hún best náð 868. sæti listans í árslok 2019.

Valdís Þóra Jónsdóttir er enn á listanum þótt hún sé hætt keppni og er núna í 701. sæti. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur verið í fríi undanfarna mánuði vegna barneigna og er í 1.122. sæti eins og staðan er núna.

Ólafía hefur komist lengst íslenskra kvenna á listanum en hún var um tíma í 170. sæti á árinu 2017. Valdís komst hæst í 313. sæti.

Lexi Thompson frá Bandaríkjunum sem varð jöfn Guðrúnu í 12. sætinu í London var í níunda sæti fyrir mótið en seig niður í ellefta sæti. Nelly Korda frá Bandaríkjunum er áfram í efsta sæti og næstar koma Jin Young Ko, In Bee Park, Sei Young Kim og Hyo-Joo Kim, allar frá Suður-Kóreu.