Bólusettir Röðin í bólusetningu í Laugardalshöll náði langt út úr dyrum og raunar upp á Suðurlandsbraut.
Bólusettir Röðin í bólusetningu í Laugardalshöll náði langt út úr dyrum og raunar upp á Suðurlandsbraut. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gert er ráð fyrir að í dag verði bólusett í síðasta sinn við Covid-19 í Laugardalshöllinni. Búið er að bólusetja 90% þeirra sem eru 16 ára eða eldri en þeir sem ekki hafa sinnt því að mæta í bólusetningu verða ekki eltir uppi sérstaklega.

Gert er ráð fyrir að í dag verði bólusett í síðasta sinn við Covid-19 í Laugardalshöllinni. Búið er að bólusetja 90% þeirra sem eru 16 ára eða eldri en þeir sem ekki hafa sinnt því að mæta í bólusetningu verða ekki eltir uppi sérstaklega.

Búist er við bólusetningardegi í minni kantinum en 1.700 manns fá seinni skammtinn af bóluefni Moderna og 2.000 manns hafa verið boðaðir í seinni skammt af bóluefni AstraZeneca.

Í gær var fólk sem hafði fengið fyrri skammtinn af Pfizer fyrir þremur vikum bólusett með seinni skammtinum. Að auki mættu 2.000 manns sem höfðu ekki verið boðaðir. Þeirra á meðal var fólk búsett erlendis og þurfti að skrá það sérstaklega inn í kerfið. Urðu því einhverjar tafir og raðir mynduðust. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sagði að um hundrað manns hefðu mætt sem áttu að vera í sóttkví. Það fólk þurfti að fá sprautuna út í bíl eins og um bílalúgu væri að ræða.

Í lok dags voru um 75 skammtar eftir en þar sem starfsfólkið vildi ekki sjá þá fara til spillis var farið með skammtana út í skemmtiferðaskipið Viking Jupiter sem lá við festar í Reykjavíkurhöfn.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að til skoðunar sé að bjóða landsmönnum upp á þriðja skammtinn af bóluefni Pfizer eins og Ísraelar hafa tekið ákvörðun um að gera og er til skoðunar í fleiri löndum. Forsvarsmenn Pfizer ætla að sækja um leyfi fyrir þriðja skammtinum hjá bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitinu.

„Þetta er sérstaklega til skoðunar hér fyrir þá sem hafa undirliggjandi ónæmisvandamál og hafa kannski ekki svarað bólusetningunni nægilega vel,“ segir Þórólfur og nefnir einnig þá sem hafa fengið Janssen-bóluefnið.

Varðandi fylgnina milli Janssen-bóluefnisins og sjaldgæfs taugasjúkdóms hefur Lyfjastofnun ekki fengið neinar tilkynningar um slík tilfelli inn á sitt borð. Þórólfur bendir á að tengslin sem um ræðir séu afar sjaldgæf, töluvert sjaldgæfari en þær aukaverkanir sem sjást eftir Covid-sjúkdóminn sjálfan.