Gunnar Hákonarson, framkvæmdastjóri Kolaportsins, segir breytingarnar munu koma á óvart.
Gunnar Hákonarson, framkvæmdastjóri Kolaportsins, segir breytingarnar munu koma á óvart. — Morgunblaðið/Unnur Karen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Rekstraraðilar Kolaportsins áforma nýtt markaðs- og matartorg, Hafnarþorpið. Kolaportið verður þó áfram á sínum stað í vesturhluta húsnæðisins. Með Hafnarþorpinu á að laða að fleiri gesti með meiri fjölbreytni, matsölu og viðburðahaldi í takt við erlend markaðstorg.

Síðustu misseri hefur umhverfi Kolaportsins tekið miklum breytingum. Hafnartorgið hefur risið og þar til norðurs Austurhöfn. Hlerar á norðurhlið Kolaportsins hafa vikið fyrir stórum gluggum sem hleypa inn birtu og útsýni yfir höfnina. Til suðurs er verið að endurgera Tryggvagötuna við Tollhúsið og Naustin og með því víkja bílastæði fyrir göngugötu við mósaíkverk Gerðar Helgadóttur myndhöggvara.

Þessar framkvæmdir – og uppbyggingin í miðborginni síðustu ár – setja Kolaportið í nýtt samhengi. Breytingarferlið heldur svo áfram á næsta ári þegar Tollurinn flytur úr Tollhúsinu. Ekki hefur verið greint frá því hvaða starfsemi kemur í staðinn.

Félagið Portið ehf. hefur farið með rekstur Kolaportsins og er Gunnar Hákonarson, framkvæmdastjóri Kolaportsins, meðal hluthafa. Ríkissjóður á húsnæðið, Tryggvagötu 19, en borgin framleigir hluta jarðhæðar til Portsins.

Það var með þessa þróun og endurgerð Kolaportsins í huga sem ViðskiptaMogginn settist niður með Gunnari Hákonarsyni framkvæmdastjóra Kolaportsins. Teikningarnar hér til hliðar eru teiknaðar af ítalska arkitektinum Michele Santucci sem er Portinu innan handar með útfærslur. Á þeim má sjá að fjölbreytnin verður meiri með þeirri viðbót að bæta færanlegu markaðstorgi við núverandi nytjamarkað.

Kolaportið verður í vesturhlutanum

Nytjamarkaðurinn – gamla Kolaportið – verður í vesturhluta hússins en markaðstorgið austan við hann. Matarmarkaðurinn verður til suðurs en í norðausturhorninu verður matartorg og bar. Vestan við matartorgið verður hægt að koma fyrir sviði fyrir tónleika og viðburði. Summan af þessu verður Hafnarþorpið sem byggt verður upp í áföngum næstu misseri.

Samtalið hefst á að ræða upphaf Kolaportsins sem var opnað 8. apríl 1989 í bílageymslu við Arnarhól. Broddmjólkin, harðfiskurinn, lakkrísinn og allt hitt urðu fastir liðir í borgarlífinu.

„Þegar Kolaportið var stofnað var almennt óheimilt að hafa verslanir opnar um helgar. Það var meðal annars þess vegna sem fólk sótti í Kolaportið til að hafa eitthvað fyrir stafni. Það var hluti af bæjarferðinni um helgar að gefa öndunum, fara á kaffihús og koma svo við í Kolaportinu. Þar gátu gestir og gangandi rætt beint við framleiðendur á matvælum og seljendur ýmiss konar varnings. Þá var öllu pakkað saman á sunnudögum enda þurftu sölubásarnir að víkja fyrir bílastæðum virka daga. Það fór því ansi mikil vinna í að tæma á sunnudögum. Það takmarkaði umsvifin hjá seljendum sem gátu enda aðeins komið fyrir takmörkuðu magni af vörum um hverja helgi,“ segir Gunnar.

Að grunni til óbreytt frá upphafi

Hann hefur starfað hjá Kolaportinu síðan það var flutt í Tollhúsið í júní 1994.

„Grunnlíkanið að baki rekstrinum – að leigja rými undir sölubása – hefur verið óbreytt frá upphafi en með því að leyfa fólki að hafa sölubásana yfir vikuna í Tollhúsinu, og setja upp einhvers konar innréttingar, gátu seljendur komið upp stærra sölusvæði. Um leið nýttum við húsnæðið betur, en við getum haft stóra og litla aðila í bland og þeir geta minnkað eða stækkað básana eftir þörfum.“

– Hvernig hefur Kolaportið þróast?

„Með auknum fjölda ferðamanna á síðasta áratug komu fleiri sölubásar sem seldu vörur gagngert til útlendinga. Engu að síður verður stöðnun. Íslendingum sem sækja Kolaportið fer að fækka og það skapast þörf fyrir að hrista upp í hlutunum. Árin 2018 og 2019 áætluðum við að 75-80% gesta væru erlendir ferðamenn sem voru auðvitað mikil umskipti. Við fórum því að velta fyrir okkur leiðum til að gera Kolaportið meira spennandi fyrir Íslendinga. Hluti af því var að gera svæðið snyrtilegra. Lyktin af hákarlinum var svo kapítuli út af fyrir sig. Við vildum hafa nútímalegri nytjamarkað og meiri endurnýjun. Þessar breytingar skiluðu sér í aukinni umferð og við fórum að sjá ný andlit Íslendinga sem voru að versla. Þegar slakað var á sóttvörnum í vor fengum við allt að 5.000 manns á dag og samt áttu erlendu ferðamennirnir eftir að koma.“

Hægt að rýma með litlum fyrirvara

– Segðu mér meira af þessum breytingum. Hvernig var brugðist við stöðnun?

„Breytingin fólst fyrst og fremst í því að þétta raðirnar hjá sölufólkinu. Með því myndaðist þetta rými í austurhluta hússins sem við köllum viðburðatorg en það verður hægt að rýma með litlum fyrirvara fyrir allskyns viðburði; árshátíðir, tónleika, brúðkaupsveislur, matarmarkað, þemadaga og pólska viku svo eitthvað sé nefnt. Við erum opin fyrir öllu. Ég hef með mér góða aðila sem hjálpa mikið til, enda er ég viss um að Hafnarþorpið verði skemmtilegur og vinsæll staður sem bætir miðbæinn okkar.

Við vissum að við þyrftum að taka matarmarkaðinn í gegn. Friðrik Ármann Guðmundsson leiðir þá vinnu. Við ætlum að vera með girnilegan matarmarkað. Meðal annars verður þar mikið um vörur beint frá bónda. Allt saman ferskt og skemmtilegt. Matarmarkaður í miðbæ Reykjavíkur þar sem fólk getur gripið ferskt í matinn, girnilega osta og annað til að njóta heima hjá sér.

Aðkoman tekin í gegn

Við ætlum líka að taka aðkomuna austanmegin [gegnt Hafnartorginu] í gegn sem og almenningssalernin. Þegar fólk kemur inn um dyrnar mun það ganga fram hjá kaffihúsi og blómabúð með gjafavörur en við trúum því að ef aðkoman er góð muni fólk vilja halda áfram inn á markaðinn. Við viljum að fólk komi á markaðstorg sem er síbreytilegt. Nytjamarkaðurinn verður á sínum stað í vesturenda hússins en í austurhlutanum verður síbreytilegt markaðstorg sem verður hægt að rýma með litlum fyrirvara fyrir viðburði.

Við ræddum meðal annars við fulltrúa Iceland Airwaves sem sögðu „Af hverju var ekki búið að segja okkur frá þessum stað? Hér getum við leikið okkur og gert allt mögulegt.“ Þeir eru að gera ráðstafanir til að koma fyrir viðburðum á hátíðinni í haust.“

Höfðu til skoðunar að opna mathöll

– Hvernig verður veitingasalan?

„Við ætluðum að vera með mathöll – nafnið segir allt sem segja þarf – en eftir nánari umhugsun ákváðum við frekar að vera með matartorg í norðausturenda hússins með íslenskum grunni. Bjóða upp á fiskinn, kjötið, súpuna og salatið og auðvitað einnig girnilega skyndibita.“

– Hvað sérðu fyrir þér marga rekstraraðila?

„Við stefnum ekki að því að vera með marga rekstraraðila heldur að vera með einn sem þarf að vera fær í að reka heilt matartorg og hefur kannski með sér kokka sem geta eldað fjölbreyttan mat. Þá fæst þessi tilfinning fyrir götumat sem er svo vinsæll þessa dagana. Það verður heldur ekki dýrt að borða hjá okkur. Við verðum að vanda okkur mikið við matartorgið og barinn enda þurfum við að geta verið sveigjanleg ef hingað koma aðilar sem vilja leigja torgið fyrir viðburð.“

Samstarf við Reykjavíkurmaraþonið

– Ræðum aðeins meira um viðburðina.

„Við ætlum okkur meðal annars að eiga í samstarfi við aðila í íþróttageiranum, hreyfi- og lífsstílsglaða hópa. Við höfum meðal annars rætt við fulltrúa Reykjavíkurmaraþons um að hafa hér móttöku fyrir hlaupið í framtíðinni og samkvæmi fyrir boðsgesti að hlaupi loknu. Til stendur að hafa samkvæmi eftir hlaupið nú í fyrsta sinn í ágúst.“

– Hvenær lýkur uppbyggingunni?

„Það liggur ekki fyrir. Þó mun mikið gerast í ár og með haustinu birtast skemmtilegir hlutir sem munu fá fólk til að segja „vá“.“

– Hvaðan kemur hugmyndin að Hafnarþorpi?

„Við höfum oft rætt hversu gaman það væri að setja upp lifandi markaðstorg. Aron Einar Gunnarsson [sjá grein hér til hliðar] og Kristbjörg Jónasdóttir höfðu líka á orði að þegar Íslendingar ferðist til útlanda byrji þeir á að „gúgla“ markaðstorg á ensku. Þau eru enda meðal vinsælustu staða víða um heim. Til dæmis er Time Out Market annar vinsælasti staðurinn að heimsækja í Lissabon. Hann er ekki í miðbænum heldur þarf að gera sér ferð – ganga í tíu mínútur frá miðbænum eða taka leigubíl – og þar er boðið upp á mat og viðburði. Við erum aftur á móti með meira úrval og erum í hjarta miðbæjarins. Svo er veðurfarið í Portúgal 80% útiveður og 20% inniveður, öfugt við veðrið hjá okkur á Íslandi. Svona markað vantar í Reykjavík. Hversu oft hef ég verið spurður af útlendingum: „Is there any marketplace in Reykjavík?“ Við hugsum okkur að bæjarbúar muni leggja leið sína hingað reglulega. Fólk sem býr í nágrenninu, eða vinnur í miðbænum, mun til dæmis geta komið með föt í hreinsun og verslað í matinn í leiðinni.“

Aðstoða listafólk að koma sér á framfæri

– Hvað mun kosta að leigja nýju rýmin á markaðstorginu? Munu seljendur geta leigt sér minni sölurými en nú eru á boðstólum?

„Við ætlum okkur að vera vistvæn á allan mögulegan hátt. Vera væn við þá sem vilja koma sér á framfæri án þess að það kosti þá aðra höndina. Ef einhver er til dæmis að föndra hálsmen úr íslensku hrauni mun sá geta fengið hér ódýra aðstöðu en ekki þurfa að greiða tugi þúsunda fyrir heilan bás og leigu á posa. Það er alltof dýrt fyrir slíka einyrkja. Við munum bjóða upp á pakka þar sem allt verður innifalið, aðstaða og posi.

Markaðs- og viðburðatorgið verður um 800 fermetrar og þar verður allt á hjólum og færanlegt. Þannig að seljendur á torginu vita að þeir þurfa stundum að víkja og verður básunum þá komið fyrir á bak við harmónikuhurðirnar sem munu skilja torgið og nytjamarkaðinn að.“

Lífsstílsvörur og reiðhjól

– Hvernig mun vöruúrvalið í Kolaportinu breytast með markaðstorginu? Gætirðu tekið dæmi um nýjungar?

„Til dæmis verða á torginu lífsstílsvörur, vörur fyrir hreyfingu og útivist, snjallvörur, alls kyns vörur fyrir ferðalanga, snjalltæki og líklega einnig hjól og rafhjól, svo eitthvað sé nefnt sem kemur til viðbótar við vöruúrvalið hjá okkur. Úrvalið verður mun meira en áður enda er um heilt „þorp“ að ræða.“

– Hvers vegna leggið þið svona mikla áherslu á að fá Íslendinga í húsið?

„Við viljum fyrst og fremst vera með góðan stað fyrir okkar fólk, Íslendinga, því svona stað vantar hér á landi. Með því að stíla fyrst og fremst inn á Íslendingana erum við sannfærð um að ferðamennirnir muni koma. Við teljum að Hafnarþorpið verði skemmtileg miðstöð fyrir innlenda sem erlenda gesti. Miðstöð þar sem fólk getur jafnvel varið heilum degi, ekki ósvipað og í flottum fríhöfnum eða á lestarstöðvum erlendis þar sem hægt er að finna svo margt til dundurs. Þorpið er innanhúss, hitastigið um 20 gráður og engin rigning og þar verður meðal annars „strönd“ með barnahorni.“

Ódýrt að koma list á framfæri

– Mér skilst að þið hafið hugmyndir um að gera listamönnum hátt undir höfði. Hvernig mun það birtast gestum Kolaportsins?

„Það verður ódýrt að koma list á framfæri hjá okkur. Við höfum einnig rætt við skóla í Reykjavík um samstarf við sýningar á verkum nemenda í Hafnarþorpinu en þar mun fjöldi fólks geta séð verkin. Þá höfum við rætt við skólana um ýmiss konar samstarf í list og menningu.“

– Þið eigið í samstarfi við ítalskan hönnuð, Michele Santucci, og annan listamann. Hvað einkennir hönnunina á Hafnarþorpinu?

„Hönnunin er hrá en skemmtileg. Viður hefur verið endurnýttur hjá okkur og þegar smíðavinnu lýkur munu skemmtilegar útfærslur sjást. Listamaðurinn Einars Timma hannaði og smíðaði skemmtilega hringbarinn okkar,“ segir Gunnar Hákonarson að lokum.

Aron Einar og Kristbjörg fjárfesta í markaðstorginu

Athafnahjónin Aron Einar Gunnarsson og Kristbjörg Jónasdóttir hafa gengið til liðs við Gunnar Hákonarson og félaga og tekið þátt í undirbúningi Hafnarþorpsins.

Þau koma inn í Hafnarþorpið sem fjárfestar og meðeigendur í verkefninu.

Spurður um aðdragandann segir Aron Einar að Ívar Jósafatsson hafi kynnt þeim hugmyndir um að betrumbæta Kolaportið.

„Okkur fannst þetta spennandi verkefni og við vildum fá að taka þátt í að breyta Kolaportinu sem var orðið dálítið lúið. Við vildum taka þátt í að skapa markað í Reykjavík, eins konar þorp innandyra, þar sem er alltaf gott veður. Slíkur markaður hefur aldrei verið til á Íslandi,“ segir Aron Einar sem horfir til erlendra markaðstorga.

Kom við á keppnisferðunum

„Ég man að það fyrsta sem móðir mín „gúglaði“, þegar farið var í utanlandsferð, var hvort þar væru markaðir,“ segir Aron Einar sem kveðst lengi hafa haft taugar til Kolaportsins. Hann minnist þess að hafa á yngri árum komið þar við í keppnisferðum í handbolta og fótbolta og keypt lakkrís og kókosbollur, áður en haldið var heim norður.

Nú sé hins vegar kominn tími á endurnýjun án þess þó að glata tengingunni við uppruna Kolaportsins. „Við viljum halda í stemninguna en betrumbæta ýmsa hluti og koma þeim hægt og rólega í verk.“

Kristbjörg og Aron Einar, sem er fyrirliði karlalandsliðsins í knattspyrnu og atvinnumaður í Katar, hafa haft mörg járn í eldinum.

Árið 2017 stofnaði Aron Einar íbúðahótelið Lava Apartments á Akureyri, í samstarfi við félaga sinn fyrir norðan, og um líkt leyti fjárfesti hann í bjórböðum Kalda á Árskógssandi. Árið 2019 hófu hjónin svo framleiðslu á snyrtivörum undir merkjum AK Pure Skin, í samstarfi við Pharmarctica í Grenivík.

Skoða spennandi verkefni

– Þér hefur vegnað vel sem atvinnumaður. Sérðu fyrir þér að fara út í frekari fjárfestingar eftir að þeim ferli lýkur?

„Já, það kemur vel til greina. Við tökum okkur alltaf góðan umhugsunartíma og ef það koma spennandi verkefni inn á okkar borð erum við alltaf með augun opin fyrir fjárfestingum. Það er virkilega spennandi að gera eitthvað allt annað en að vera að sprikla á fótboltavelli og elta bolta og stjórna fótboltamönnum í kringum sig.“

– Kemur til greina að fjárfesta jafnframt í annars konar starfsemi í miðborginni nú þegar ferðaþjónustan er að lifna við?

„Við ætlum að byrja á þessu. Svo sjáum við hvað gerist í framhaldinu en sem stendur einbeitum við okkur að þessu verkefni. Þegar Hafnarþorpið er farið að taka á sig mynd verður til skemmtilegt þorp innandyra sem fólk á eftir að hafa gaman af að sækja heim,“ segir Aron Einar Gunnarsson um hið væntanlega Hafnarþorp.