Helgi R.

Helgi R. Einarsson sendi mér póst þar sem sagði, að „þessar limrur urðu til í leikfimitímum með heldri borgurum í Mosfellsbæ“:

Útifjör með eldri borgurum

Það er erfitt að þegja

þegar við erum að teygja

því að hér

í hóp með mér

hafa‘ allir margt að segja.

Fyrst skal um liðina losa

svo líkjumst við ekki‘ honum Gosa

síðan að anda

árangri landa

og bannað að gleyma að brosa.

Vettlinga‘ á höndunum höfum

sem halda á göngustöfum.

Hentar það víst

á vappi‘, ekki síst,

ömmum bæði og öfum.

Ámann Þorgrímsson yrkir á Boðnarmiði og segir „bjart framundan“:

Ljúfsár er tíminn, samt lofa það skal

í lífinu fundið hef skjól

þó gosmistur leggi frá Geldingadal

í Grænuhlíð alltaf er sól.

Ólafur Stefánsson staldrar við og segir eftir á: „væll er þetta“:

Þegar síðasta fræinu' er sáð,

seinasta hugsjónin máð.

Þá er vestanhöll sólin

vanbúin skjólin

og í vindinn öll viðleitni stráð.

„Lúpínan“ er hér yrkisefni Jóns H. Karlssonar:

Lúpínan læðist um heiðar.

Leiðirnar finnur hún greiðar

Þar vex hún og vex

við reiði og rex

og rifrildi kemur til leiðar.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir og kallar „Hundakæti“:

„Ég af því hef endalaust gaman

og engist af hlátri“, kvað daman,

„þegar hundurinn minn

tekur hringsnúninginn,

til að hann nái endunum saman“.

Vigfús M. Vigfússon er með „enn meiri endurvinnslu“ á gamalli ferðasögu:

Öxar- við fjörðinn er friður

og fuglanna einstakur kliður.

Sem minnir á þetta;

að Melrakkaslétta

snýr frekar í norður en niður.

Gunnar J. Straumland er með skrítinn þanka:

Varla auka vísur mínar

veraldarauð,

en þær raunar eru fínar

ofaná brauð.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is