Lionel Messi
Lionel Messi
Lionel Messi vann á dögunum Ameríkubikarinn í knattspyrnu, Copa America, í fyrsta skipti með landsliði Argentínu þegar það sigraði Brasilíu í úrslitaleik, 1:0. Hann var jafnframt besti leikmaður keppninnar í nánast öllum mögulegum tölfræðiþáttum.

Lionel Messi vann á dögunum Ameríkubikarinn í knattspyrnu, Copa America, í fyrsta skipti með landsliði Argentínu þegar það sigraði Brasilíu í úrslitaleik, 1:0. Hann var jafnframt besti leikmaður keppninnar í nánast öllum mögulegum tölfræðiþáttum.

Messi varð annar tveggja markahæstu leikmanna keppninnar með fjögur mörk og átti þátt í langflestum mörkum, eða níu af þeim tólf sem Argentínumenn skoruðu í keppninni.

Hann átti flestar stoðsendingar, fimm talsins, skoraði tvisvar úr aukaspyrnu sem enginn annar lék eftir, átti flestar stungusendingar (níu), skapaði flest marktækifæri (21), átti flestar sendingar á síðasta þriðjungi (133), átti flest markskot (28) og hitti oftast á markið (11 sinnum).

Til samanburðar þá dreifðist sama tölfræði á ellefu mismunandi leikmenn í Evrópukeppninni sem fram fór á sama tíma. Eini tölfræðiþátturinn þar sem einhver Evrópubúi skákaði Messi var sendingar á síðasta þriðjungi þar sem hinn kornungi Pedri átti 177 slíkar fyrir Spánverja.