Sigurður Ásgeirsson fæddist í Reykjavík 3. mars 1936. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 9. júlí 2021.

Foreldrar Sigurðar voru Jónína Guðrún Sigurðardóttir húsmóðir, f. 1899, d. 1992 og Ásgeir Guðbjartsson beykir, f. 1901, d. 1977.

Systkini Sigurðar: Guðbjörg Svanfríður Níelsen (samfeðra), f. 1924, d. 2007, Steinunn (Stella) Thomas, f. 1931, Guðbjartur Kristinn Ásgeirsson, f. 1932, d. 2012, Einar Ásgeirsson, f. 1934 og Þórir Ásgeirsson, f. 1938.

Sigurður kvæntist Svanlaugu Maríu Ólafsdóttur 9. nóvember 1957.

Hún er dóttir hjónanna Ólafs Björns Þorsteinssonar, f. 1915, d. 1993 og Guðmundu Guðrúnar Sigurðardóttur, f. 1916, d. 1992.

Börn Sigurðar og Maríu eru:

1) Ólafur, f. 1957, maki Sigrún Þorsteinsdóttir. Börn þeirra eru Bylgja Dögg, Svanlaug María, Fannar Geir, Arnar Berent, Kristín og Þorsteinn. Barnabörn þeirra eru tólf og barnabarnabörnin tvö.

2) Jónína, f. 1958, maki Jón Ágúst Benediktsson. Börn þeirra eru Sigurður Ásgeir, Benedikt Freyr, Jóna Guðný og Jenný María. Barnabörn þeirra eru tíu.

3) Sigurður Sigurðsson, f. 1964, maki Ásta Guðmunda Hjálmtýsdóttir. Börn þeirra eru Magni Reynir, Ólöf Ýr, Guðrún Björg og Hjálmtýr Axel. Barnabörn þeirra eru þrjú.

4) Kolbrún Guðmunda, f. 1972, maki Sigmar Torfi Ásgrímsson. Dætur þeirra eru Tinna María, Marta Kristín og Unnur Marín.

Sigurður ólst upp á Smyrilsvegi á Grímsstaðaholti. Hann hóf ungur að árum störf sem blaðburðardrengur á Grímsstaðaholtinu, síðan tóku við sendlastörf hjá Símanum en hann starfaði síðar lengi á fraktskipum Eimskips en lengst af við bifreiðaakstur.

Sigurður og María hófu búskap sinn á Njálsgötu 17 en byggðu sér svo hús við Holtagerði 39 í Kópavogi árið 1964. Þar bjuggu þau til ársins 2016 er þau fluttu í Kópavogstún 5.

Sigurður var einn af stofnfélögum Knattspyrnufélagsins Þróttar og sló hjarta hans fyrir félagið alla tíð.

Sigurður hafði mikinn áhuga á fornbílum og var virkur félagi í Fornbílaklúbbi Íslands.

Útför Sigurðar fer fram í dag, 14. júlí 2021, frá Fossvogskirkju og hefst athöfnin klukkan 15. Stytt slóð á streymi:

https://tinyurl.com/hhhyudc6

Virkan hlekk má finna á

https://www.mbl.is/andlat

Elsku pabbi minn, það sem ég á eftir að sakna þín en á sama tíma er ég svo glöð að þú þurfir ekki að þjást meira og fáir núna að vera frjáls í sumarlandinu.

Pabbi var búin að eiga við veikindi að stríða síðan snemma árs 2019 og byrjaði þar með hans sjúkrasaga. Fékk hann inni á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í febrúar í fyrra, bara rétt fyrir covid og mikið vorum við glöð að hann komst þangað inn rétt fyrir þessa erfiðu tíma. Það var gott að vita af honum í öruggum höndum hjá þeim á Sunnuhlíð og við fengum svo sannarlega að kynnast því frábæra fólki síðustu dagana hans þar sem við vorum með þér þar í heila viku dag og nótt.

Pabbi var mikill þrjóskupúki og með svartan húmor og hann hélt því alveg fram á síðasta dag. Það var gaman að sjá að þótt hann væri mjög veikur þá gat hann alltaf komið með einhver skot á mann og oft sagði hann við mig þegar ég var að laga hann „ert þú ekki að fara að koma þér heim stelpa“ og blikkaði mann svo.

Pabbi var mikil fánamaður og var alltaf búin að flagga snemma á fánadögum þegar þau mamma bjuggu í Holtagerði 39. Hann átti það líka til að keyra fram hjá húsunum okkar Sigga bróður, þar sem við áttum nú heima rétt hjá og með fánastöng, og lét okkur alveg vita að hann var ekki sáttur þegar fáninn var ekki kominn upp hjá okkur, eins ef við gleymdum honum uppi sem gerðist stöku sinnum.

Pabbi og mamma bjuggu nánast alla sína tíð í Holtagerði 39 og voru þau mjög stolt af húsinu sínu sem þau byggðu sjálf. Þau fluttu inn í það snemma árs 1965 og bjuggu þar til ársins 2016 en þá seldu þau húsið og fluttu á Kópavogstún þar sem mamma býr núna. Pabbi eyddi miklum tíma í að hugsa um húsið og var það alltaf í toppstandi hjá honum og málaði hann það nánast annað hvort ár! Hann byggði við það auka stofu og sólskála og lagði hann mikla vinnu í garðinn og allt í kring. Þegar ég var lítil þá byggði hann kofa úti í garði sem skírður var Litla land. Þar átti ég góðar stundir í mömmuleik og var dugleg að breyta í litla húsinu mínu. Þegar ég var hætt að nenna að vera í kofanum þá breytti hann kofanum og talaði alltaf um að fá sér hænur í hann en lét ekkert verða að því, svo ég ákvað nú ein jólin að gefa honum bara hænur í jólagjöf. Ég fékk tvær hænur og var með þær í bílskúrnum þar til á aðfangadagskvöld, þá gáfum við honum lítinn kassa með lykli af bílskúrnum okkar. Pabbi hélt að hann væri að fá Vespu en þegar hann kom út í bílskúr biðu hænurnar hans þar, og það sem hann var hissa. Hann var nú ekki alveg á því að taka þetta með sér heim en hann kom svo og sótti þær á jóladag og kom þeim fyrir í kofanum hjá sér, og það sem þetta voru dekraðar hænur það var ekkert lítið og hann hélt bókhald yfir það þegar þær byrjuðu að verpa og allt.

Elsku pabbi minn, takk fyrir allt og njóttu þess að keyra um í gullvagninum í sumarlandinu og syngja Bonasera senorita.

Guð veri með þér elsku besti minn.

Þín dóttir

Kolbrún.

Elsku afi, þegar ég hugsa til baka um allar þær stundir sem við áttum saman þá fyllist ég þakklæti og hlýju. Ég er svo þakklát fyrir að eiga þig sem afa því okkar samband var alveg einstakt. Þau orð sem lýsa þér best afi eru sterkur, þrjóskur, fyndinn og stríðnasti maður á Íslandi því ég er viss um að stríðnari mann sé ekki hægt að finna og varstu sko heldur betur að stríða okkur síðustu dagana sem þú lifðir enda varstu kallaður afi stríðnis.

Svo má nú ekki gleyma því að þú varst líka galdramaður, ég gleymi því seint þegar þér tókst að galdra fram hana Línu Langsokk fyrir mig á fjögurra ára afmælisdaginn. En þá hafðir þú nýlega fengið hjartaáfall og lást inni á Landspítalanum þegar ég og mamma komum til þín í heimsókn. Mamma náði að lauma til þín henni Línu, þú stóðst á miðjum gangi og náðir að galdra fram úr lausu lofti Línu Langsokk fyrir mig í afmælisgjöf. En það er nú ekki langt síðan ég fattaði galdrabragðið hjá þér afi.

Ég var svo heppin að fá að búa með ykkur ömmu og mömmu í Holtagerði 39, þar sem við vorum alltaf að brasa eitthvað skemmtilegt og þá yfirleitt í bílskúrnum eða úti í garðinum og alltaf hafðir þú endalausa þolinmæði gagnvart mér.

Ég gæti endalaust talið upp góðar og skemmtilegar minningar sem við áttum, afi minn, en ég ætla að láta þetta duga í bili og geyma allar þessar fallegu minningar í hjarta mínu. Svo þegar minn tími kemur munum við skella okkur til Kúbu og tjútta saman eins og við töluðum um að gera einn daginn! En þangað til ætla ég að lifa lífinu og hafa gaman af því, því það var það sem þú kenndir mér, elsku afi minn.

Þangað til næst afi, Guð verið með þér.

Þín afastelpa,

Tinna María.