Mikil nýsköpun hefur tengst sjávarútvegi í gegnum tíðina hér á landi.
Mikil nýsköpun hefur tengst sjávarútvegi í gegnum tíðina hér á landi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Á tyllidögum grípa ýmsir til þess klóka bragðs að ræða um mikilvægi nýsköpunar. Hugtakið er víðfeðmt og á margan hátt órætt. Enginn veit hvar nýsköpun morgundagsins liggur. Bestu dæmin um hana spretta gjarnan fram þar sem enginn átti von á því.

Á tyllidögum grípa ýmsir til þess klóka bragðs að ræða um mikilvægi nýsköpunar. Hugtakið er víðfeðmt og á margan hátt órætt. Enginn veit hvar nýsköpun morgundagsins liggur. Bestu dæmin um hana spretta gjarnan fram þar sem enginn átti von á því. En það er mikilvægt að skapa aðstæður til nýsköpunar enda mun hún leika lykilhlutverk í verðmætasköpun framtíðar. Hún mun hins vegar ekki síst eiga sér stað á vettvangi atvinnugreina sem nú þegar standa styrkum fótum. Þess vegna er varasamt að stilla fyrirbærinu upp sem andstæðum pól við það sem nú þegar skilar samfélaginu auði og velsæld.

Gjarnan er bent á að íslenskt efnahagsumhverfi bjóði ekki upp á kjöraðstæður fyrir sprota og fyrirtæki sem eru smá í sniðum en ættu að hafa burði til þess að vaxa og verða stór. Bendir OECD á þetta í nýrri skýrslu um Ísland og fullyrðir raunar að stuðningskerfi stjórnvalda sé fremur gert til þess að hygla burðugum og stærri fyrirtækjum en hinum smærri. Það er vont ef rétt reynist. Þar þarf að tryggja jafnvægi, heilbrigt umhverfi fyrir þau fyrirtæki sem sannað hafa gildi sitt og mikilvægt er að halda í, en ýta undir þau sem eru lítil en eiga mikla vaxtarmöguleika.

Það hefur vakið eftirtekt Innherja að tvö spennandi nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæft hafa sig í framleiðslu hátæknibúnaðar til fiskvinnslu hafa verið seld til risa á alþjóðamarkaðnum. Fyrst var það Skaginn 3X sem keyptur af var hinu þýskættaða Baader og nú síðast Valka sem Marel kaupir og fer létt með. Það er ósjaldan sem það verða hin eðlilegustu örlög nýsköpunarfyrirtækja að enda sem deildir í stærri og rótfastari fyrirtækjum. Hins vegar má spyrja í ljósi þess sem OECD færir fram hvort kerfið hér heima ýti undir meiri fábreytni á markaðnum en raunveruleg nauðsyn ber til.