Gunnar Hákonarson segir horft til vinsælla markaðstorga erlendis.
Gunnar Hákonarson segir horft til vinsælla markaðstorga erlendis. — Morgunblaðið/Unnur Karen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á næstu misserum mun Kolaportið taka miklum breytingum og það verða hluti af Hafnarþorpinu.

Gunnar Hákonarson, framkvæmdastjóri Kolaportsins, segir Hafnarþorpið munu samanstanda af Kolaportinu, nýju markaðs- og viðburðatorgi og endurgerðum matarmarkaði. Þá verði matartorg með fjölbreyttu úrvali á veitingastað og svið fyrir hvers kyns viðburði.

Söluborðin á markaðstorginu verða færanleg og þannig myndast rými fyrir hvers kyns viðburði. Þá meðal annars veislur, brúðkaup og Iceland Airwaves-tónleikahátíðina.

Með þessum breytingum á að auka fjölbreytni í verslun í Hafnarþorpinu og styrkja það í sessi sem viðkomustað í borgarlífinu.

Meðal fjölsóttustu staða

Gunnar segir tekið mið af markaðstorgum erlendis sem séu meðal vinsælustu áfangastaða. Þar megi nefna til dæmis hinn fjölsótta Time Out-markað í Lissabon.

Gunnar hefur fengið fjárfesta í lið með sér í þessu verkefni.

Meðal þeirra eru hjónin Kristbjörg Jónasdóttir og Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði karlalandsliðsins í knattspyrnu, en þau hafa m.a. fjárfest í hótelrekstri og húðvörum undir merkjum AK Pure Skin.

Opinn fyrir fjárfestingu

Aron Einar segist í samtali við ViðskiptaMoggann ekki útiloka frekari fjárfestingu í miðborginni.

„Við ætlum að byrja á þessu. Svo sjáum við hvað gerist í framhaldinu, en sem stendur einbeitum við okkur að þessu verkefni,“ segir Aron um Hafnarþorpið.