40 ára Jasa Baka fæddist 14. júlí 1981 í Toronto í Kanada en fjölskyldan flutti þegar hún var tveggja ára til Vancouver, en þar bjó íslensk amma hennar, Jóna Mowczan (fædd Jónsson).
40 ára Jasa Baka fæddist 14. júlí 1981 í Toronto í Kanada en fjölskyldan flutti þegar hún var tveggja ára til Vancouver, en þar bjó íslensk amma hennar, Jóna Mowczan (fædd Jónsson). „Þar var gott að alast upp og við vorum mikið úti í náttúrunni, fórum á ströndina, upp í fjöllin, en útivist er mjög vinsæl í Vancouver.“ Jasa flutti árið 2003 til Montreal og fór í Listaháskóla þar sem hún hóf nám í leikmyndahönnun og útskrifaðist árið 2008. „Ég bjó þar í tíu ár og var í samstarfi við dansara, tónlistarmenn og gjörningalistamenn í ýmiss konar verkefnum og svo skrifaði ég líka handrit fyrir kvikmyndir og tónlistarmyndbönd.“ Jasa ferðaðist oft í tengslum við listina og fór m.a. til New York oft en einnig til Grikklands og Prag í Tékklandi.

Árið 2017 kom Jasa til Íslands til þess að vera gestalistamaður á Ísafirði. Hún kom með móður sinni, Deborah Alanna, og systur, Týr Jami, sem er í hljómsveitinni Syngja. Þær bjuggu til gjörning sem byggði á kassettum sem þær áttu með söng langömmu hennar, Ingibjargar Guðmundsdóttur (1891–1994) og Jónu ömmu hennar. „Við tókum hluta af lögunum og settum í nýjan búning og þetta varð gjörningur með tónlist og myndum sem tengdi saman fjórar kynslóðir kvenna. Svolítið eins og miðilsfundur þar sem langömmu var boðið inn í salinn.“ Gjörningurinn var sýndur á Ísafirði og í Vestmannaeyjum og í Mengi í Reykjavík.

Núna er Jasa í meistaranámi í LHÍ og útskrifast á næsta ári. Hún segir að hún sé komin inn á nýjar brautir í listinni. „Núna er ég mjög upptekin af yfirnáttúrulegum verum sem gætu verið hluti af náttúrunni, en eru um leið svona leikandi, stríðið og skapandi afl. Þær virðast, við fyrstu sýn, vera svolítið sætar, það er ekki allt sem sýnist.“

Jasa býr með kærasta sínum, Kristjáni Einvarði Karlssyni myndlistarmanni, í Reykjavík. Á Djúpuvík stendur yfir sýningin The Factory þar sem Jasa tekur þátt í samsýningu listamanna.