Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Í byrjun mánaðarins var tilkynnt um að Ísland yrði á lista yfir 130 ríki sem styðja áform G7-ríkjanna um samræmdan lágmarksskatt á fyrirtæki.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Í byrjun mánaðarins var tilkynnt um að Ísland yrði á lista yfir 130 ríki sem styðja áform G7-ríkjanna um samræmdan lágmarksskatt á fyrirtæki. Er framtakið eignað Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna og fyrrverandi seðlabankastjóra. Er átakinu ætlað að þrengja að lágskattaríkjum sem laða til sín stórfyrirtæki sem hagnast á alheimsviðskiptum en koma sér undan skattgreiðslum með því að hnika heimilisfesti sinni til eftir þörfum. Lágmarksskattkerfið verður tvíþætt en það sem vekur mesta eftirtekt er þó sú staðreynd að viðmiðið verður að fyrirtækjaskattur verði ekki lægri en 15%. Hefur verið bent á að prósentunni sé m.a. beint gegn Írlandi sem er með 12,5% skatthlutfall meðan Bretar eru í 19% og stefna á að hækka í 25% árið 2023.

Á Íslandi er almennt þrep fyrirtækjaskatts 20% og miðað við viðmið samkomulagsins mætti lækka hann um fjórðung til þess að koma í veg fyrir flótta fyrirtækja út úr íslenskri efnahagslögsögu. Og auðvitað ætti það að vera íslenskum stjórnvöldum kappsmál að halda sköttum sem lægstum hér á landi. Það eflir rekstrarskilyrði fyrirtækjanna, hvetur eigendur þeirra til að byggja þau upp hér á landi og eykur líkurnar á því að fyrirtæki erlendis vilji hefja starfsemi í landinu. Með því skapast meiri heildartekjur fyrir þjóðarbúið en ef markmiðið er að skattleggja með sem stórkarlalegustum hætti þau fáu fyrirtæki sem þrifist geta undir slíku oki. Þetta á ekki aðeins við um fyrirtækin heldur einstaklingana einnig. Nú styttist í þingkosningar og kjósendur ættu að sperra eyrun um það hvernig framboðin tala um skatta og skattheimtu. Þar gæti lykillinn að bættum lífsskilyrðum á komandi árum leynst.