Verktakar vinna nú að byggingu meðferðarkjarna nýs Landspítala, en myndin var tekin af grunninum í gær.
Verktakar vinna nú að byggingu meðferðarkjarna nýs Landspítala, en myndin var tekin af grunninum í gær. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Esther Hallsdóttir esther@mbl.is Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segist hafa áhyggjur af því að kostnaður við verkefni Nýs Landspítala ohf. verði enn hærri en nú er gert ráð fyrir.

Esther Hallsdóttir

esther@mbl.is

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segist hafa áhyggjur af því að kostnaður við verkefni Nýs Landspítala ohf. verði enn hærri en nú er gert ráð fyrir.

Í frétt Morgunblaðsins í gær um svör fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Bergþórs kom fram að kostnaðaráætlanir um nýbyggingar Landspítalans hefðu hækkað um 16,3 milljarða frá árinu 2017. Ástæðan er aukið umfang verkefnisins, meðal annars vegna stækkunar meðferðakjarna spítalans.

Í svarinu segir einnig að undirbúningur standi nú yfir að áætlanagerð fyrir verkefnið í heild sinni. Vonir standi til að áætluninni verði lokið seint á árinu 2022 en útilokað sé að það verði fyrr því enn eigi eftir að taka ákvarðanir um hvað af eldra húsnæði spítalans verður nýtt og hvaða breytingar þurfi að gera á því.

„Áhyggjur mínar eru að kostnaður við verkefnið eins og það er muni verða meiri en það lítur út fyrir núna. Síðan held ég að menn séu að horfa á verulegan kostnað umfram það sem reiknað var með hvað varðar lagfæringar á eldra húsnæðinu. Það mun ekki fljóta upp fyrr en á nýju kjörtímabili,“ segir Bergþór.

Hann segir óvissu verkefnisins greinilega enn mikla og að brýnt sé að stjórn Nýja Landspítalans og stjórnvöld klári þær ákvarðanir og greiningar sem þurfi að eiga sér stað svo menn sjái til lands með heildarumfang verkefnisins.

„Það er ótrúleg staða að menn séu núna, um mitt ár 2021, að velta því fyrir sér hvaða húsnæði eigi að nota af því sem eldra er og það þarfnast auðvitað verulegra lagfæringa. Við getum vísað þar í fréttir af myglu og annað sem virðist vera grasserandi allt um kring þarna,“ segir hann.

Þá sé ótækt fyrir þingið að breytingar á verkefninu séu að meginhluta að eiga sér stað með ógegnsæjum hætti innan opinbers hutafélags í stað þess að eiga sér stað á þinginu.

Fyrirspurn Bergþórs var fyrst lögð fram í janúar 2020 og tók því eitt og hálft ár að fá svör.

Spurður hvort umfang verkefnisins muni aukast, þegar búið verður að taka ákvarðanir um nýtingu og endurbætur á eldra húsnæði og heildstæð áætlun liggur fyrir, segir Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala, stefnumörkun stjórnvalda segja til um það.

„Nú er þegar búið að ákveða forsendur varðandi fyrri hluta uppbyggingar við Hringbraut og byggingarreitir eru enn til staðar varðandi frekari uppbyggingu. Það mun væntanlega koma í ljós á næstu árum hvort frekar verður byggt með þeim krafti sem nú er,“ segir hann.

Stýrihópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins haldi utan um skipulag framkvæmda á Landspítala í heild sinni og muni vinna eftir þarfagreiningu á þeirri þjónustu sem heilbrigðiskerfið á að veita í framtíðinni. Þarfagreiningin muni segja til um hvað þarf að gera í viðbót við nýjan meðferðarkjarna og rannsóknahús til að geta uppfyllt þá heilbrigðisþjónustu sem stefnt er að. Við þarfagreininguna sé meðal annars skoðað hvaða hús eigi að byggja, hverjum á að halda og hver henti ekki undir starfsemi spítalans.

Bættu við starfsemiseiningum

Varðandi aukið umfang og kostnað verkefnisins frá árinu 2017 segir Gunnar að eftir að nýtt hönnunarteymi kom að verkefninu árið 2016 hafi Landspítalinn farið í samstarf við erlenda aðila í endurmat á ferlum og flæði hússins.

Í framhaldinu hafi verið tekin ákvörðun að bæta við fleiri starfsemiseiningum í húsið frá því sem var áætlað 2010 og breyta gangakerfi hússins og allri grunnuppbyggingu til að mæta þeim kröfum sem flæðigreiningin sýndi.