Kristófer Oliversson eigandi, Jökull Alexander Egilsson, hótelstjóri nýja hótelsins, og Eva Jósteinsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs CenterHótela.
Kristófer Oliversson eigandi, Jökull Alexander Egilsson, hótelstjóri nýja hótelsins, og Eva Jósteinsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs CenterHótela. — Morgunblaðið/Eggert
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Rekstur CenterHótel Granda, nýjasta hótelsins í miðborginni, er að komast í fullan gang en fyrstu gestirnir komu í byrjun júlí.

Áttunda CenterHótelið í miðborginni, CenterHótel Grandi, var opnað í byrjun mánaðarins. Á hótelinu eru 195 herbergi og er keðjan nú með um 960 herbergi í miðborginni.

Jökull Alexander Egilsson, hótelstjóri á CenterHótel Granda, segir rúmlega 130 herbergi hafa verið tekin í notkun á hótelinu. Það megi reikna með að öll herbergin verði komin í notkun á næstu vikum.

Jökull segir aðspurður að ríflega 20 manns muni starfa á hótelinu og um 40-50 manns á veitingahúsinu Héðinn Kitchen & Bar sem var opnað 17. júní síðastliðinn.

Heilsulind og kaffihús

CenterHótel Grandi sé skilgreint sem fjögurra stjörnu hótel með háu þjónustustigi. Á næstu vikum verði opnað kaffihús og síðar heilsulind.

Markmiðið sé að laða að Íslendinga með veitingasölu þannig að gestir geti blandað geði við heimamenn og þannig upplifað Reykjavík.

Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri CenterHótela og eigandi, ásamt eiginkonu sinni, Svanfríði Jónsdóttur, segir opnun hótelsins hafa verið mörg ár í undirbúningi.

Vinna við deiliskipulag vegna breytinga á gamla Héðinshúsinu hafi hafist 2017 og framkvæmdir í kjölfarið. Það hafi staðið til að opna fyrsta áfanga hótelsins í apríl 2020 en kórónuveirufaraldurinn setti þau áform úr skorðum. Því hafi lokafrágangi verið slegið á frest þar til menn sáu til lands í faraldrinum.

Skírskotað til sögunnar

Héðinshúsið var lengi ein af miðstöðvum iðnaðar í Reykjavík.

Kristófer segir að við endurhönnun hússins hafi verið leitast við að halda í söguna. Raunar hafi arkitektarnir, Gláma Kím, viljað halda sem mest í upprunalegar flísar og annað sem einkennir húsið.

Útkoman sé hótel sem skírskoti til þessarar merku iðnsögu. Það birtist í smáatriðum eins og letri í herbergjanúmerum og sérsteyptum ofnum frá Bretlandi.

Veitingasalurinn er byggður þar sem vélsmiðjan var áður og voru tvær hæðir byggðar ofan á þá hlið hússins. Þá voru gluggar síkkaðir á gömlu byggingunni og þakið endurgert. Fyrir vikið er gott útsýni úr herbergjunum til margra átta.

Kristófer segir Bandaríkjamenn áberandi meðal fyrstu gesta nýja hótelsins en á næstu vikum komi meðal annars Ísraelsmenn. Hann er bjartsýnn á að hingað komi tvær milljónir ferðamanna á næsta ári.