Pylsusali Baldur Rafnsson og með honum, frá vinstri, Margrét Helga Guðmundsdóttir og Íris Birta Heiðarsdóttir.
Pylsusali Baldur Rafnsson og með honum, frá vinstri, Margrét Helga Guðmundsdóttir og Íris Birta Heiðarsdóttir. — Morgunblaðið/Gunnar Kristjánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Margrét, Þórhildur, Jóakim og Henrik.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Margrét, Þórhildur, Jóakim og Henrik. Að fá sér pylsu í brauði er nokkuð sem Íslendingar tengja alltaf sterkt við Danaveldi og þegar Baldur Rafnsson opnaði pylsuvagninn Mæstró í Grundarfirði, kom ekki annað til greina en nefna veitingarnar sem á boðstólum eru eftir fólki í dönsku konungsfjölskyldunni. Um þessar mundir eru tíu ár síðan Baldur byrjaði að selja pylsur og hann heldur upp á það nú með því að selja valda rétti á því verði sem gilti á upphafsárinu, 2011.

Alfreð í Amalíuborg

„Vel kryddaðar pylsur, með bræddum osti, eru alltaf vinsælar hér á bæ,“ segir Baldur. „Meðal fjölmargra Íslendinga tilheyrir að fá sér pylsu í vagni við Strikið í Kaupmannahöfn. Mér fannst alveg blasa við að tengja veitingarnar hér við dönsku hirðina og fylgifiska hennar. Þar eru ýmsir tíndir til, hér fást til dæmis vel kryddaðar pylsur sem kallast Alfreð, sem nefndar eru eftir þekktum þjóni í Amalíuborg.“

Vorið 2011 fengu þeir Baldur Rafnsson og Gústav Alex Gústavsson fengu þá hugmynd að opna pylsuvagn í Grundarfirði, hvað þeir og gerðu. „Svona vagn er heilmikil græja og að koma rekstri af stað var svolítil fyrirhöfn, en bara skemmtilegt. Pylsurnar seldust eins og enginn væri morgundagurinn. Gústav sneri sér fljótlega að öðru svo ég og Inga Rut Ólafsdóttir, konan mín, tókum alfarið við keflinu. Sjálfur segi ég að pylsusala sé skemmtilegt sumarstarf,“ segir Baldur sem er tónlistarkennari á slagverk og málmblásturshljóðfæri að aðalstarfi. Þau Inga Rut og dóttir þeirra búa nú í Mosfellsbæ en eru áfram viðloðandi Grundarfjörð – sumar sem vetur.

Skemmtileg samskipti

Vertíðin í Mæstró hófst í lok maí og stendur til loka ágústmánaðar. Pylsur með ýmsu meðlæti í 12-13 útfærslum fást í vagninum, alls konar salöt og nýjasta nýtt eru kaloríuléttar heilsuvefjur, sem mælast vel fyrir. „Ferðamenn stoppa mikið hjá okkur og við höfum eignast fjölda tryggra viðskiptavina. Fjölskylda suður í Kópavogi hefur til dæmis sem fastan lið að fara í pylsutúr á Snæfellsnesið alltaf einu sinni á sumri og fleiri sögur í svipuðum dúr mætti tína til,“ segir Baldur.

„Svo flykkjast útlendingarnir líka hingað. Sumarið 2019 komu hingað í Grundarfjarðarhöfn alls 53 skemmtiferðaskip með þúsundum farþega sem ófáir komu í pylsur. Því hefur verið í nógu að snúast hér í vagninum góða – starfi þar sem samskipti við gott og skemmtilegt fólk eru aðalatriðið.“