Landverðir Kristín Ósk Jónasdóttir og Lydía Ósk Óskarsdóttir standa vaktina í Hornstrandastofu á Ísafirði.
Landverðir Kristín Ósk Jónasdóttir og Lydía Ósk Óskarsdóttir standa vaktina í Hornstrandastofu á Ísafirði. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Hornstrandastofa er góður staður til að hefja ferðalag á hinar afskekktu slóðir.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Hornstrandastofa er góður staður til að hefja ferðalag á hinar afskekktu slóðir. Hér á fólk að geta fengið tilfinningu fyrir því hvaða og hvernig náttúra fær vernd,“ segir Kristín Ósk Jónasdóttir hjá Umhverfisstofnun á Ísafirði. Nýlega opnaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra formlega Hornstrandastofu sem er í húsinu Björnsbúð við Silfurtorg á Ísafirði. Í gestastofu, sem kalla má anddyri Hornstranda, er sýning hvar kynna má sér margt af því sem gerir Hornstrandir einstakar; það er björg með fuglum á syllum, fjölbreytt flóra á þriðja hundrað plantna og melrakkinn, sem er alfriðaður á svæðinu.

Stafrænt og sterkt myndmál

Á sýningunni má meðal annars sjá myndband um fuglalíf við Hælavíkurbjarg og fá tilfinningu fyrir því hvernig mannlíf og samfélag voru í þessari byggð, þaðan sem síðasta fólkið flutti laust fyrir 1950. Enn eru búsetuminjar og hús, sem er vel við haldið, á Hesteyri, Aðalvík, Fljótavík og Hornvík svo nefndir séu nokkrir staðir.

„Já, ég tel okkur með þessari sýningu hafa að einhverju leyti náð að skapa andblæ Hornstranda. Með stafrænum útfærslum og sterku myndmáli má töfra sitthvað fram,“ segir Kristín. „Verkefni eins og þetta þróast svo alltaf í fyllingu tímans. Þá sé ég fyrir mér að segja hér ítarlegar frá búsetu á Hornströndum. Þar var harðbýlt en sjórinn og fuglabjörgin gáfu vel, svo aldrei varð matarskortur. Af þessu eru til margar sögur.“

Friðlandið 600 ferkílómetrar

Friðlandið á Hornströndum er nyrst á Vestfjörðum; nær frá Hrafnfjarðarbotni í Jökulfjörðum norður í Furufjörð. Alls eru þetta 600 ferkílómetrar: friðland frá 1975. Yfir sumarið er siglt frá Ísafirði og Bolungarvík á Hornstrandir flesta daga og hófust ferðirnar snemma í júní. Einnig eru siglingar frá Norðurfirði á Ströndum. Breyting seinni tíðar er annars sú að nú fer fólk á þennan hjara veraldar yfir lengri tíma á árinu en bara hásumarið. Ljósmyndaferðir að vetri og leiðangrar í Jökulfirði með fjallaskíðafólk koma sterkt inn.

„Núna er fjöldi fólks á svæðinu. Margir fara til dæmis í Veiðileysufjörð, ganga þaðan yfir í Hornvík og svo á Hesteyri og sigla þaðan heim. Sennilega hafa um 75% alls göngufólks á Hornströndum viðkomu í Hornvík. En margir fleiri eru á ferðinni, til dæmis fólk sem hefur tengsl við svæðið og á þar hús. “