Hress Dunst í hlutverki Crystal Stubbs.
Hress Dunst í hlutverki Crystal Stubbs.
Á streymisveitunni Netflix má finna margar þáttaraðirnar, misjafnar að gæðum. Sumar eru algjört drasl á meðan aðrar koma á óvart fyrir frumleika og skemmtigildi.

Á streymisveitunni Netflix má finna margar þáttaraðirnar, misjafnar að gæðum. Sumar eru algjört drasl á meðan aðrar koma á óvart fyrir frumleika og skemmtigildi. Ein í síðarnefnda flokknum heitir því skemmtilega nafni On Becoming a God in Central Florida eða Hvernig komast skal í guðatölu í miðri Flórída. Ég hafði ekkert heyrt eða lesið um þessa þætti þegar ég ákvað að kíkja á þá og þá einkum vegna nafnsins og aðkomu leikkonunnar Kirsten Dunst. Dunst leikur Krystal nokkra Stubbs sem verður fyrir því óláni að eiginmaður hennar, en sá er leikinn af Alexander Skarsgård, er étinn af krókódíl. Eiginmaðurinn var svo illa haldinn af svefnleysi eftir heilaþvott píramídasvindls að hann keyrði óvart út í fen með fyrrgreindum afleiðingum. Stubbs situr þá eftir slypp og snauð og hyggst hefna sín á hugmyndasmiði píramídans, Obie Garbeau II, sem er kostulega leikinn af Ted Levine. Stjarna þáttanna er þó hinn ungi Théodore Pellerin sem leikur Cody Bonar sem á sér þann draum að klifra upp á tindinn og baða sig í ljómanum af Garbeau II. Þetta eru vel gerðir og frumlegir þættir og blessunarlega ófyrirsjáanlegir. „Maðurinn minn var étinn af krókódíl,“ segir Dunst svipbrigðalaust enda kallar hörkukvendið Stubbs ekki allt ömmu sína.

Helgi Snær Sigurðsson

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson