Pálína Guðrún Karlsdóttir fæddist í Reykjavík 12. janúar 1943. Hún lést á Hjartadeild Landspítalans við Hringbraut 1. júlí 2021.

Foreldrar hennar voru Pálína Guðrún Steinsdóttir, f. 26. febrúar 1902, d. 8. nóvember 1990 og Karl Bjarnason, f. 6. ágúst 1892, d. 23. febrúar 1970. Systir Pálínu er Ingibjörg Hjörvar, f. 6. október 1953.

Pálína giftist Sigurði K. Daníelssyni 16. júní 1962. Sigurður var fæddur 19. október 1941 en lést 24. apríl 2016.

Börn þeirra eru: 1) Kristján Friðrik Sigurðsson, f. 27. desember 1962, kvæntur Guðrúnu Sigurðardóttur og 2) Kristín Ólavía Sigurðardóttir, f. 5. janúar 1967, hún var gift Pétri Þórir Hugus, f. 7. maí 1962 en hann lést 24. febrúar 2021.

Börn Kristjáns eru: 1) Ása Dís Kristjánsdóttir sem er í sambúð með Antoni Hilmarssyni og 2) Sigurður Egill Kristjánsson.

Dóttir Kristínar er: Pálína Guðrún Harðardóttir en hún er í sambúð með Ísaki Jarli Þórarinssyni.

Pálína og Sigurður hófu búskap hjá foreldrum hennar á Langholtsvegi 141. Þaðan fluttu þau á Leirubakka 10 og loks á Sautjándajúnítorg 7 í Garðabæ. Pálína vann við ýmis störf en lengst af á Landspítalanum við umönnun.

Útför Pálínu fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 14. júlí 2021, kl. 13.

Hvert barn sem elst upp í okkar samfélagi þarf að hafa sterkar fyrirmyndir í sínu lífi. Einhvern sem leggur því lífsreglurnar, fræðir og nærir. Sum börn eru heppnari en önnur hvað það varðar, sum eiga nefnilega fleiri en eina slíka fyrirmynd og var ég svo heppin að eiga ekki bara móður og föður sem komu mér til manns heldur einnig hana Ínu frænku, elskulega móðursystur mína sem var og er ein af mínum helstu og bestu fyrirmyndum.

Ína ól mig upp að miklu leyti með foreldrum mínum þar sem ég var mikið hjá henni í pössun er ég var lítil þar sem foreldrar mínir ráku fyrirtæki sem þau þurftu bæði að vinna við. Þá bjuggu Ína og maðurinn hennar, Siggi frændi, á Langholtsvegi 141, húsi sem var í eigu foreldra Ínu. Það var sannkallað fjölskylduhús. Á neðri hæðinni bjó amma og á hæðinni bjuggu Ína og Siggi ásamt börnum sínum og langömmu minni á meðan hún lifði. Hvílíkt veganesti út í lífið það var að vera heimalningur á Langholtsvegi, umkringd allri þessari ást og visku.

Ína og Siggi höfðu mig alltaf með í öllu og þó það bættist í barnahópinn í kringum þau, því þau eignuðust sjálf barnabörn, þá var ég aldrei útundan, ég var alltaf með svo lengi sem ég kærði mig um. Óteljandi voru ferðirnar í Biskupstungurnar þar sem þau hófu að byggja sér bústað seint á níunda áratugnum og á ég margar minningar þaðan. Ég var alltaf að sniglast í kringum Sigga þegar hann var að smíða eða að brasa með Ínu í tjaldvagninum. Tré voru gróðursett, sundlaugaferðir farnar og minningar skapaðar.

Það skipti ekki máli hvaða verkefni Ína innti af hendi, þau voru framkvæmd af alúð og nákvæmni. Skipti þar ekki máli hvort það var handavinnuverkefni, bakstur eða eitthvað eins hversdagslegt og að búa um rúmið. Nei, það var hávísindalegt verkefni hjá Ínu hvernig búa ætti um rúm, verkefni sem ég náði nú aldrei þó ég reyndi en ég lærði hinsvegar heilmargt annað af frænku. Já, ég komst að því þegar ég fór sjálf að eignast börn og búa fyrir 20 árum að viskan og kennslan sem Ína hafði gefið mér hafði svo sannarlega fest sig. Ég strauja skyrtur eins og hún, baka eins og hún, brýt saman eins og hún, held veislur eins og hún. Ég gæti talið endalaust upp hvað hún kenndi mér. Hún kenndi mér þó ekki bara verklega hluti, hún kenndi mér líka að hlutina gerir maður vel ætli maður sér að gera þá á annað borð. Hálfkák og slugs er ekki í boði en það er ekki þar með sagt að allt þurfi að vera fullkomið, bara næstum.

Ína lagði grunninn að mér, hún lagði mér lífsreglurnar og kenndi mér á lífið. Hún var ein af mínum sterku kvenfyrirmyndum sem ég er svo þakklát fyrir að hafa haft í mínu lífi.

Takk elsku Ína fyrir mig. Takk fyrir að hafa verið til. Takk fyrir ástina sem þú gafst mér og stelpunum mínum. Þú hefur verið, ert og og verður ávallt í hjarta mínu.

Elsku Bía, Kristján og fjölskyldur. Ást mína og samúð eigið þið. Takk fyrir að deila Ínu með okkur hinum öll þessi ár.

Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar (Jana).

Kær vinkona okkar Pálína eða Ína er farin á vit ævintýra í Sumarlandið, þar sem Siggi hennar tekur á móti henni.

Við vinkonurnar ólumst upp í Vogahverfinu, þegar lífið var frjálst og leikvöllurinn, túnin og göturnar. Við fylgdumst að frá barnaskóla sem þá var Langholtsskóli, en urðum síðan að fara í Gaggó Aust, þar sem Vogskóli var ekki kominn.

Með okkur var ætíð sterk og góð vinátta og stofnuðum við saumaklúbb ungar og fylgdumst hvor með annarri í gleði og sorg. Slík vinátta er ómetanleg.

Ína skilur eftir sig fallegt líf, hún var mjög jákvæð kona og ótrúlega flink í að sjá jákvæðar hliðar á neikvæðum málum.

Ína var mikill fagurkeri, vildi hafa fínt í kringum sig eins og heimili hennar bar vott um. Allt sem hún gerði var fyrsta flokks. Eftir hana liggur ótrúlega falleg handavinna, sem hún var óspör á að gefa frá sér, eins og fallegu hekluðu servíettuhringina sem minna okkur á hana þegar þeir eru notaðir. Þannig er með litlu hlutina sem verða stórir og fallegir.

Ína elskaði að taka á móti gestum og veita góðar og öðruvísi veitingar. Fyrir jólin steikti hún sem dæmi flatkökur sem voru svo litlar að það komust 4 fyrir á pönnukökupönnu. Ína var nefnilega alltaf smurbrauðsdama.

Að fara með Ínu í búðir var líka upplifun, hún sneri afgreiðslustúlkunum í kringum sig og þær þjónustuðu hana með bros á vör, þannig var útgeislun Ínu.

Við munum allar sakna hennar.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,

hjartans þakkir fyrir liðna tíð,

lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Hvíl í friði, elsku vinkona.

Börnum hennar, Kristínu Ólafíu, Kristjáni og fjölskyldum

sendum við okkar hlýjustu hugsanir.

Vigdís, Jóna Sigrún,

Kristín María og Þuríður.

Það er með sorg í hjarta sem við kveðjum Pálínu, vinkonu okkar. Við kynntumst henni fyrst er hún kom til starfa á endurhæfingardeild L-3 á Landakoti fyrir rúmum tuttugu árum. Það kom fljótt í ljós að það var mikill fengur í Pálínu í hópinn. Hún var hæglát og ljúf í framkomu og vann sín störf hávaðalaust. Það sem einkenndi störf hennar var mikill metnaður og vandvirkni. Hún var listræn og allt lék í höndunum á henni. Segja má að allt sem eftir hana liggur sé hrein listaverk.

Það voru gleðistundir að heimsækja hana og Sigurð, mann hennar, í sumarbústaðinn í Biskupstungum. Þau voru einstakir gestgjafar og það var ekkert til sparað til að gera daginn eftirminnilegan. Þau voru afar samrýmd hjón og samtaka.

Eftir að við hættum störfum höfum við haldið hópinn, stofnað lestrarfélag og komið saman mánaðarlega að fjalla um bækur.

Andlát Pálínu kom ekki alveg á óvart þar sem veikindi hennar hafa lagst nokkuð þungt á hana síðustu árin. Þrátt fyrir það gaf hún ekkert eftir enda félagslynd og sleppti aldrei leskvöldi. Hún lét fátt aftra sér og fannst hún geta allt og gerði það með góðum stuðningi barna sinna. Síðast í maí kom hópurinn heim til hennar og þáði glæsilegar veitingar. Við viljum þakka Pálínu fyrir samfylgdina og margar góðar stundir. Fjölskyldu hennar sendum við innilegar samúðarkveðjur.

F.h. Lestrarfélagsins

Anna Sigríður

Indriðadóttir.