[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Rui Patrício , landsliðsmarkvörður Portúgals í knattspyrnu, er farinn frá enska liðinu Wolves eftir að hafa leikið með því 112 leiki í úrvalsdeildinni á undanförnum þremur árum. Hann er genginn til liðs við Roma á Ítalíu.

* Rui Patrício , landsliðsmarkvörður Portúgals í knattspyrnu, er farinn frá enska liðinu Wolves eftir að hafa leikið með því 112 leiki í úrvalsdeildinni á undanförnum þremur árum. Hann er genginn til liðs við Roma á Ítalíu. Í staðinn er landi hans José Sa á leið til Wolves frá grísku meisturunum Olympiacos þar sem hann hefur verið aðalmarkvörður með Ögmund Kristinsson sem varamarkvörð. Ögmundur fær samt áfram harða samkeppni því Olympiacos hefur í staðinn fyrir Sa samið við Tomás Vaclík , landsliðsmarkvörð Tékka, sem kemur til félagsins án greiðslu frá Sevilla á Spáni.

*Enski knattspyrnumaðurinn Jadon Sancho mætti í gær í læknisskoðun hjá Manchester United. Hann mun á allra næstu dögum verða staðfestur sem leikmaður félagsins. Sancho kemur til United frá Dortmund í Þýskalandi fyrir 73 milljónir punda. Hann hefur skorað 50 mörk í 137 leikjum með Dortmund þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs gamall. Leikmaðurinn mun skrifa undir fimm ára samning við United og fá treyju númer sjö. Sancho hefur leikið 20 landsleiki fyrir Englands hönd og skorað í þeim þrjú mörk.

*Karlalið Fjölnis í knattspyrnu sem leikur í 1. deild hefur fengið til sín víðförlan sóknarmann. Það er Englendingurinn Michael Bakare sem síðast spilaði með Hereford í F-deildinni en hann hefur leikið með 24 liðum á ferlinum, nær öllum í ensku utandeildakeppninni. Hann var þó í þrjú ár með einu besta liði Wales, Connah's Quay Nomads, í úrvalsdeildinni þar í landi og skoraði þá 30 mörk í 81 leik.

*Fimm leikmenn í úrvalsdeildarliðum karla og kvenna í fótbolta voru í gær úrskurðaðir í eins leiks bann vegna fjögurra gulra spjalda og missa þar með af næstu leikjum sinna liða. Í úrvalsdeild karla eru þetta Ragnar Bragi Sveinsson , fyrirliði Fylkis, Daníel Finns Matthíasson , kantmaður Leiknis úr Reykjavík, og Davíð Snær Jóhannsson , miðjumaður Keflvíkinga. Til viðbótar fer Hlynur Helgi Arngrímsson , aðstoðarþjálfari Leiknis úr Reykjavík, í eins leiks bann vegna brottvísunar í leik liðsins gegn ÍA í fyrrakvöld.

*Í úrvalsdeild kvenna eru það Delaney Baie Pridham , bandaríski framherjinn hjá ÍBV, og Loena Baumann , svissneski bakvörðurinn hjá Þrótti, sem missa af einum leik hvor.

*Svissneski tennisleikarinn Roger Federer verður ekki með á Ólympíuleikunum í Tókýó vegna hnémeiðsla en leikarnir hefjast síðar í mánuðinum. Federer staðfesti tíðindin á Twitter í gær. Federer, sem er 39 ára, hefur unnið 20 risamót á ferlinum og er af flestum talinn einn besti tennisleikari allra tíma. Svisslendingurinn varð ólympíumeistari í tvíliðaleik á leikunum í Peking árið 2008 með Stan Wawrinka og fékk hann silfur í einliðaleik eftir tap fyrir Andy Murray í úrslitum 2012 í London.