Gústaf A. Skúlason, smáfyrirtækjarekandi í Svíþjóð og þekkir vel til þar í landi, segir í grein hér í blaðinu á mánudag að sérkennilegt sé „hversu hópur rétttrúaðra á Íslandi reynir að villa um fyrir fólki, hvað sé að gerast í Svíþjóð“. Hann gagnrýnir Ríkisútvarpið sérstaklega og segir það draga taum sænskra sósíaldemókrata en horfi fram hjá sjónarmiðum stjórnarandstöðunnar, Svíþjóðardemókrata og Móderata.

Gústaf A. Skúlason, smáfyrirtækjarekandi í Svíþjóð og þekkir vel til þar í landi, segir í grein hér í blaðinu á mánudag að sérkennilegt sé „hversu hópur rétttrúaðra á Íslandi reynir að villa um fyrir fólki, hvað sé að gerast í Svíþjóð“. Hann gagnrýnir Ríkisútvarpið sérstaklega og segir það draga taum sænskra sósíaldemókrata en horfi fram hjá sjónarmiðum stjórnarandstöðunnar, Svíþjóðardemókrata og Móderata.

Gústaf lýsir því hvernig ofbeldið í Svíþjóð magnast og nefnir nýlegt morð á lögreglumanni til sögunnar. Lögreglumönnum hafi fækkað og stöðug svik „vinstri stjórnar Svíþjóðar um aðgerðir og árangur í baráttunni við glæpahópana hefur leitt til mikillar hægri sveiflu í Svíþjóð,“ segir hann. Þá nefnir hann að yfirvöld fela hver hinn grunaði morðingi er, en fjölmiðlar hafi þó birt þær upplýsingar. „Vinstri menn segja að með því að upplýsa um þjóðerni og litarhátt einstakra glæpamanna, þá sé verið að halda því fram að allir innflytjendur séu glæpamenn. Stimpla þeir síðan alla sem segja sannleikann sem rasista, ef glæpamennirnir hafa annan húðlit en hvítan,“ segir Gústaf. Vitaskuld er fjarstæða að allir innflytjendur séu glæpamenn og það dettur engum í hug. Það breytir því ekki að mikilvægt er að segja hlutina eins og þeir eru, hvort sem um er að ræða innflytjendur eða aðra.

Því miður eru dæmi um að glæpamenn hafi nýtt sér það að þykjast vera flóttamenn og Vesturlandabúar geta ekki verið með neinn einfeldningshátt í þessu sambandi. Sigurður Már Jónsson blaðamaður skrifar pistil um þessi vandamál Svíþjóðar á mbl.is og segir meðal annars frá því að skömmu eftir morðið á lögreglumanninum hafi annar maður verið drepinn á götu úti í Svíþjóð. Sá hafi tilheyrt ákveðnu „klani“ eða meintum glæpahópi frá Tyrklandi en morðinginn hafi verið talinn tilheyra öðrum slíkum hópi frá sama landi. Leiðtogi annars hópsins á vægast sagt ekki glæsilegan feril utan Svíþjóðar en hefur tekist að fá fjölda manna til landsins til að aðstoða við vafasama starfsemina.

Rétt eins og Svíar virðast vera að opna augun fyrir þessum vanda og Danir hafa að því er virðist þegar gert það, líka danskir sósíaldemókratar, þá verða Íslendingar taka þetta alvarlega. Í því felst enginn ótti eða fjandskapur í garð útlendinga, aðeins sjálfsögð varúð og viðurkenning á nöturlegum staðreyndum.