Kúba Bandarískir mótmælendur vilja að Biden veiti Kúbverjum aðstoð.
Kúba Bandarískir mótmælendur vilja að Biden veiti Kúbverjum aðstoð. — AFP
Hólmfríður María Ragnhildardóttir hmr@mbl.is Miguel Diaz-Canel, forseti Kúbu, segir að rekja megi óeirðirnar og mótmælin sem standa nú yfir þar í landi til Bandaríkjanna og viðskiptaþvingana þeirra.

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Miguel Diaz-Canel, forseti Kúbu, segir að rekja megi óeirðirnar og mótmælin sem standa nú yfir þar í landi til Bandaríkjanna og viðskiptaþvingana þeirra. Þúsundir Kúbverja hafa nú flykkst út á götur til að mótmæla bágu efnahagsástandi og einræðislegum stjórnarháttum stjórnvalda þar í landi.

Ósáttur við ummæli forsetans

Anthony Blinken, bandaríski utanríkisráðherrann, sagði það alvarleg mistök af hálfu kúbverska forsetans að kenna bandarískum stjórnvöldum um mótmælin og réttara væri að rekja þau til kommúnískra stjórnvalda, vanhæfni við rekstur efnahagskerfisins og slæmra viðbragða yfirvalda við kórónuveirufaraldrinum.

Bandaríkjamenn settu viðskiptabann á Kúbu árið 1962 og var það ekki fyrr en í stjórnartíð bandaríska forsetans Barack Obama sem slakað var á í þeim efnum. Hins vegar varð aftur mikil tregða í sambandinu milli landanna þegar Donald Trump tók við forsetaembætti árið 2016. Herti Trump á ný á viðskiptabanninu og hafa þær ráðstafanir fengið að standa óbreyttar í stjórnartíð núverandi forseta Bandaríkjanna, Joe Biden.

Mótmæli hafa nú geisað í Miami í Bandaríkjunum þar sem farið er fram á að Biden skerist í leikinn og komi mótmælendum á Kúbu til bjargar. Borgarstjóri Miami, Francis Suarez, var meðal þeirra fimm þúsund sem tóku þátt í mótmælunum. Taldi Suarez að binda þyrfti enda á 60 ára stjórn kommúnista á Kúbu og að komið væri nóg af kúgun og grimmd.

Fleiri sýna samstöðu

Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar hafa nú einnig skorist í leikinn og fara þau fram á að yfirvöld í Kúbu virði tjáningarfrelsi og friðsamleg mótmæli. Joseph Borell, sem fer með utanríkis- og öryggismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sendi ákall til stjórnvalda Kúbu þar sem hann fór fram á að hlustað yrði á óánægjuraddir mótmælenda.

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, og Donald Trump hafa einnig lýst stuðningi við mótmælendur. Segist Trump standa 100% með Kúbverjum í baráttu þeirra fyrir frelsi.

Rússar og Mexíkóar taka þó ekki í sama streng og vara við því, að mótmælin á Kúbu verði nýtt sem forsenda fyrir erlendum afskiptum af innanríkismálum þar. Hefur Nicolas Maduro, forseti Venesúela, einnig lýst stuðningi við ríkisstjórn Kúbu. Forseti Argentínu hefur einnig farið fram á að Bandaríkin aflétti viðskiptabanninu.