Þorvarður Ingi Vilhjálmsson fæddist 26. maí 1939 á Grund á Dalatanga í Mjóafirði. Hann lést 1. júlí 2021 á Dvalarheimilinu Ljósheimum á Selfossi. Foreldrar hans voru Vilhjálmur Svanberg Helgason, f. 26.9. 1888, d. 28.5. 1971, og Jóhanna Sveinsdóttir, f. 24.1. 1897, d. 14.10. 1971. Þorvarður var yngstur fimm systkina. Þau voru: 1. Helga Vilhjálmsdóttir, f. 1.6. 1916, d. 1.10. 1999. 2. Arngrímur Vilhjálmsson, f. 5.9. 1918, d. 22.2. 2006. 3. Sveinn Vilhjálmsson, f. 17.8. 1922, d. 10.8. 1979. 4. Helgi Vilhjálmsson, f. 15.9. 1925, d. 7.4. 2005.

Þann 8.1. 1967 kvæntist Þorvarður Þórhildi Ingibjörgu Gunnarsdóttur, f. 30.12. 1941. Foreldrar hennar voru Gunnar Sigurðsson, f. 3.2. 1922, d. 31.5. 1970, og Kristín Stefánsdóttir, f. 28.9. 1919, d. 27.1. 1988. Börn Þorvarðar og Þórhildar eru: 1. Ingibjörg Hrönn, f. 5.5. 1967, 2. Gunnhildur Lilja, f. 19.5. 1970, gift Kristjáni Sæmundssyni, f. 17.5. 1970. Börn þeirra eru: 1. Þórhildur Nilam, f. 15.1. 2002. 2. Freydís Malin, f. 18.7. 2003. 3. Sæmundur Sesar, f. 28.12. 2005. 3. Jóhanna Kristín, f. 2.12. 1973, gift Steinari Kristjáni Óskarssyni, f. 13.10. 1965. Barn Jóhönnu úr fyrra hjónabandi er Símon Prakash, f. 15.10. 1994. Börn Jóhönnu og Steinars eru: 1. Kristín Björg, f. 3.1. 2007. 2. Þorvarður Logi, f. 8.4. 2012. 3. Vilhjálmur Svanberg, f. 5.5. 1975. Sambýliskona hans er Marnie R. Nesnia, f. 11.11. 1994. Barn hans er Pálína Ýr, f. 9.7. 1990. 4. Kristbjörg Þorvarðardóttir, f. 18.5. 1978, gift Eiríki Björnssyni, f. 20.2. 1976. Börn Kristbjargar úr fyrra sambandi eru: 1. Aníta Björt, f. 20.11. 1997. 2. Sveina Björt, f. 20.8. 2002. Börn Kristbjargar og Eiríks: 1. Björn Ingi, f. 1.9. 2009. 2. Ástrós Björt, f. 20.4. 2011. Fyrir átti Þórhildur soninn Gunnar Kristin, f. 30.3. 1959. Börn hans eru: 1. Hrefna Henný, f. 17.4. 1985. 2. Ómar Berg, f. 17.7. 1995. 3. Matthías Jochum, f. 17.7. 1995.

Þorvarður verður jarðsettur í dag, 14. júlí 2021, klukkan 13 frá Selfosskirkju.

Þorvarður Ingi Vilhjálmsson fæddist 26. maí 1939 að Grund á Dalatanga í Mjóafirði. Foreldrar hans voru Vilhjálmur Svanberg Helgason vitavörður og Jóhanna Sveinsdóttir. Þorvarður var langyngstur 5 systkina. Þau voru Helga, Arngrímur, Sveinn og Helgi. Þorvarður minntist æskustöðvanna oft og með mikilli hlýju. Á táningsaldri fór Þorvarður í fyrsta skiptið í skóla að Eiðum. Fram að því fékk hann heimakennslu frá móður sinni og fór á hverju vori að Brekkuþorpi til að taka próf sem hann kláraði með bestu einkunn í hvert sinn og af því var hann mjög svo stoltur. Lauk hann sveinsprófi í rennismíði í maí 1967 með 9,29 í aðaleinkunn. Árið 1966 kynntist hann ástinni í lífi sínu, henni Þórhildi sinni. Í maí 1967 eignuðust þau sitt fyrsta barn, Ingibjörgu Hrönn, en fyrir átti Þórhildur soninn Gunnar Kristin. Á næstu 11 árum eignuðust þau 4 börn í viðbót. Þau Gunnhildi Lilju, Jóhönnu Kristínu, Vilhjálm Svanberg og Kristbjörgu, ásamt því að vinna fulla vinnu og byggja fjölskyldunni heimili að Setbergi 21 í Þorlákshöfn. Þorvarður og Þórhildur byrjuðu sinn búskap í Keflavík, fluttu svo í Hveragerði, Þorlákshöfn, Vestmannaeyjar, Svíþjóð og enduðu svo á Selfossi. Þorvarður vann við ýmislegt um ævina, í Meitlinum, Búrfellsvirkjun, skipalyftunni í Vestmannaeyjum, svo eitthvað sé talið. Mest við járniðn og rennismíði. Hann var mikil listamaður, mjög skapandi og frábær teiknari og vel lesinn. Mikill sögumaður og það lék allt í höndum hans. Margs er að minnast og mikils að sakna eins og gönguferðanna með krakkaskarann, bryggjurúntana með stoppi í sjoppunni, Nestis og berjamósferða í Selvoginn. Lestrarstundanna fyrir svefninn, með leikrænum tilburðum, og að vera vakin að morgni með kitli og tásuklípu. Með árunum eignaðist hann 15 barnabörn. Hann var mikill afi og þar skein sögumaðurinn sterkt í gegn, var hann líka mjög stoltur af því hve listhæfileikagenin hans skinu í gegnum afkomendur hans. Þorvarður var búin að berjast við Alzheimer-sjúkdóminn síðan 2011 og hefur það reynst fjölskyldunni erfitt að horfa á þennan hæfileikaríka mann missa færni sína hægt og rólega. Elsku Þorvarður, pabbi, tengdapabbi og afi, við þökkum þér fyrir ástina, umhyggjuna. Mikið það sem við höfum verið heppin og lánsöm með þig. Við elskum þig og söknum þín. Þín ástkæra eiginkona, börn, tengdabörn og barnabörn.

Þórhildur Gunnarsdóttir.

Kærleikur og gleði eru orð sem sitja fast í huga við umhugsun um Þorvarð Inga, tengdaföður bróður míns. Hann var fróður um menn og málefni og óspar á að segja sögur af lífinu í gamla daga, oftar en ekki sögur þar sem húmorinn var til staðar.

Hann var fljótur að koma auga á það sem henda mátti gaman að í kringum sig og því alltaf stutt í hlátur þar sem hann var.

Ég fékk þau hjónin stundum til mín í skötu á Þorláksmessu með bróður og mágkonu, eftir að þau fluttu á Selfoss, mjög svo indælt. Mikil samheldni, kærleikur og umhyggja var ríkjandi í hinni stóru fjölskyldu Þorvarðar, þar sem hann var eins og kapteinn í brúnni með bros á vör.

Ég varð þess aðnjótandi að vera hluti af stórfjölskyldunni, frá tíma til tíma. Fyrir það vil ég þakka við kveðjustund. Ég votta Þórhildi, börnum, tengdabörnum og barnabörnum innilega samúð mína.

Langt er flug til fjarra stranda,

fýkur löður, stormur hvín.

Eins og fugl sem leitar landa,

leita ég, ó Guð til þín.

Eins og sævarbylgjan breiða,

býður faðminn, þreyttri lind,

þannig faðir lát mig leiða,

löngun háa að þinni mynd.

Líkt og móðir blindu barni,

beinir veg af kærleiksgnótt,

leið þú mig á lífsins hjarni,

leið þú mig um harmsins nótt.

Leið þú mig í myrkri nauða,

leið þú mig er sólin skín.

Leið þú mig í lífi og dauða

leið mig Guð æ nær til þín.

(Sb. 1945. - J.J. Smári)

Guðrún María Óskarsdóttir.