[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Steinar Ingi Kolbeins steinar@mbl.is Ítalir sigruðu Englendinga í úrslitaleik Evrópumótsins í knattspyrnu nú á sunnudag. Leiknum lauk í vítaspyrnukeppni en þrír leikmenn enska liðsins, sem eru dökkir á hörund, brenndu af vítaspyrnu.

Sviðsljós

Steinar Ingi Kolbeins

steinar@mbl.is

Ítalir sigruðu Englendinga í úrslitaleik Evrópumótsins í knattspyrnu nú á sunnudag. Leiknum lauk í vítaspyrnukeppni en þrír leikmenn enska liðsins, sem eru dökkir á hörund, brenndu af vítaspyrnu. Eftir leikinn helltist yfir þessa leikmenn holskefla rasískra ummæla á samfélagsmiðlaaðgöngum leikmannanna. Stjórnmálamenn, ættmenni konungsfjölskyldunnar, leikmenn og enska knattspyrnusambandið hafa fordæmt þessa hegðun stuðningsmanna í kjölfarið.

Kortleggja ofbeldi gagnvart leikmönnum

Arnar Sveinn Geirsson, formaður Leikmannasamtaka Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið fyrst og fremst ömurlegt að sjá þetta gerast.

„Það sem er kannski enn ömurlegra er að þetta kemur engum á óvart,“ bætir hann við.

Að sögn Arnars eru samtökin ekki með formlega verkferla í málum er snúa að kynþáttafordómum eða níði, sem leikmenn geta farið eftir. Þetta þurfi mögulega að laga.

Arnar segir að samtökin séu byrjuð, með aðkomu sérfræðinga, að kortleggja hvers kyns ofbeldi sem leikmenn verða fyrir í tengslum við fótboltann. „Undir það fellur rasismi, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi, netníð, áreitni, bara hvers kyns ofbeldi innan boltans,“ segir Arnar. Hann telur að samfélagsmiðlarnir breyti forsendunum að vissu leyti í þessum málum, enda erfitt fyrir leikmenn að leita ráða fái þeir nafnlaus ofbeldisskilaboð.

Staðan með samfélagsmiðlana sé það flókin að samstillt átak þurfi á öllum vígstöðvum til þess að hægt sé að eiga við þessa hlið málsins.

Skýrir verkferlar hjá KSÍ

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir af og til koma upp mál sem snúa að kynþáttafordómum. Spurð hverjir formlegir verkferlar séu í tengslum við slík mál segir hún: „Það segir í reglugerð frá sambandinu, að hvert félag er ábyrgt fyrir leikmönnum, stuðningsmönnum, forráðamönnum og hverjum þeim sem hafa hlutverk í kringum leiki.“ Klara bendir á að sérstök ákvæði snúi að svona brotum.

Aganefnd tekur þessi mál á sitt borð og í 15. grein reglugerðar KSÍ um agamál eru viðurlög við brot á ákvæðinu sett fram, en ákvæðið snýr að hvers konar mismunun.

Klara segir ekki mörg svona mál koma upp á ári hverju.

„Við höfum ekki tekið saman eitthvert fast meðaltal, en ég myndi giska á að þetta sé svona um eitt mál á ári.“ Klara segir málin tekin fyrir í fræðslu á vegum sambandsins, en megináherslan í fræðslu hjá sambandinu snúi að þjálfurum. „Stór hluti fræðslunnar snýr að heilindamálum, og þar inn fellur kynþáttaníð og annað slíkt.“

Hvað varðar samfélagsmiðlana og hvernig hægt sé að eiga við kynþáttaníð gagnvart leikmönnum þar segir Klara stöðuna vera flókna. Hún bendir þó á að aganefnd hafi úrskurðað og beitt viðurlögum vegna ummæla á samfélagsmiðlum. Hún telur erfitt að eiga við og uppræta þá hegðun þegar ofbeldisskilaboð eru send í skjóli nafnleysis.

Viðurlög við brotum

„Hver sá sem misbýður öðrum einstaklingi eða hópi með fyrirlitningu, mismunun í orði eða verki varðandi kynhneigð, kynþátt, litarhátt og stöðu að öðru leyti skal sæta leikbanni í að minnsta kosti fimm leiki,“ segir m.a. í reglugerð KSÍ. Þá skal félagið sektað að lágmarki um 100.000 krónur. Sé hópur leikmanna eða forsvarsmanna brotlegur við ákvæðið skuli liðið að auki missa þrjú stig í viðkomandi keppni. Þá missi liðið sex stig við annað brot. Gerist stuðningsmenn liðs brotlegir við ákvæðið skuli félagið sektað um 150.000 krónur. Ef brot áhorfenda er alvarlegt er hægt að grípa til aukinna viðurlaga. Áhorfandi eða áhorfendur sem brjóta gegn ákvæðinu sæta tveggja ára leikvallabanni a.m.k.