[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrsta vonda minningin: Rifin af mér bók. Ég var rúmlega þriggja ára. Síðan sílesandi, nú mest sagnfræði og ljóð. Uppáhaldið eru kerlingar!

Fyrsta vonda minningin: Rifin af mér bók. Ég var rúmlega þriggja ára. Síðan sílesandi, nú mest sagnfræði og ljóð.

Uppáhaldið eru kerlingar! Emily Dickinson, Sylvia Plath, Ingunn Jónsdóttir, Ólína Jónasdóttir, Ingibjörg Haraldsdóttir, Anna Akhmatova og margar, margar fleiri.

Áratugum saman, las ég aldrei glæpasögur en Jakob Benediktsson sagði að ég yrði að lesa dömur. Svo ég las P.D. James og síðar féll ég kylliflöt fyrir Donnu Leon sem skrifar um hamingjusömu lögguna Brunetti í Feneyjum. Hún er söluhæst í Þýskalandi skv. upplýsingum í Der Spiegel.

Ekki má gleyma sænsku krimmunum eftir Sjöwall og Wahlöö um Martin Beck. Mér finnst enn eftir tíðan endurlestur að Maðurinn á svölunum , þar sem engu orði er ofaukið og persónusköpun einstaklega skýr, sé fyrirmynd allra glæpasagna. Því miður halda nútímahöfundar ekki sjónarmið þeirra í heiðri. Nýju glæpabækurnar eru lengri og menn teygja lopann endalaust að mínu mati!

Skrif sagnfræðinga hafa heldur betur breyst, nú skrifa menn eins og Simon Schama feimnislaust um ævi og athafnir stjórnmálamanna í A History of Britain í þremur bindum.

Álíka upplýsandi og fróðleg bók er Vermeer's Hat eftir Timothy Brook sem fjallar um kynni Evrópumanna af heiminum á 17. öld. Þar er m.a. frásögn af landstjóranum í Manila sem bað Spánarkonung um 70 hermenn til að hann legði Kína undir Spán. Hroki fáfræðinnar á sér engin takmörk.

Neil Price gaf mér nýja sýn á víkingaöldina í frábærri bók: Children of Ash and Elm . Bókin fékk mig til að lesa Orkneyingasögu aftur. Stórkostleg bók Bergsveins Birgissonar, Svarti víkingurinn, um Geirmund heljarskinn staðfesti hugmyndir mínar um upphaf landnáms þannig að sagnfræði nútímans er ekki lengur upptalning á karlmannsnöfnum!

Fyrst þegar ég las Enten eller eftir Sören Kirkegaard, vissi ég ekki að þetta var heimspeki. Stíllinn hreif mig og þó ég skildi ekki fjarstæðu eigin tilveru. Ég las síðar öll hans verk mér til heilla.

Annar heimspekingur, Ludwig Wittgenstein sem kom til Íslands 1913, segir í Tractatus: „wovon man nicht sprechen kann, darüber muß man schweigen.“ Orðin takmarka hugsunina.

Nú finnst mér mest gaman af bókum sem ég les aftur og aftur. Ein slíkra er Tregahandbókin eftir Magnús Sigurðsson.

Það var eitt sinn bráðskemmtilegur garðyrkjustjóri að vestan í Reykjavík. Hann sagði: moldin borgar, mennirnir ekki! Mér finnst líkt með bókina, góð bók sem upplýsir og fræðir, bregst aldrei.