Við ættum flest að vera bærilega brött hvað kórónuveiruna snertir. Við vorum það að minnsta kosti eftir seinni sprautuna og ópantaða aukaverkun af þeim báðum. Þeim bónus var líka vel tekið í gamalkunnu trausti þess, að illt skuli með illu út reka. Á meðan langt virtist enn í bóluefnin héldu menn í það reipið að fjarlægð við náungann, aðgætni, handþvottur og spritt gætu gert kraftaverk, ef hvergi væri gefið eftir.
Gamla hjálparhellan, veiran
Á meðan grímur vantaði á heilbrigðisstofnanir heimsins var dregið úr mikilvægi þeirra fyrir Jón og Gunnu, en þegar óhætt var hækkuðu þær í verði. Eftir aðeins þrjá mánuði í veiruslag tókum við þá trú að framantaldar hjálpræðisaðgerðir hefðu komið okkur fyrir vind. Gömul gröf og línurit sýndu reyndar svipaða þróun í Bretlandi svo dæmi sé tekið. Þetta var billega sloppið var sagt þar og hér, en á daginn kom að sverari reikningar voru komnir í póst. Þar og hér og alls staðar varð nýja dagskipunin sú að þrauka yrði þar til bóluefnin birtust. Stórir fjölmiðlar beggja vegna Atlantsála nýttu tímann til að kenna Donald Trump um þennan illa afturkipp og best stóðu sig frægu fjölmiðlarnir sem áttu eftir að fallera enn verr og þeir sem vígðir eru hlutleysi og með kórónu opinbers réttlætis á kollinum.
Bænakvak okkar hátt og í hljóði beindist nú alfarið að bóluefnum sem ein gætu tryggt raunveruleg kaflaskil í ömurlegri óáran. Við réðum því að sjálfsögðu ekki hvenær bóluefnin voru kynnt og gerðum ráð fyrir því að þau réðu mestu um það sjálf.
En í sumarlok ársins 2020 sáum við glitta í þau og sjálfstraustið hér og víðar fór því vaxandi upp frá því. Lyfjarisarnir vestra létu það eftir Demókrataflokknum þar að birta ekki tilkynningar um að bóluefnin væru í húsi fyrr en þremur dögum eftir forsetakosningarnar í nóvember, og um leið mundi flokkurinn, sem betur fer, eftir Biden, og sótti hann ofan í kjallarann til Kela í Delaware þar sem hann hafði varist lengst af.
Veiruslagurinn hafði reyndar reynst demókrötum vel. Þeir náðu því fram í nokkrum lykilkjördæmum að breyta háttum við kosningar og „laga þær að aðstæðum vegna Covid“. Í fjölmennum ríkjum eins og New York, þar sem Cuomo ríkisstjóri hafði látið til sín taka á hjúkrunarheimilunum, og í Kaliforníu voru yfirburðir demókrata taldir svo ríkulegir að engar sérstakar tilfæringar þyrfti að gera á fyrirkomulagi kosninga vegna Covid. Í hinum sérvöldu ríkjum var hins vegar, „vegna Covid“, tryggt að hægt væri að panta kjörseðla heim til fólks í stórum stíl og tryggja að einkaaðilar, sem aldrei höfðu komið að kosningum, gætu unnið útboð til að safna kjörgögnum í sínum sendibílum og komið þeim til kjörstjórnar. Þeim var rennt í gegn um kosningavélar, sem lentu í því að nokkrir þúsundatugir atkvæða komu í einu rennsli merkt demókrötum, án þess að „hinir“ fengju nokkuð í þeirri andrá. Ef eitthvað þvíumlíkt myndi henda í drætti í lottói yrði kallað á lögreglu áður en lengra væri haldið. Ekki var nokkur vinnandi vegur að tryggja að þeir sem pöntuðu seðlafjöld gerðu það í eigin nafni eða að viðkomandi væri örugglega á kjörskrá.
Hér var ekki um hefðbundna utankjörstaðakosningu að ræða, eins og Íslendingar þekkja vel til, þar sem menn mæta til opinbers sýslunarmanns, sýna skilríki og nöfn eru borin við kjörskrá og allt fært inn í lögmæta skrá. Atkvæði í merktu umslagi með nafni kjósanda svo komið á kjörstað hans af honum sjálfum en þó oftar af erindreka hans. Í lok kjördags er gengið úr skugga um að kjósandinn hafi ekki kosið á kjörfundi, og sé svo ekki er öll tenging við nafn kjósandans rifin frá og atkvæðið fer ópersónutengt í kjörkassann eins og hann hefði kosið þar sjálfur. Hefði kjósandinn kosið á ný á kjörfundi er ekkert athugavert við það. Komi í ljós í lok kjördags að kjósandinn hafi þegar kosið er utankjörfundaratkvæðið eyðilagt, bæði merkta umslagið og það innra með kjörseðlinum.
Heimildarlausir heimiluðu
Kórónuundanþágan, sem sum yfirvöld (ríkisstjóri) notuðu í viðkvæmum kjördæmum til að gjörbreyta kosningafyrirkomulagi, var annar handleggur.
Samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna er það þing viðkomandi ríkis sem eitt hefur allar heimildir til að ákveða eða breyta tímabundið kosningafyrirkomulagi í viðkomandi ríki. Þar sem repúblikanar voru í meirihluta í þingsalnum þótti ekki vænlegt að lúta þeirri reglu og höfð á þessu skemmri skírn.
Hér á Íslandi hefur verið gasprað af töluverðu yfirlæti, og enn meira þekkingarleysi, að engir evrópskir leiðtogar hafi tekið undir það að eitthvað hefði verið bogið við framkvæmd kosninga í Bandaríkjunum núna. Ekki eru þeir þó margir til á þeim slóðum sem hafa reynt að halda því fram að fyrrnefnd tilhögun kosninga hefði verið talin standast skoðun í nokkru ríki í Evrópu.
Demókratar hafa lengi barist gegn því á hæl og hnakka, að gert sé að skilyrði að kjósendur sýni persónuskilríki á kjörstað. Meginrökin gegn því, ef rök skyldi kalla, eru að slík krafa sé „hreinræktuð rasísk aðgerð“ af versta tagi!
Slík skilyrði eru þó hvarvetna í gildi í evrópskum ríkjum þar sem íbúar eru ekki jafn einsleitir og áður var. Hvergi er því haldið fram þar að persónuskilríki á kjörstað hafi eitthvað með kynþáttahatur að gera. Alls staðar er hart eftir því gengið, rétt eins og hér, að gild skilríki séu sýnd á kjörstað og geti kjósandi ekki framvísað slíku fær hann ekki atkvæðaseðil afhentan.
Repúblikanar misstíga sig
Í sumum ríkjum Bandaríkjanna er það alkunna að einstakir erindrekar mæta oft á kjörstað til að kjósa. Bæði er kosið fyrir fjölskyldur og vini og hitt er landlægt víða að kosið er fyrir löngu látna menn, jafnvel í tugþúsundatali, sem sýnir óneitanlega óvenjulega ræktarsemi og tryggð.
Hafa menn hreykt sér af slíkum aðferðum, allt upp í „fínustu menn“ (Lyndon Johnson). Sú spurning hlýtur að vakna og hefur auðvitað gert það hvort repúblikanaflokkur forsetans hafi ekki beint því til dómstóla að stöðva þessa framkvæmd. Það gerði forsetinn eða flokkur hans ekki í neinum mæli fyrr en ótrúleg úrslit í nokkrum lykilkjördæmum höfðu tryggt Joe Biden forsetaembættið. Dómstólar höfnuðu efniskröfum forsetans og Hæstiréttur Bandaríkjanna taldi ástæður ekki standa til þess að leggja málatilbúnaðinn fyrir fullskipaðan rétt.
Hver er skýringin á því? Það liggur ekki afgerandi fyrir en sjálfsagt koma fleiri en ein skýring til greina. Þrískipting valdsins er í hávegum höfð vestra, að minnsta kosti í orði kveðnu, þótt stundum vanti nokkuð upp á hitt.
Þá greip Hæstiréttur inn í
Muna mætti þegar Al Gore forsetaefni og demókratar héldu uppi hreinum talningaskrípaleik svo vikum skipti í Flórída og nutu til þess skjóls Hæstaréttar ríkisins (sex flokksbundnir demókratar og einn óháður).
Oftar en einu sinni hafði verið leitað til Hæstaréttar Bandaríkjanna um að grípa inn í farsann, en rétturinn vildi tryggja að yfirvöld í ríkinu og dómstóll ríkisins hefðu nægilegan tíma til að höggva sjálf á hnútinn. Þegar Bandaríkin höfðu verið niðurlægð nægjanlega lengi inn á við og út á við, þá brast Hæstarétt Bandaríkjanna loksins þolinmæðina og samþykkti að hlýða á sjónarmið beggja aðila. Demókratar hanga enn á þeirri mynd „að naumlega stjórnmálalega klofinn Hæstiréttur, 5-4, hafi gert George W. Bush að forseta“. Þar er flest sett á haus. Rétturinn skipti málinu, sem fyrir lá, í tvennt: 1) Ber að taka málið til efnislegrar ákvörðunar?
2) Ef svo væri ekki var málinu lokið. Bæri honum að taka málið til efnislegrar meðferðar kæmi efnisniðurstaða. Fimm dómarar töldu að taka bæri málið efnislega fyrir, en fjórir dómarar voru á móti því. Þá yrði því svarað hver úrslitin í Flórída urðu eftir talningu sem staðið hafði í margar vikur! Sjö dómarar af níu sögðu að George W. Bush hefði unnið Flórída, sem þýddi að hann var réttkjörinn forseti Bandaríkjanna. Það var mjög afgerandi niðurstaða og aulalegt að hanga á að Hæstiréttur hefði verið með eindæmum klofinn. Að sjálfsögðu hefði efnislega niðurstaðan verið jafngild þótt „aðeins“ hefðu fimm dómarar af níu staðið að dómsorðinu. Gefi menn sér að Hæstiréttur Bandaríkjanna sé svo skiptur eftir pólitík, sem er fjarri því að speglast í niðurstöðum hans, hvers vegna fékk Trump ekki einu sinni áheyrn hjá réttinum?
Eins og sást á því hversu lengi Hæstiréttur lét skrípaleikinn í Flórída skaða orðspor Bandaríkjanna, og kom sér undan afskiptum, þar til fullreynt var að þau voru orðin óhjákvæmileg, hlaut hann einnig að fara með löndum nú. En við það bættist að repúblikanar höfðu haft rýmileg tækifæri til að bregðast við og kalla eftir viðhorfi dómstólanna miklu fyrr. Getgátur voru uppi um að lykilmenn í flokksstarfinu hefðu talið að málaferli á þessu stigi yrðu flokknum skaðleg í atkvæðum talið. Mjög auðvelt hefði verið að gera flokk forsetans tortryggilegan í þessum efnum. Repúblikanar hefðu hins vegar ekki haft ímyndunarafl til að sjá fyrir hversu langt demókratar hefðu verið tilbúnir til að ganga.
Of stór biti
Málatilbúnaður af hálfu repúblikana gagnvart dómstólum og þá að lokum Hæstarétti Bandaríkjanna, hefði, úr því sem komið var, verið krafa um að snúa við úrslitum sem þá virtust liggja fyrir í forsetakosningum ríkisins! Það hefði verið nánast óbærilegt fyrir réttinn og eininguna í Bandaríkjunum að koma nálægt slíku.
Einhver kynni að skella í góm og segja að sú eining hefði ekki verið upp á marga fiska síðustu árin, en það er önnur saga. Dómstólaslagur á fyrri stigum hefði verið allt annað mál, þótt það sé ætíð tvíbent. Hver sem úrslitin hefðu verið um t.d. spurninguna hvort ríkisstjórar geti tekið sér vald, vegna atriða eins og veirufaraldurs, til að breyta tilhögun og umgjörð kosninga, sem ótvírætt er að stjórnarskrá Bandaríkjanna leggur í vald ríkisþinganna, hefðu aldrei leitt til þeirrar óeiningar sem hitt, að Hæstiréttur Bandaríkjanna teldi sig nauðbeygðan til að „breyta úrslitum“ kosninga vegna stórgallaðrar umgjörðar um þær, sem ekki hafði verið láta reyna á með nægjanlegum styrk, strax þegar þeir tilburðir lágu fyrir. En við spurningunni sem stundum er til umræðu um að demókratar hafi með „trikkum“ stolið kosningunum af Trump má gefa tvenns konar svör. Yfirgnæfandi líkur standa til að frambjóðandi demókrata hefði aldrei náð að vinna þau kjördæmi þar sem umgengnin um atkvæðin var hvað svakalegust nema með þeim aðferðum sem þeir beittu. Forsetinn og flokkur hans sáu að nokkru leyti til hvers refirnir voru skornir. Margvísleg opinber ummæli þeirra sýna það. Þótt nokkrar óburðugar tilraunir og gjarnan síðbúnar hafi verið uppi um að koma málum til dómstóla þá var það í skötulíki og skorti allan þunga.
Hæstiréttur Bandaríkjanna leyfði ekki áheyrn um meinta ágalla sem taldir voru vera á kosningunum, eða um valdþurrð við ákvörðun um þær.
Þegar þannig var komið, þá er afstaða réttarins skiljanleg og sennilega eðlilegur kostur.
Það fylgir því oft heilmikil sjálfsásökun að vakna upp „vitur eftir á“. Donald Trump hafði, sem forseti fyrstu tvö árin, meirihluta í báðum deildum þingsins og hefði getað nýtt tíma sinn betur en hann gerði. Hann hefði til að mynda getað beitt sér fyrir því að breyta umgjörð bandarískra kosninga í átt við það sem best þekkist annars staðar. En þótt Trump hefði verið svo framsýnn er ekki óhugsandi að flokkur demókrata hefði samt sem áður getað náð að misnota aðstöðu sína í einstökum ríkjum með vísun til kórónuveirunnar. Þeir svifust einskis þegar Trump átti í hlut, eins og galdrafárið um samsæri Pútíns og Trumps sýnir, sem var frá upphafi til enda byggt á samsuðu sem kosningastjórn Demókrataflokksins hafði látið gera og kostaði.
Eftiráspekin bendir einnig til þess að repúblikanar hefðu sjálfir getað brotist inn í leikfléttu demókrata og tryggt með einföldum hætti að kjörfundir stæðu í allmarga daga og væru opnir lengur og engin atkvæði yrðu talin fyrr en öll atkvæði væru komin í hús, eins og gert var á sínum tíma í lok heimsstyrjaldar, t.d. í Bretlandi til að tryggja að fjölmenn herlið þeirra, þá um víða veröld, næðu að kjósa. Sú brjálæðislega aðferð að sturta atkvæðum heim eftir óskum einstaklinga, sem kjörstjórnir þekktu engin deili á, og treysta þeim fyrir kosningum og láta svo safna þeim saman í útboði, er auðvitað einhver ósvífnasti pólitíski leikur sem hægt er að leggja í.
En það er búið og gert. Og þar sem það var ekki fyrr en á lokaspretti að leitað var atbeina dómstóla um vafasama aðkomu, sem Hæstiréttur hafnaði, sitja menn sárir og svekktir uppi með niðurstöðu hans. Þar með verða menn að kyngja því að settur hefur verið punktur. Biden telst því samkvæmt lagabókstafnum réttkjörinn forseti. Hversu lengi sú niðurstaða dugar honum er önnur saga, eins og nýjustu dæmin um afrek hans sýna.
Tekur þetta með trukki
Fréttir voru um það sama daginn að Biden hefði sagt við blaðamenn „að forsetinn hefði falið sér sem varaforseta, það var Trump forseti, ó, nei, þetta var „freudian slip“, það var Obama forseti ...“ Og við annan hóp sagði hann „að það kæmi sjálfsagt mörgum á óvart að hann hefði sem bílstjóri keyrt 18 hjóla trukk“.
Og Biden átti kollgátuna, þetta kom blaðamönnum á óvart, ekki síst þar sem það þarf sérstök réttindi og uppfærð skírteini til að fara með slík ferlíki út á þjóðvegina, sem Biden virtist hafa gert.
Blaðafulltrúi forsetans var ítrekað spurður út í þetta afrek en lengst af var lítið um svör. Þráspurð sagði blaðafulltrúinn loks að það væru vísbendingar um að Biden hefði einhvern tíma setið frammi í hjá bílstjóra á stórum trukk!
Fyrir mörgum árum, þegar Joe Biden var miklu yngri, sagði hann blaðamönnum að hann hefði farið til Suður-Afríku og bjargað þar Nelson Mandela, síðar forseta, úr fangelsi! Þetta hafði enginn heyrt, ekki einu sinni Mandela.
En kannski hefur hann gert heiðarlega tilraun til þessa. Farið á 18 hjóla trukknum með Arnold Schwarzenegger undir stýri (sem hefur örugglega full réttindi) og Nelson Mandela hefur svo setið á milli þeirra þjótandi á vit frelsisins. Í slíkum ógnarleiðangi er hreint smáatriði, eða þá freudian slip, hvort það var Obama eða Trump sem sendi hann í þennan leiðangur.
Eða Freud sjálfur.