Margir gleðjast nú yfir árangri Breiðabliks eftir að liðið sló út félag með mikla hefð, Austria Wien. Skiljanlega. Næsti andstæðingur er Aberdeen sem eitt sinn varð Evrópumeistari bikarhafa undir stjórn sir Alex Fergusons.
Margir gleðjast nú yfir árangri Breiðabliks eftir að liðið sló út félag með mikla hefð, Austria Wien. Skiljanlega. Næsti andstæðingur er Aberdeen sem eitt sinn varð Evrópumeistari bikarhafa undir stjórn sir Alex Fergusons. Á þeim árum dróst Aberdeen tvívegis á móti ÍA og kemur nú aftur til Íslands.

Ég legg til að forystufólk í KSÍ beiti sér fyrir því á vettvangi UEFA að notast verði við gamla fyrirkomulagið í Evrópukeppnum á nýjan leik. Landsmeistarar fari í Evrópukeppni meistaraliða og bikarmeistarar í Evrópukeppni bikarhafa. Eina undantekningin væri að sigurvegarar í keppnunum gætu tekið aftur þátt í þeim. Liðin sem lenda ofarlega í deildakeppnum fara í Evrópukeppni félagsliða. Útsláttarfyrirkomulag í ætt við bikarkeppni.

KSÍ hefur svo sem farnast ágætlega án þess að ég sé að stjórnast í því en ég held að minni þjóðir ættu að kasta þessu fram. Með þessu myndi aftur opnast tækifæri fyrir smáþjóðir eins og okkur að fá sigursælustu lið Evrópu í heimsókn. Barcelona, Real Madríd, Juventus, Benfica og Liverpool mættu íslenskum liðum á árum áður í Evrópukeppnum. Einnig lið eins og Dynamo Kiev, Köln, Gladbach, Sporting Lissabon, Mónakó og Aston Villa sem þá voru með þeim bestu í Evrópu.

Nýlega var því mótmælt mjög að til yrði ný keppni þar sem drifkrafturinn var von um aukinn hagnað og fleiri leiki. Fyrst mönnum misbýður það þá mætti alveg eins breyta Meistaradeildinni þar sem drifkrafturinn var svipaðs eðlis þótt þessar keppnir séu ekki sambærilegar. Mér hefur aldrei fundist eðlilegt að lið geti orðið Evrópumeistari meistaraliða án þess að verða meistari í heimalandinu.