270 konur hafa tilkynnt tíðaraskanir til Lyfjastofnunar.
270 konur hafa tilkynnt tíðaraskanir til Lyfjastofnunar. — Morgunblaðið/Eggert
Esther Hallsdóttir esther@mbl.is Lyfjastofnun hefur ákveðið að hefja sérstaka rannsókn á röskun á tíðahring kvenna í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19.

Esther Hallsdóttir

esther@mbl.is

Lyfjastofnun hefur ákveðið að hefja sérstaka rannsókn á röskun á tíðahring kvenna í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19. Fram kom í Morgunblaðinu á fimmtudaginn að Lyfjastofnun hefði borist alls 270 tilkynningar sem sneru að þrettán einstökum aukaverkunum.

Markmið rannsóknarinnar er samkvæmt Lyfjastofnun að leita skýringa á orsökum þessa og veita þeim konum sem um ræðir stuðning og viðeigandi ráð. Gert er ráð fyrir að rannsóknin taki nokkrar vikur.

Óháðum sérfræðingum á sviði kvensjúkdóma-, fæðingar- og blóðstorkufræða verður falið að rannsaka tilfellin. Unnið er að því að skipa í hópinn. Þá kemur fram að framkvæmd rannsóknarinnar njóti stuðnings embættis landlæknis og sóttvarnalæknis.

Rebekka Ósk Sváfnisdóttir, sem vakti athygli á málinu og stofnaði facebookhóp fyrir konur með raskanir á tíðum í kjölfar bólusetningar, segist mjög glöð vegna tíðindanna. Hún fékk bréf frá landlækni í gærmorgun þar sem henni var tilkynnt ákvörðunin.

„Þetta er allt sem við vildum. Allt sem við óskuðum eftir,“ segir hún.

Spurð um væntingar sínar til framhaldsins segist hún vonast til að konurnar verði upplýstar um framgang rannsóknarinnar. „Ég vona að við verðum ekki settar núna á bið í fleiri, fleiri vikur og heyrum ekki neitt,“ segir hún.

Fleiri en 1.200 í hópnum

Stöðugt bætist í facebookhópinn og telur hann nú meira en 1.200 konur. Konurnar eru með mismunandi einkenni, en sjálf var Rebekka á blæðingum í 53 daga í kjölfar bólusetningar. Samhliða fékk hún mikla verki í móðurlífið, brjóstaspennu og þreytu. Þrátt fyrir að blæðingarnar hafi stöðvast í vikunni glímir hún enn við mikla túrverki og þreytu.