Í júní voru fluttar út vörur fyrir 58,7 milljarðar króna og inn fyrir 88,9 milljarða króna. Vöruviðskiptin voru því óhagstæð um 30,2 milljarða króna.

Í júní voru fluttar út vörur fyrir 58,7 milljarðar króna og inn fyrir 88,9 milljarða króna. Vöruviðskiptin voru því óhagstæð um 30,2 milljarða króna. Til samanburðar við júní í fyrra voru reiknuð vöruviðskipti óhagstæð um 23,3 milljarða á gengi hvors árs fyrir sig. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni.

Vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánuði var óhagstæður um 173,5 milljarða sem er 4,4 milljörðum meira en á tólf mánaða tímabili þar á undan.

Verðmæti vöruútflutnings í júní jókst um 11,9 milljarða króna miðað við sama mánuð á síðasta ári, eða um 25,5%. Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 18,8 milljarða króna í júní miðað við sama tímabil í fyrra, eða um 26,8%.

Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá júlí 2020 til júní, var 668,5 milljarðar og jókst um 10,5% á gengi hvors árs miðað við sama tímabil ári fyrr. Verðmæti vöruinnflutnings á sama tímabili nam 842 milljörðum króna.