Smit Skimað fyrir veirusmiti í kínversku borginni Nanjing í gær.
Smit Skimað fyrir veirusmiti í kínversku borginni Nanjing í gær. — AFP
Ný smitbylgja, sem fyrst greindist í borginni Nanjing í Kína, vex hratt en hún hefur þegar slegið sér niður í fimm héruðum og í höfuðborginni Peking.

Ný smitbylgja, sem fyrst greindist í borginni Nanjing í Kína, vex hratt en hún hefur þegar slegið sér niður í fimm héruðum og í höfuðborginni Peking. Kínverskir fjölmiðlar segja að þar sé á ferðinni víðáttumesta smit á eftir hinu upphaflega í Wuhan, þar sem kórónuveiran átti upptök sín fyrir hálfu öðru ári.

Um 200 manns greindust smitaðir í gær en fyrsta smitið var greint 20. júlí á alþjóðaflugvellinum í Nanjing sem mikil umferð er um. Hefur verið tekið fyrir allt flug um völlinn til 11. ágúst, að því er Global Times hafði eftir heimildarmönnum í gær.

Þá hófst í gær skimun á öllum 9,3 milljónum íbúa borgarinnar en yfirvöld í Nanjing hafa sætt gagnrýni fyrir seinagang í þeim efnum. Auk allra íbúa verða gestir borgarinnar einnig skimaðir fyrir kórónuveirusmiti, að sögn fréttastofunnar Xinhua.

Embættismenn telja að nýja bylgjan tengist Delta-afbrigðinu svonefnda sem er skæðara en önnur afbrigði kórónuveirunnar. Og sú staðreynd að smit hafi greinst á stórum flugvelli geti þýtt að hún hafi dreifst víða. Hafa stjórnendum vallarins verið veittar átölur og aganefnd Kommúnistaflokks Kína sagði eftirlit skorta með vallarstjórninni og hún ástundaði ekki fagleg vinnubrögð.

Skimun hefur leitt í ljós að í gær hafði smitbylgjan nýja borist til 13 borga hið minnsta, þar á meðal til Chengdu og Peking. Hefur miðillinn Global Times í gær eftir sérfræðingum að þeir telji bylgjuna enn á frumstigi og kleift ætti að vera að kveða hana í kútinn.

Embættismenn í Nanjing segja að af þeim sýktu sé líf sjö í hættu.