[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bernhard Jóhannesson fæddist að Laugalandi í Stafholtstungum í Borgarfirði 31. júlí 1951. „Faðir minn var hollenskur og hafði komið hingað fyrst 1939 til að aðstoða íslenska garðyrkjubændur að stíga sín fyrstu skref í ylrækt, þá á Suðurlandi.

Bernhard Jóhannesson fæddist að Laugalandi í Stafholtstungum í Borgarfirði 31. júlí 1951. „Faðir minn var hollenskur og hafði komið hingað fyrst 1939 til að aðstoða íslenska garðyrkjubændur að stíga sín fyrstu skref í ylrækt, þá á Suðurlandi. Eftir stríð kom hann upp í Borgarfjörð þar sem hann svo kynntist móður minni 1945. Árið 1953 keyptu foreldrar mínir hlut úr garðyrkjustöð á Kleppjárnsreykjum í Reykholtsdal og nefndu nýbýli sitt Dalbæ.“ Á Kleppjárnsreykjum var hann í barnaskóla, fór síðan í Héraðsskólann í Reykholti og ári síðar að Núpi í Dýrafirði og lauk þaðan gagnfræðiprófi 1970.

Árið eftir keypti Bernhard garðyrkjubýlið Sólbyrgi þar sem hann hóf búskap með Hugrúnu Björk, konu sinni, sem hann kynntist á Núpi. Seinna stækkuðu þau við sig og keyptu Dalbæ af föður Bernhards. Þar bjuggu þau næstu 27 árin eða til ársins 1998 þegar þau fluttust til Reykjavíkur. Þá höfðu þau stækkað stöðina upp í tæpa 6.000 m2 og var hún þá ein stærsta garðyrkjustöð á landinu. Einnig byggðu þau nýtt íbúðarhús. Á upphafsárum þeirra var þröngt í búi eins og gerist og gengur og var Bernhard þá á sjó á veturna á togaranum Neptúnusi RE sem var síðasti gufutogarinn sem gerður var út frá Reykjavík. „Þetta voru margir úthaldsdagar, ég man að einu sinni var ég 54 daga án þess að koma heim.“

Á yngri árum í Borgarfirðinum átti Bernhard hlut í flugvél, TF-LUX, með nokkrum vinum sínum og hafði mikla ánægu af því að skoða landið ofan frá ef svo má segja. Eftir að hann flutti suður eignaðist hann hlut í bát, Færeyingi sem nefndur er Böddi. „Á honum er gaman að sigla um og skoða landið frá öðru sjónarhorni og sækja aðeins í soðið.“ Bernhard hefur gaman af því að fara um fallega landið okkar og var nokkur sumur bílstjóri á rútu og keyrði allnokkra hringi um landið með fjölda skemmtilegs fólks. „Einnig höfum við hjónin farið í ýmsar ferðir þó oftast höfum við farið til Hollands þar sem ég á frændfólk en einnig hef ég farið bæði vegna vinnu og félagsstarfa.“

Honum er minnisstæð ferð þeirra hjóna með hluta af fjölskyldunni þegar þau heimsóttu yngsta son sinn í Hong Kong. „Sú borg er ákaflega ólík því sem við þekkjum með miklum háhýsum og mikilli gróðursæld þegar borginni sleppir. Í þeirri ferð fórum við einnig til Japan, þar er menningin einnig allt önnur en okkar. Mér er sérstaklega minnisstætt að sjá hofin sem reist voru til dýrðar Búdda og Gullna hofið. Það var magnað.“

Bernhard hefur lengi starfað innan Kiwanis-hreyfingarinnar og hefur verið virkur meðlimur í þremur klúbbum og forseti í þeim öllum ásamt því að vera svæðisstjóri. „Það er virkilega gefandi að vinna innan þessarar hreyfingar, eflandi og eykur víðsýni og hefur fært mér dýrmæta vini.“

Bernhard var fréttaritari Morgunblaðsins í tíu ár í Borgarfirði og þekkir því marga. Síðan tók hann við sem slökkviliðsstjóri í uppsveitum Borgarfjarðar á svæðinu frá Seleyri og fram í Húsafell. Eftir að garðyrkjustöðin var seld lá leiðin til Brunamálastofnunar en þar vann Bernhard næstu 18 árin sem sérfræðingur á slökkviliðasviði og hafði það verkefni að annast kennslu við Brunamálaskólann og hafa með höndum úttektir og eftirlit með slökkviliðum landsins. „Verkefnið var mjög fjölþætt og gaf mikla ánægju.“ Eftir starfslok hjá Mannvirkjastofnun var næsti vinnustaður Viking Life Saving Equipment á Íslandi, var Bernhard þar næstu tvö árin sem ráðgjafi. Um þetta leyti var Bernhard orðinn formaður Skógræktarfélags Kópavogs og tók fljótlega við sem framkvæmdastjóri.

„Við hjónin höfum gaman af ræktun grænmetis og blóma, einnig erum við með ávaxtatré í garðinum. Það eru nú ekki allir sem trúa því, en veðrið er ansi gott í Kópavoginum, ef ekki bara best á Íslandi.“ Eftir að Bernhard hætti að vinna hefur hann meiri tíma til að sinna áhugamálunum. „Við erum einnig með fjórar hænur sem gefa af sér afar góð egg og koma í veg fyrir matarsóun á heimilinu. Fyrir tveimur árum bættist svo hefðarkötturinn Lena við á heimilið.“

Fjölskylda

Eiginkona Bernhards er Hugrún Björk Hauksdóttir, húsmóðir og handverkskona, f. 26.11. 1953. Foreldrar hennar voru Garðar Haukur Georgsson, sjómaður og bóndi, f. 8.2. 1927, d. 12.6. 1927, og Eyrún Sigurðardóttir, veitingamaður í Reykjavík, f. 26.5. 1928, d. 14.2. 1969. Börn Bernhards og Hugrúnar Bjarkar eru: 1) Bernhard Þór, viðskiptafræðingur í Reykjavík, f. 14.11. 1972. Maki hans er Jónína Laufey Jóhannsdóttir, f. 20.6. 1973, kennari. Þeirra börn eru: Baldur Freyr, f. 26.1. 1999; Hugrún Björk, f. 1.2. 2001, og Björn Haukur, f. 8.9. 2006. 2) Magni Már, kírópraktor í Kópavogi, f. 15.7. 1974. Maki hans er Hrafnhildur Gísladóttir viðskiptafræðingur, f. 26.1. 1976. Börn þeirra eru: Viktoría, f. 5.5. 2002; Lúkas Magni, f. 18.2. 2005, og Jökull Gísli, f. 10.8. 2008. Fyrir átti Magni Andra Má, f. 30.5. 1997. 3) Heiðar Örn, tölvunarfræðingur og forritari í London, f. 24.8. 1986. Sambýliskona hans er Clara Cheung, lyfjafræðingur og forritari, f. 27.7. 1991. Bróðir Bernhards er Jón Jakob, bakari í Reykjavík, f.10.9. 1947, og hálfbróðir hans er Valtýr Ómar Guðjónsson Mýrdal, f. 20.11. 1938 í Reykjavík.

Foreldrar Bernhards voru hjónin Jan Adríanus Jansen síðar Jóhannes Jónsson, garðyrkjubóndi í Dalbæ, Kleppjárnsreykjum Borgarfirði, f. 30.8. 1912, d. 22.12. 1984, og Þuríður Jónsdóttir, húsmóðir í Dalbæ, f. 19.9. 1910, d. 2.9. 1971.