Þegar litið er yfir framboð kvikmynda í kvikmyndahúsum hér á landi um helgina er eitt sem stendur upp úr. Í dag, sunnudag, eru 11 myndir í boði í bíóhúsum Sambíóanna. Af þeim eru allar nema ein, teiknimyndin Flummurnar , byggðar á áður útgefnu efni. Myndin sem sýnd er oftast er myndin Jungle Cruise sem byggð er á tæki í skemmtigarðinum Disneylandi. Sjö af myndunum 11 eru byggðar á öðrum kvikmyndum, þ.e. eru framhaldsmyndir eða endurgerðir af gömlum myndum.
Þetta framboð virðist endurspegla þróun sem hefur átt sér stað í Hollywood síðustu ár og áratugi; framleiðslufyrirtækin virðast stóla á kvikmyndir byggðum á efni sem áhorfendur kannast við og reyna þannig að nýta sér vinsældir þess. Gamlir karakterar í nýjum aðstæðum eða nýir karakterar í þekktum aðstæðum. Ekkert kemur á óvart, allt fylgir sömu formúlunni. Við lifum á tímum hagnaðarsjónarmiða en kvikmyndir sem listform eiga undir högg að sækja.
Hræðast áhættu
Ef litið er á 20 tekjuhæstu kvikmyndir hvers árs á heimsvísu sést að fjöldi þeirra mynda sem byggjast á öðrum myndum hefur aukist talsvert síðustu 30 árin. Árið 1993 voru tvær af 20 tekjuhæstu myndunum byggðar á öðrum myndum en árið 2018 voru þær 16 og árið 2019 voru allar 10 tekjuhæstu myndirnar byggðar á öðrum kvikmyndum.Stóra ástæðan fyrir þessari þróun virðist vera áhættufælni kvikmyndastúdíóa. Gífurlegar fjárhæðir fara í framleiðslu stærstu kvikmynda heims og ef kvikmyndin er byggð á efni sem vitað er að dregur marga í bíó tekur framleiðandinn um leið mun minni áhættu. Þetta hefur gefist vel eins og árangur kvikmyndanna sem byggðar eru á söguheimi Marvel-myndasagnanna sýnir.
„Þú einblínir á efni þar sem fólk hefur tilfinningu fyrir söguhetjunum og hefur tilfinningu fyrir framvindunni, fyrir söguþræðinum,“ sagði Walt Hickey, sérfræðingur í dægurmálum hjá FiveThirtyEight við ABC-fréttastofuna árið 2017. Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að svo vinsælt hefur orðið að gera framhaldsmyndir en einnig að endurgera gamlar myndir eða sjónvarpsþætti sem hafa notið vinsælda hjá einni kynslóð og vonast er til að geri hið sama hjá annarri.
Virðist þarna búið að finna ákveðinn eiginleika mannlegs eðlis: við viljum sjá eitthvað sem við þekkjum. Við viljum ekki sjá sömu myndina aftur og aftur heldur sömu persónurnar að takast á við ný vandamál eða sömu söguna í nýjum búningi. Má segja að þetta sé að einhverju leyti tilkomið af okkar eigin áhættufælni; við veljum frekar það sem við könnumst við og vitum að verður allavega ágætis afþreying frekar en að taka áhættuna og sjá það sem við þekkjum ekki.
Ekkert ferskt á sumrin
Að byggja kvikmyndir á höfundarréttarvörðu efni er auðvitað ekkert nýtt í kvikmyndaiðnaðinum. Árið 1905 gaf Thomas Edison út mynd sem byggði á röð ljósmynda á póstkortum. Fjöldinn allur af myndum um leðurblökumanninn leit dagsins ljós á níunda og tíunda áratugnum og fengu fjórir að leika ofurhetjuna á aðeins átta ára tímabili. Þá verður No Time To Die , sem kemur í kvikmyndahús í haust, 25. myndin um njósnara hennar hátignar, James Bond. Í gegnum kvikmyndasöguna hafa framleiðendur einnig treyst á vinsældir ákveðinna leikara og leikkvenna sem fólk vill sjá í nýju hlutverki.Nú er hins vegar svo komið að á sumrin, þegar stærstu myndir ársins koma út, fara ekki myndir í kvikmyndahús nema þær treysti annað hvort á leikara, leikkonu eða leikstjóra sem nýtur mikilla vinsælda eða þær byggist á öðru efni, sagði Hickey við ABC. Það hefur ekki alltaf verið svo. „Það að Steven Spielberg, þegar hann var enn nokkurn veginn óþekktur, gæti gert Jaws og átt miðasöluna það sumarið, á heima í fortíðinni,“ sagði Hickey.
Ómerkilegri myndir?
En er þessi þróun slæm? Kvikmyndaunnendur vilja margir meina svo, enda verður þessi endurvinnsla á efni oft til þess að kvikmyndirnar verða fyrirsjáanlegar og óspennandi. Of mikið er einblínt á að skila hagnaði frekar en að búa til góðar kvikmyndir og fer stór hluti fjármagns í Hollywood í myndir sem vitað er að verða vinsælar. Erfiðara er því fyrir aðra að komast að með sínar hugmyndir og þurfa þeir oft og tíðum að gera það án hjálpar kvikmyndavera.Aðrir benda þó á að myndir sem njóta vinsælda hjá stórum hópi aðdáenda skapi tengsl á milli þeirra og samfélög myndist jafnvel. Þá má einnig spyrja sig hvort kvikmynd sé ómerkilegri fyrir þær sakir að hún innihaldi karaktera eða byggist á sögu úr öðrum myndum eða sjónvarpsefni.
Að lokum má nefna að þótt minni líkur séu á því að myndum byggðum á öðru efni vegni illa í miðasölu er ekkert víst í þeim efnum. Frægasta dæmi síðustu ára er líklega myndin Cats , byggð á samnefndum söngleik, sem fékk hræðilega dóma meðal gagnrýnenda fyrir tveimur árum og náði ekki upp í framleiðslukostnað með miðasölu. Þá hafði myndin Baywatch , byggð á samnefndum þáttum, stóran aðdáendahóp og fræga leikara en náði aldrei neinu flugi í miðasölu þegar hún kom út árið 2017.
Tæpur milljarður á mynd
Kvikmyndaheimur Marvel (MCU) er líklega hvað þekktasta dæmið um röð kvikmynda sem byggja á hver annarri. Árið 2008 kom myndin Iron Man með Robert Downey Jr. í hlutverki járnkarlsins út og markaði upphaf gullaldar ofurhetjumynda, allavega þeirra sem byggja á myndasögum Marvel. Eru myndirnar orðnar 24 á aðeins 13 árum og eru að minnsta kosti 14 aðrar á mismunandi stigum framleiðslu. Það má varla blikka augunum og þá er komin ný mynd um ævintýri Þórs úr norrænni goðafræði eða þriðji þríleikurinn um kóngulóarmanninn farinn af stað.Tekist hefur ótrúlega vel til við gerð þessara mynda ef litið er til miðasölu. Hhver mynd hefur að meðaltali halað inn tæpan milljarð bandaríkjadala á heimsvísu, en framleiðslukostnaðurinn, sem hefur þó verið gríðarlegur, er langtum lægri. Þó má ekki bara skrifa árangurinn á ást kvikmyndaunnenda á ofurhetju- og framhaldsmyndum því mun verr hefur tekist til hjá myndasögurisanum DC.