Nú er runnin upp verslunarmannahelgi og verður að þessu sinni heldur lágstemmdari en alla jafna.

Nú er runnin upp verslunarmannahelgi og verður að þessu sinni heldur lágstemmdari en alla jafna. Það eru vonbrigði en vonandi nýta landsmenn engu að síður tækifærið sem felst í langri helgi og væntanlegri veðurblíðu til að hlaða batteríin, eins og það er kallað, og búa sig undir haustið og veturinn.

Óskandi er að haustið verði milt og veturinn skammur, en um það veit enginn. Og sama óvissa ríkir um pólitíska haustið og veturinn í stjórnmálunum.

Brestur hann á með fjögurra ára fimbulkulda eða geta landsmenn að minnsta kosti vonast eftir sæmilega mildu pólitísku vori á næsta kjörtímabili?

Pólitíska umræðan hefur verið hófleg að undanförnu eins og vera ber á þessum árstíma en líklegt er að leikar æsist hratt á komandi vikum.

Þess mátti sjá merki í furðukröfu um að kalla saman þing vegna kórónuveirusmita og ýmissa annarra mála. Bar sú krafa þess merki að sumir óttast 5%-múrinn og getur slíkur ótti hæglega valdið frekari pólitískum upphlaupum á næstunni.

En það er meira áhyggjuefni hvað gerist eftir kosningar. Verða flokkarnir margir eða fáir, sex, sjö, átta eða jafnvel níu?! Eru líkur á að hægt verði að mynda starfhæfa ríkisstjórn eða bíður pólitískur glundroði handan kosninganna? Þetta er meðal þess sem landsmenn verða að velta fyrir sér á næstunni.