Greiddum gistinóttum á hótelum fjölgaði um 108% í júnímánuði samanborið við sama mánuð í fyrra. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar. Þá fjölgaði greiddum gistinóttum um 62% á gistiheimilum og 37% á öðrum tegundum gististaða. Séu tölurnar bornar saman við árið 2019 nemur fækkunin hins vegar 55% á hótelum, 43% á gistiheimilum og 45% á öðrum tegundum gististaða.
Greiddar gistinætur á hótelum voru 188 þúsund og fjölgaði þeim í öllum landshlutum nema á Austurlandi þar sem samdráttur nam um 3%. Mest var aukningin á höfuðborgarsvæðinu þar sem greiddum gistinóttum fjölgaði gríðarlega, fóru úr 18.600 í júní 2020 í 74.200 í síðastliðnum mánuði.