Júlíana Silfá Jónsdóttir fæddist 1. ágúst 1865 á Eyrarnesi í Snæfellssýslu. Eftir fermingu vann hún sem vinnukona í Barðastrandarsýslu og í Stykkishólmi, en fluttist síðan til Elliðaeyjar þar sem hún giftist Magnúsi Einarssyni hafnsögumanni árið 1892 og átti með honum dótturina Silvu Brynhildi. Hún varð ekkja tveimur árum síðar og fluttist þá til Reykjavíkur og lenti um vorið 1912 í slagtogi með Jóni Jónssyni sem, skv. Morgunblaðinu 17.11. 1913, þótti „fremur ófús til vinnu“ og bjuggu þau síðast á Brekkustíg 14. Skötuhjúin þóttu gefin fyrir sopann og var Júlíana þekkt fyrir mikið skap. Bróðir Júlíönu var Eyjólfur Jónsson, oft kallaður Eyjólfur sterki. Hann flutti til Reykjavíkur 1912 og bjó fyrst hjá systur sinni, en flutti síðan á Dúksstíg. Hann var fjáður á þess tíma mælikvarða, þótt ekki bæri hann það með sér. Júlíana hafði geymt fyrir hann kistil nokkurn, þar sem hann geymdi sparisjóðsbók og eitthvert lausafé. Þegar hann sækir kistilinn sér hann að bókin er horfin og eitthvað af peningunum. Þegar Eyjólfur ætlar að innheimta skuldina skilar Júlíana honum bókinni en það kastast í kekki milli systkinanna og sló Eyjólfur til hennar svo á henni sá.
1. nóvember 1913 finnur Eyjólfur miklar magakvalir og kennir um skyri sem hann hafði fengið hjá Júlíönu. Hann fer til vinnu, en það dregur af honum næstu daga og 13. nóvember deyr hann á Landspítalanum. Böndin bárust fljótt að Júlíönu og hún gekkst við glæpnum, en sagðist hafa keypt rottueitur að áeggjan Jóns. Ekki þótti fullsannað að Jón hefði lagt á ráðin um morðið á Eyjólfi. 24. apríl 1914 var Júlíana dæmd til dauða og greiðslu málskostnaðar. Dómnum var síðar breytt í ævilangt fangelsi og var Júlíana vistuð á Landakotsspítala fram að andláti hennar 15. júní 1931.
Dómurinn yfir Júlíönu fyrir bróðurmorðið var síðasti dauðadómur sem kveðinn var upp á Íslandi.