— Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Nú um hásumarið er starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja í lágmarki og margir bátar í höfn. Við Miðgarð í Grindavík liggja línubátar Vísis, Páll Jónsson GK, Sighvatur GK og Fjölnir GK, og aftar við sömu bryggju eru Vörður ÞH og Áskell ÞH, togskip Gjögurs hf.

Nú um hásumarið er starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja í lágmarki og margir bátar í höfn. Við Miðgarð í Grindavík liggja línubátar Vísis, Páll Jónsson GK, Sighvatur GK og Fjölnir GK, og aftar við sömu bryggju eru Vörður ÞH og Áskell ÞH, togskip Gjögurs hf. Vísisbátarnir fara aftur út til veiða í kringum 20. ágúst og vinnsla fyrirtækisins í gang á svipuðum tíma. Í sjávarútvegi miðast flest við nýtt fiskveiðiár sem gengur í garð hinn 1. september næstkomandi.

Vísir hf. keypti nýlega togskipið Berg VE af Bergi-Hugin í Grindavík og tekur væntanlega inn í útgerð sína á haustdögum. Sá bátur kemur í stað línuskipanna Jóhönnu Gísladóttur GK, sem tekið verður úr rekstri, og Kristínar GK, sem var lagt á síðasta ári.

„Með þessari breytingu lögum við skipastól okkar að kvótastöðu okkar, en heimildir okkar á næsta fiskveiðiári verða skertar um 1.300 tonn. Sú tala er tilsvarandi því sem veiðist á einum bát hjá okkur yfir árið. Uppstokkun var nauðsyn vegna þessara aðstæðna,“ sagði Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, í samtali við Morgunblaðið. sbs@mbl.is