Ari Páll Karlsson
ari@mbl.is
Fornleifafræðingar Háskóla Íslands hefjast handa við uppgröft Þingeyraklausturs að nýju eftir helgi. Þetta er í þriðja skipti sem þau fara norður á Þingeyrar að grafa upp en talið er að klaustrið sem þar stóð hafi verið eitt helsta klaustur landsins og vellauðugt.
„Okkur gengur mjög vel að aldursgreina,“ segir dr. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur, en þau hafa undanfarið rannsakað frjókorn úr jarðveginum sem sýna fram á að alls konar ræktun hafi farið þar fram.
Þar að auki vinna þau náið með Íslenskri erfðagreiningu við DNA-rannsóknir á mannabeinum úr klaustrinu. „Þannig að tímabilin eru mjög skýr,“ segir Steinunn.
Eldgos og faraldur
„Þessi byrjunarrannsókn sem við erum að gera með frjókorn sýnir að það eru mjög skýrar breytingar. Bæði þegar klaustrið er stofnað og byrjað að reka það, þegar það endar og síðan þarna í kringum svartadauða,“ segir Steinunn. Þá hafi verið eldgos um svipað leyti og klaustrið var stofnað. „Það er gos í Heklu þarna 1104 sem hjálpar okkur,“ segir Steinunn en talið er að klaustrið hafi tekið til starfa árið 1112 og verið formlega sett 1133.Faraldur svartadauða setti svip sinn á klaustrið og þar af leiðandi umhverfið í kring þegar hann geisaði hér á landi í tvígang á 15. öld. „Ábótinn, yfirmaðurinn, deyr 1402 og margir munkanna deyja bæði þegar faraldurinn kemur þá og þegar hann kemur aftur 1492.“
Þrátt fyrir mikið mannfall hagnaðist þó klaustrið mikið á faraldrinum í bæði skiptin. „Fólk var að heita á klaustrið til þess að kveða þetta niður. Það fór aldrei illa efnahagslega þrátt fyrir þetta mikla mannfall,“ segir Steinunn. „Af því að fólk vissi ekki hvað þetta var og trúði því bara að ef það héti á klaustrið myndi þetta kannski hverfa.“
Það hafi þó verið eitt af því sem leiddi til siðaskiptanna 1550 en klaustrinu var lokað 1551.
„Það var upphafið að þessu falli. Fólk hætti að trúa á þetta.“
Þetta er þriðja sumarið sem Steinunn og samstarfsfólk hennar vinna við gröft á svæðinu, öll sumur síðan 2018 að sumrinu 2019 undanskildu. „Við þurftum að taka hlé þá, sem voru mikil vonbrigði,“ segir hún en það sumar var ekki veitt fjármagn til uppgraftar í Þingeyraklaustri.