Þrátt fyrir vonbrigði, baráttu og ósigra má upplifa sigur í nánast flestum kringumstæðum.
Það er nefnilega svo ótrúlega merkilegt og þakkarvert, þrátt fyrir allt, hvað hægt er að upplifa jákvæða hluti og öðlast djúpa og dýrmæta reynslu, jafnvel bara í sárustu aðstæðum og neyð. Í gegnum allt að því óviðunandi tíðindi og atvik, þjáningu og staðreyndir.
Þegar þú finnur þig örvinglaðan, gersamlega máttlausan, algjörlega yfirbugaðan, rændan allri virðingu og reisn, vittu þá að þar er Guð sem elskar þig út af lífinu og mun reisa þig upp úr stundlegum vanmætti til eilífs sigurs.
Allt mun verða nýtt
Inni í blámanum úti við ysta haf tekur við annar heimur þar sem þér hefur verið búinn staður utan tíma, efnis og rúms.Þar ríkir fegurð og friður, fyrirgefning og réttlæti, sumar og sátt, líf í fullri gnægð.
Þú gengur á skýjum himins inn í endurnýjun lífdaga. Þar sem allt verður nýtt og kærleikurinn, fegurðin og friðurinn vara að eilífu.
Auðmýkt
Að biðja Guð um náð og miskunn er ekki merki um vanmátt eða veikleika heldur styrkleika. Auðmýkt sem gott er að gangast og gagnast okkur best í lífinu.Takk Guð fyrir táknmál táranna sem glóa svo fallega í minningunni. Tárin eru dýrðleg gjöf sem minna á miskunn Guðs á erfiðum tímum sem og á gleðistundum. Gleymum því ekki.
Verið ávallt góðum Guði falin. Honum sem er höfundur og fullkomnari lífsins.
Með kærleiks- og friðarkveðju.
– Lifi lífið!
Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.