Veronika S. Magnúsdóttir
Þóra Birna Ingvarsdóttir
Ragnhildur Þrastardóttir
Níu sjúklingar lágu á Landspítala veikir af Covid-19 í gær, sjö á legudeildum og tveir á gjörgæslu. 112 innanlandssmit kórónuveiru greindust á fimmtudag en mögulega voru fleiri jákvæð sýni tekin þann dag.
Sýni sem berast rannsóknarstofunni seint á kvöldin eru ekki keyrð í gegnum kerfið fyrr en að morgni daginn eftir. Því eru tölurnar ekki endanlegar fyrr en um eftirmiðdaginn. Þær eru þó ekki uppfærðar á covid.is nema klukkan ellefu dag hvern.
1.066 manns voru í eftirliti Covid-göngudeildar Landspítala í gær, þar af 132 börn. Þrír þeirra sem voru í eftirliti deildarinnar voru skilgreindir rauðir í litakóðunarkerfi hennar en 18 einstaklingar flokkuðust gulir. Hinir 1.045 eru skilgreindir sem grænir. Einkenni þeirra sem eru skilgreindir sem rauðir eru alvarleg og eru þeir í mestri hættu á að verða alvarlega veikir og þarfnast innlagnar. Þeir sem eru skilgreindir gulir sýna jafnan mikil einkenni Covid-19 en þeir sem eru grænir eru oft einkennalitlir. Það getur þó verið mjög mismunandi eftir fólki.
Janssen-þegar hafa frekar smitast en aðrir bólusettir
Af þeim sem eru fullbólusettir og hafa greinst smitaðir af kórónveirunni í júlí hafa 345 verið bólusettir með bóluefni Janssen gegn Covid-19 eða 53%. Þetta kemur fram í svari embættis landlæknis við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Þá voru 168 (26%) bólusettir með bóluefni Pfizer, 102 (16%) með bóluefni AstraZeneca eða AstraZeneca ásamt mRNA-bóluefni í seinni skammti. Þá voru 25 einstaklingar (3%) í þessum hópi bólusettir með bóluefni Moderna.
Þessi hlutföll verða á næstu dögum greind með tilliti til aldurshópa og verður sú greining birt á covid.is og uppfærð vikulega.
Það sem af er júlímánuði hafa 1.059 manns greinst með Covid-19 og voru 39% smitaðra óbólusett.
Kamilla S. Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, segir að verið sé að skoða hvers vegna hlutfall smitaðra Janssen-þega er sexfalt hærra en hlutfall smitaðra sem þegið hafa annað bóluefni.
Hún telur að þetta geti líklega bæði skýrst af því að Janssen-þegar fari frekar í sýnatöku því þeir séu líklegri til að finna fyrir einkennum og að þeir sem fengið hafa Janssen séu líklegri til að smitast.
Þá kemur einnig til skoðunar hvort stöðuna megi rekja til aldursröðunar, en það var að megninu til ungt fólk sem fékk Janssen og unga fólkið hefur verið talið gjarnara á hópamyndun en aðrir. Janssen-þegum mun bjóðast örvunarskammtur í ágústmánuði.
Áhyggjur af helginni
Smitrakning hefur verið erfið, að sögn Kamillu. Mörg hundruð manns hafa þurft að fara í sóttkví á hverjum degi og hún segir enga leið að klára rakningu smita innan sólarhrings eins og æskilegt væri.„Stærsti þátturinn í því hvað þetta breiðist hratt út er hve margir eru ekki í sóttkví við greiningu. Fólk er búið að vera að umgangast aðra fram á seinustu stundu.“
Kamilla segist aðspurð hafa áhyggjur af verslunarmannahelginni.
Það sem skiptir máli, að mati Kamillu, er að fólk hugi að persónubundnum smitvörnum og sé ekki í stórum hópi ókunnugra. Betra sé að halda sig með þeim sem maður tengist og þekkir og er í góðum samskiptum við.