Elín Bjarney Jóhannsdóttir, Elley, fæddist í Vestmannaeyjum 19. september 1944. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 13. júlí 2021.

Foreldarar hennar voru Sigríður Júnía Júníusdóttir og Jóhann Eysteinsson. Systur Elleyjar eru Sigrún, f. 1938, d. 1983, og Selma, f. 1942.

Eiginmaður Elleyjar er Svavar Sigmundsson, fæddur í Vestmannaeyjum 1944. Móðir hans var Klara Kristjánsdóttir frá Vestmannaeyjum og faðir var Sigmundur Karlsson frá Stokkseyri. Börn Elleyjar og Svavars eru þrjú: 1) Héðinn, f. 1965, eiginkona Jóna Guðrún Guðmundsdóttir, f. 1967, börn þeirra eru Guðmundur Þór, f. 1993, Elín Harpa, f. 1996, Tómas Árni, f. 2000. 2) Jóhanna Sigríður, f. 1972, eiginmaður Stefán Guðmundsson, f. 1967. Dætur Jóhönnu eru Rakel Ása, f. 2001, og Katrín Svava, f. 2004. 3) Svavar Örn, f. 1976, sambýliskona Sara María Pålson, f. 1981. Dóttir Svavars er Díana Dögg, f. 2001.

Elley ólst upp í Vestmannaeyjum þar sem hún unni sér alltaf vel. Á yngri árum tók hún virkan þátt í íþróttastarfi Týs í handbolta. Sem ung kona fór hún til Noregs, nánar tiltekið til Voss þar sem hún var í lýðháskóla á íþróttasviði í tvö ár.

Elley og Svavar giftu sig á jóladag 1964 og byrjuðu sinn búskap í Hásteinsblokkinni í Vestmannaeyjum. Þar bjuggu þau til ársins 1967 er þau fluttu á Heiðarveg og hafa búið þar síðan.

Elley vann lengst af bókhalds- og skrifstofustörf, fyrst hjá Vinnslustöðinni og síðar hjá sínu eigin fyrirtæki, Brimnesi, sem hún rak ásamt eiginmanni í 33 ár. Elley var mikil hannyrðakona og hafði áhuga á ættfræði, ferðalögum og málum líðandi stundar.

Útför Elleyjar fór fram í Landakirkju 22. júlí 2021, í kyrrþey, að ósk hinnar látnu.

Mamma mín elskuleg er fallin frá eftir langvinna baráttu við krabbamein. Hún barðist hetjulega gegn sjúkdómnum en meinið var ólæknandi. Það er sársaukafull staðreynd.

Ég syrgi yndislega móður sem alltaf tók fullan þátt í lífi mínu af heilum hug og af öllu hjarta. Með sínu fallega og hlýja brosi, gáfum sínum og jákvæðni var hún svo gefandi. Hún kenndi manni að nálgast viðfangsefni hversdagsins sem og flókin verkefni lífsins af æðruleysi, kærleika og þrautseigju. Aldrei kom maður að tómum kofunum þegar mann vantaði upplýsingar um bara hvað sem var. Hún var vel að sér í svo mörgu og fylgdist vel með.

Alla tíð átti hún tíma og þolinmæði fyrir mig. Þetta breyttist aldrei þótt sambandið og vináttan þroskaðist og dýpkaði, viðfangsefnin og umræðurnar breyttust. Hún studdi mig og mína í leik og starfi af heilum hug. Velferð okkar skipti hana öllu máli.

Að vera með mömmu í góðu spjalli yfir kaffibolla, þar sem hún sagði mér sögur af því þegar hún var lítil stelpa í Eyjum, æskuvinkonum sínum, handboltanum, námsdvölinni í Noregi og þegar þau pabbi kynntust. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir allar minningarnar og góðu stundirnar sem ég átti með mömmu.

Mamma var réttsýn og heiðarleg. Hún var sá klettur og sú fyrirmynd sem maður getur einungis óskað sér að eiga í móður sinni.

Það verður erfitt að laga sig að lífinu án mömmu. Hennar gildi og eiginleikar munu hins vegar vera minn vegvísir. Ég mun ávallt sakna hennar en ég veit að hún gætir mín og mun aldrei fara frá mér.

Héðinn.

Elsku mamma mín

Nú er komið að leiðarlokum. Í þetta skiptið sigraði meinið sem þú tókst á við eins og hetja þrisvar á lífsleiðinni og af miklu æðruleysi.

Mikið á ég eftir að sakna þín. Sakna þess að taka spjall um heima og geima, hringja í þig þegar ég er að viðra Storminn og segja þér frá því sem ég er að gera.

Mikið á ég eftir að sakna þess að koma á Heiðarveginn þar sem þú tókst alltaf á móti okkur með hlýju og fallega brosinu þínu. Það verður skrýtið án þín en pabbi heldur áfram að taka á móti okkur með opnum örmum.

Takk fyrir allt elsku mamma. Fyrir hvatninguna, stuðninginn og leiðsögnina í lífinu. Fyrir að stappa í mig stálinu þegar ég þurfti á að halda og hafa trú á mér í mínum verkefnum.

Góða ferð í sumarlandið sem við töluðum oft um í veikindum þínum og vorum sannfærðar um að þar myndi þér líða betur. Við hittumst á ný síðar þegar minn tími kemur. Þangað til veit ég að þú vakir yfir okkur öllum.

Elska þig af öllu hjarta

Og þó að í vindinum visni

á völlum og engjum hvert blóm

og haustvindar blási um heiðar

með hörðum og deyðandi róm,

og veturinn komi með kulda

og klaka og hríðar og snjó,

hún lifir í hug mér sú lilja

og líf hennar veitir mér fró.

(Þorsteinn Gíslason)

Þín

Jóhanna Sigríður

(Hanna Sigga).