Kristinn Kristinsson fæddist 30. nóvember 1953. Hann lést 11. júlí 2021.
Útför Kristins fór fram 22. júlí 2021.
Elsku Kiddi. Við eigum svo margar skemmtilegar minningar um þig. Það var alltaf stuð og nóg að gera í kringum þig. Stórfjölskyldan var þér mikilvæg og þér þótti alltaf vænt um það þegar hún kom öll saman á jóladag og á 17. júní. Þú og mamma voruð forsprakkar skipulagningarinnar á þessum dögum.
Með árunum jókst samgangur okkar á milli og alltaf var gaman að fá ykkur Dídí í heimsókn í boð. Sérstaklega standa upp úr hrekkjavökupartíin og gamlárskvöldin. Krakkarnir biðu alltaf spennt eftir að þú kæmir eftir miðnætti á gamlárskvöld og sprengdir restarnar af flugeldunum og byggir til brennu með þeim. Ekki má gleyma að minnast á heimsóknirnar til ykkar í Öndverðarnesi í páskaeggjaleit þar sem þú lagðir mikið upp úr því að fela egg út um allt fyrir krakkana. Krakkarnir okkar voru farin að líta á þig sem einn af öfum sínum og tala um þig sem afa Kidda.
Þú sagðir okkur að vera duglegar að skapa skemmtilegar minningar með börnunum okkar því það væri það sem skipti máli hjá þeim þegar þau yrðu eldri.
Við eigum eftir að sakna þess að þú takir á móti okkur opnum örmum og með stóra brosið þitt.
Þínar frænkur,
Hildur, Áslaug og Ragna.