Sigríður Gunnarsdóttir fæddist á Morastöðum í Kjós 24. mars 1946. Hún lést á heimili sínu 30. júní 2021.

Foreldrar Sigríðar voru Gunnar Einarsson bóndi, f. 16.12. 1904, d. 16.12. 1987, og Aðalheiður Ingveldur Jónsdóttir húsfreyja, f. 5.1. 1911, d. 7.10. 1991. Systkini Sigríðar eru Bergmann, f. 18.1. 1932, Jón Einar, f. 22.12. 1933, d. 29.12. 2013, Stella Elsa, f. 30.6. 1935, Björg, f. 2.2. 1937, Ingibjörg, f. 7.7. 1938, Gróa, f. 19.8. 1940, Páll Ragnar, f. 12.9. 1941, Sveinn, f. 26.2. 1943, Guðrún, f. 6.2. 1950, og Hallbera, f. 29.6. 1952.

Sigríður giftist hinn 22.8. 1970 Þorsteini Gíslasyni, Reykjavík, f. 11.1. 1943. Foreldrar Þorsteins voru Gísli Guðmundsson, f. 6.7. 1899, d. 20.1. 1971, og Guðbjörg Jónsdóttir, f. 28.9. 1903, d. 23.3. 1996.

Börn Sigríðar og Þorsteins eru: 1) Gísli, f. 27.1. 1971. Eiginkona Gísla er Vala D. Jóhannsdóttir, f. 8.8. 1973. Sonur þeirra er Þorsteinn, f. 2010. Stjúpsonur Gísla er Jóhann Ágúst, f. 2001. Fyrri eiginkona Gísla er Þuríður Hjartardóttir, f. 16.4. 1974. Dætur þeirra eru Selma Kristín, f. 1999, og Sunna Sigríður, f. 2003. 2) Aðalheiður, f. 16.6. 1974. Eiginmaður Guðlaugur Jón Gunnarsson, f. 5.11. 1972. Börn þeirra eru Eva Björg, f. 1994. Sambýlismaður Evu Bjargar er Guðbjörn Jóhann Kjartansson. Dóttir Evu Bjargar er Embla Máney Aðalsteinsdóttir, f. 2016. Gunnar Steinn, f. 2000, d. 2016, Bjarki Steinn, f. 2008. 3) Gunnar, f. 22.5. 1975. Eiginkona Kristín Ólafsdóttir, f. 24.8. 1979. Börn þeirra eru Arnór Atli, f. 2004, Atli Hrafn, f. 2009, og Elísabet, f. 2009. 4) Guðbjörg, f. 24.6. 1977. Sambýlismaður Einar Rúnar Einarsson, f. 20.2. 1976. Börn þeirra eru Sigurlína María, f. 2010, og Þórdís Inga, f. 2013.

Sigríður bjó fyrstu árin á Morastöðum í Kjós en fluttist síðar til Reykjavíkur. Hún vann lengst af sem matráður í sameiginlegu mötuneyti nokkurra fyrirtækja, svo sem Iðnlánasjóðs, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og Kaupþings hf., í Ármúla 13.

Útför Sigríðar fór fram í kyrrþey frá Lindakirkju 15. júlí 2021.

Elsku mamma, ekki hefði mig grunað að tíminn þinn hér hjá okkur væri senn á enda. Þú gerðir allt fyrir alla en þáðir sjaldan aðstoðina sjálf. Það var ekkert sem þú gast ekki gert, brettir upp ermar og óðst í verkin, sannkölluð súpermamma.

Síðastliðin ár fór heilsu þinni að hraka en alltaf varstu til í smá flakk, kíkja í búðir og njóta. Ég er viss um að þú sért m.a. byrjuð að veiða, tína ber og horfa á fótboltann í sumarlandinu með elsku Gunnari syni mínum.

Það er sárt að kveðja, en með óendanlegu þakklæti og hlýju kveð ég þig að sinni, mamma mín, þín dóttir Heiða.

Þótt móðir mín

sé nú aðeins minningin ein

mun ég ávallt minnast hennar

með glöðu geði

og dýpstu virðingu,

hugheilu þakklæti

og hjartans hlýju,

fyrir allt og allt.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Aðalheiður

Þorsteinsdóttir.

Fimmtudaginn 15. júlí fylgdi ég móður minni hin hinstu skref. Síðustu vikur frá því að þú kvaddir hef ég verið að hugsa um allar okkar samverustundir. Þú varst með mér í öllum mínum stærstu ákvarðanatökum þegar ég var að koma mér út í lífið, fyrsti bíllinn, fyrsta íbúðin og framtíðarstarfið. Þú hvattir mig alltaf áfram í öllu því sem ég tók mér fyrir hendur.

Eftir sitja margar góðar minningar og samverustundir. Það var svo gott að leita til þín, hvort sem það var undirbúningur fyrir tjaldútileiguna, barnauppeldi, matreiðsla eða eitthvað annað.

Við systkinin ólumst upp í Vesturberginu, fjögur börn á sex árum. Ég spurði þig oft hvernig þú hefðir komist í gegnum þessi ár en þú sagðir alltaf að það hefði ekki verið mikið mál því við hefðum verið svo stillt og góð. Ég á góðar minningar um grillaðan kjúkling á sunnudögum og pönnukökurnar þínar frægu. Við ferðuðumst mikið saman, bæði innanlands og utan. Þökk sé starfi þínu hjá Flugleiðum fengum við tækifæri til að ferðast til Bretlands, Bandaríkjanna og Þýskalands þegar það var ekki svo algengt. Ég á einnig góðar minningar um tjaldútilegur, bústaðar- og skíðaferðir okkar saman.

Ég hef líka verið að hugsa um æskuna og uppeldið. Þú varst ótrúlega skapgóð og þolinmóð. Þú nappaðir mig þegar ég var að reykja sem táningur. Í stað þess að brjálast hvattir þú mig bara til að hætta að reykja og skelltir í mig nálastungum til að hjálpa mér með það. Þurfti nú ekki meira til hjá mér.

Þú varst flakkari eins og ég, ég gat alltaf hringt í þig og beðið þig að koma á flakk og þú sagðir alltaf já. Alveg sama hvað það var ómerkilegt. Á okkar litla flakki náðum við alltaf góðu spjalli um allt og ekkert. Eitthvað svo hversdags en dýrmætt núna. Það er svo oft núna síðustu daga sem ég hef hugsað til þín og hugsað með mér: ég hefði viljað hringja í mömmu og segja henni frá hinu eða þessu.

Ég er óendanlega þakklát fyrir kvöldstundina okkar Heiðu og Evu með þér á sunnudaginn áður en þú kvaddir. Við fórum fínt út að borða, þú sýndir okkur fínu fötin sem þú hafðir keypt þér fyrr í vikunni. Við spjölluðum svo um hitt og þetta eins og svo oft áður. Aldrei hefði ég trúað að þetta væri síðasta sinn sem ég hitti þig.

Elsku mamma, ég verð þér eilíflega þakklát fyrir trú þína á mér, fyrir hjálpfýsi þína og fyrir að vera alltaf til staðar. Minning þín lifir.

Guðbjörg

og fjölskylda.

Það er sagt að ljósmyndir fangi minningar. Það er nokkuð til í því. Þegar móðir mín féll frá nokkuð skyndilega nýverið fékk ég í hendur fjölmargar myndir og myndaalbúm úr lífi fjölskyldunnar sem við nánari skoðun veittu mér nýja sýn á líf mömmu minnar. Það er einhvern veginn þannig að þó að hlutirnir blasi við manni á maður það til að veita þeim ekki eftirtekt og taka þeim sem sjálfsögðum hlut. En þegar ég var að blaða í öllum þessum gömlu myndum eftir fráfall mömmu áttaði ég mig loksins betur á því fyrir hvað hún hafði staðið. Fyrir utan að hafa staðið sig afskaplega vel í uppeldi okkar systkina og hamhleypa til vinnu alla tíð blasti við hversu mikill náttúruunnandi hún var.

Mamma ólst upp á sveitabæ í Kjósinni og bernskan þar hefur mótað persónu hennar afar sterkt. Tækninýjungar þess tíma voru á margan hátt víðs fjarri og því þurfti að hafa meira fyrir hlutunum hvort sem það var við vinnu eða leik. Ég hugsa að tengingin við sveit og náttúru hafi ætið verið sterk upp frá því. Það má því segja að hún hafi notið sín vel fyrstu búskaparárin sín og uppvaxtarár okkar systkina í Búrfelli og á hálendinu við Sigöldu, þar sem pabbi vann sem vélfræðingur við virkjanir. Þar var náttúran alltumlykjandi. Aðstæður í Sigöldu voru á margan hátt fremur ýktar; þarna var lítil sem engin byggð nema starfsfólk virkjunarinnar. Veður gat orðið allsvakalegt yfir vetrartímann, snjóþyngsli mikil og einangrunin eftir því. Að sama skapi gat staðurinn skartað sínu fegursta yfir sumartímann og í minningunni er Sigalda nokkurs konar ævintýraheimur sem seint rennur úr minni. Þaðan á ég margar góðar minningar um mömmu, sem stýrði ört vaxandi heimili af myndarskap.

Þegar fjölskyldan flutti í bæinn tóku við ófáar útilegur með mömmu og pabba sem gott er að minnast. Þau voru einkar dugleg að kynna okkur landið, sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt í uppvexti barna og unglinga. Mér er einkum minnisstæð ferð sem við fórum um Vestfirði 1980, ferð sem ég man nú ekki í smáatriðum en þessar glefsur lifa svo sannarlega með mér og munu gera um alla tíð.

Þráin eftir sveitasælunni hélt svo áfram hjá mömmu eftir að við börnin vorum vaxin úr grasi. Lengi vel létu þau pabbi einfalt tjald duga en svo þegar hagur vænkaðist hjá þeim festu þau kaup á tjaldvögnum, hjólhýsi og húsbíl. Á honum fóru þau landshorna á milli og létu vel af. Er mér það minnisstætt að þurfa að bóka tíma hjá þeim með góðum fyrirvara á sumrin ef mig vantaði aðstoð með börnin mín því annars voru þau þotin út á land á húsbílnum, svo mikil var útþráin.

Mamma sat ekki auðum höndum þegar hún ferðaðist um landið. Hún var afar slyng veiðikló og veiddi í ófáum vötnum og ám í gegnum árin og á tímabili fannst mér hún vart hugsa um annað en að komast í veiði. Þá tók hún oft með sér golfsettið og var orðin vel liðtæk í þeirri íþrótt á tímabili.

Elsku mamma, takk fyrir allar góðu stundirnar, ég þykist vita að þú sért farin að leggja drög að næstu útilegu á nýjum stað.

Þinn sonur,

Gísli.

Elsku amma mín, þessi sorg minnir mig á þegar Gunnar bróðir kvaddi þennan heim. Þegar ég óð í burtu og faldi mig fyrir öllum þá leitaðir þú að mér, þrýstir tárunum mínum burt með lófanum þínum og varst hjá mér. Þótt þú hafir verið í þinni sorg varstu sterk fyrir mig. Þetta lýsir þér svo mikið elsku amma, þú varst alltaf til staðar fyrir aðra og settir alla í fyrsta sæti.

Þú varst alltaf til staðar fyrir alla og vildir öllum svo vel. Þú varst sterk og hafðir alltaf verið mikill dugnaðarforkur. Þú lést verkin tala, það skipti ekki máli hvernig verk, þú óðst í öll verk og gerðir þau vel. Þú kenndir mér að vera sjálfstæð, sönn sjálfri mér og standa á minni skoðun.

Ég er elsta barnabarnið þitt og afa og fékk góðan tíma með ykkur. Ég á yndislega minningar með þér og afa á flakki um landið og minningar af þér í vöðlunum að veiða. Flestir tína blóm handa ömmum sínum en ég kepptist við að tína orma handa þér í ormaboxið fyrir veiðina. Það var svo mikið ævintýri að koma í pössun til þín og afa. Ég var drottningin á heimilinu og þið gerðuð allt fyrir mig. Ég og afi fórum í hjólatúr eða göngutúr á meðan þú galdraðir fram þínar frægu pönnukökur. Ég fékk líka rabarbara úr garðinum og dýfði honum vel í sykurinn.

Þú og afi voruð dugleg að ferðast um allan heim og senduð mér alltaf póstkort með fallegum myndum og sögum. En nú ert þú farin í ferðalag til elsku Gunnars og ég veit þú knúsar hann frá okkur.

Ég mun varðveita minningar okkar saman. Þú átt stóran sess í hjartanu mínu. Þangað til næst elsku amma.

Eva Björg

Guðlaugsdóttir.

Elsku systir. Ekki átti ég von á að skrifa minningabrot um þig núna, kallið kom allt of fljótt og enginn var fyrirvarinn. Takk fyrir alla hjálpina í gegnum árin, alltaf varstu tilbúin að rétta hjálparhönd við afmælis- og veisluundirbúning, og að passa börnin okkar þótt nóg væri af börnum á heimilinu fyrir hjá ykkur. Það var ekkert vandamál, bara sjálfsagt. Takk fyrir allt.

Góða ferð í sumarlandið kæra systir. Elsku Steini, Gísli, Heiða, Gunnar, Guðbjörg og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur til ykkar, megi góðar minningar ylja ykkur á erfiðum tímum.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin, sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni

(Bubbi Morthens)

Hallbera (Haddý), Kristinn (Diddi) og fjölskylda.