Gunnlaugur Eiðsson fæddist 5. júní 1954. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eir 5. júlí 2021. Hann var sonur hjónanna Eiðs Hermundssonar, f. 1920, d. 2014, og Bergljótar Eiríksdóttur f. 1917, d. 1992. Systkini Gunnlaugs eru Valgerður Fried, f. 1944, Ljótur Magnússon, f. 1949, Guðrún Eiðsdóttir, f. 1952, og Hermundur Eiðsson, f. 1957.
Gunnlaugur ólst upp í Hveragerði. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og var við nám í Kiel í Þýskalandi og Háskóla Íslands í nokkur ár. Ungur heillaðist hann af fjöllum og firnindum og úti í náttúrunni undi hann sér best. Hann starfaði sem leiðsögumaður á sumrin í um 30 ár. Frá 1977 ferðaðist hann með Þjóðverja um Ísland, mikið hálendisferðir. Hann vann við kennslu og sem sviðsmaður í Þjóðleikhúsinu á vetrum og síðustu árin, meðan heilsan leyfði, í IKEA.
Fyrri eiginkona Gunnlaugs var Hilke Hubert, f. 1950. Með henni eignaðist hann tvö börn, Glúm, f. 12.12. 1988, og Sunnu, f. 9.8. 1991. Þau skildu. Eftirlifandi eiginkona hans er Edda Jónasdóttir, f. 1953.
Gunnlaugur átti við erfið veikindi að stríða síðustu 15 árin og dvaldi á hjúkrunarheimilinu Eir í tvö ár, þar sem hann lést. Gunnlaugur var jarðsettur í kyrrþey 27. júlí 2021.
Augað mitt og augað þitt,
ó þá fögru steina
mitt er þitt og þitt er mitt,
þú veist hvað eg meina.
Trega ég þig manna mest
mædd af tára flóði,
ó, að við hefðum aldrei sést,
elsku vinurinn góði.
Langt er síðan sá eg hann,
sannlega fríður var hann,
allt, sem prýða má einn mann,
mest af lýðum bar hann.
Engan leit ég eins og þann
álma hreyti bjarta.
Einn guð veit ég elskaði hann
af öllum reit míns hjarta.
Þó að kali heitur hver,
hylji dali jökull ber,
steinar tali og allt, hvað er,
aldrei skal ég gleyma þér.
(Vatnsenda-Rósa )
Takk fyrir samfylgdina elsku Gulli minn. Við sjáumst aftur.
Þín að eilífu,
Edda.
Tíminn leið, litli bróðir óx úr grasi, fór að læra svifflug og skoða heiminn.
Honum var margt til lista lagt, það sýndi sig í svifflugmódelum sem hann setti saman og málaði og þegar sem unglingur sýndi hann sérstaka hæfni í að mála með olíulitum.
Hann var vel vaxinn, ljóshæður, brosleitur og fékk margar augnagotur frá píunum. Mér fannst hann líkjast Charlton Heston og var pínulítið öfundsjúkur.
Einn góðan veðurdag kynnti Gulli mig fyrir Hilke Hubert, frá Worpswede í Þýskalandi. Það varð brúðkaup. Þau settust að í lítilli risíbúð við Lindargötu, þaðan á ég á margar og góðar minningar. Brattur stiginn upp og litla forstofan, full af gönguskóm og heppilegum yfirhöfnum til fjallaferða. Þar inn af litla stofan, með útsýni þar sem hægt var að spá í væntanlegt veðurfar með því að horfa til Esjunnar.
Hilke rak nuddstofu og Gulli var leiðsögumaður. Hér var réttur maður á réttum stað. Gulli hafði lesið jarðfræði og var því vel fróður og eftirsóttur af erlendum ferðamönnum, sér í lagi Þjóðverjum. Í frístundum stunduðu þau hjónin fjallgönguferðir um land allt, sumar jafnt sem vetur, og tóku gríðarlegt magn slædsmynda. Gulli var m.a. beðinn að koma til Þýskalands til að sýna landslagsmyndir sínar og hlaut mikið lof fyrir.
Fjölskyldan stækkaði, Glúmur og Sunna litu dagsins ljós. Gulli hafði alla tíð sterk bönd til Hveragerðis og litla fjölskyldan var tíður gestur á Skeggstöðum. Auk þess hafði Gulli mikinn áhuga á sögu Hveragerðis. Það liggja eftir hann bæði ritgerðir og samantektir á miklum fróðleik um tilkomu þorpsins, bæjarbúa og umhverfið allt.
Ef þetta væri skáldsaga hefði þessi litla fjölskylda lifað hamingjuríku lífi til æviloka. En því miður er þetta ekki skáldsaga. Gulli átti við Bakkus að stríða og fór verulega halloka. Svo kom að því að Hilke gafst upp og flutti með börnin til Worpswede.
Um skeið var hann leiksviðsmaður hjá Þjóðleikhúsinu og kunni mjög vel við sig í því umhverfi. Og það var um það leyti sem hann kynntist Eddu Jónasdóttur, eftirlifandi eiginkonu sinni, og þau fluttu saman upp í Grafarholt.
Nú fór að bera á því að það var ekki bara sálin í bróður mínum sem var í ólagi. Niðurstaðan var m.a. sú að hann greindist með sjúkdómin Schurg-Strauss. Það hallaði á brattann og litli bróðir lét á sjá. Síðustu árin bjó litli bróðir á hjúkrunarheimilinu Eir við góða umönnun.
Tóta og ég vottum Eddu, Glúmi, Sunnu og öðrum ástvinum samúð okkar.
Ég vil ljúka þessu með því að þakka Guðrúnu systur okkar og Páli manni hennar fyrir allt sem þau hafa gert fyrir Gulla. Og svo verð ég auðvitað að þakka Gulla fyrir frábærar æskustundir, te með kandís og órofa vináttu.
Stóribróðir,
Ljótur, Þórunn (Tóta)
og fjölskylda.
Hvíslar mér hlynur
hár í skógi
sögu sviplegri.
„Óx mér við hlið
ei fyrir löngu
burkni blaðmjúkur.“
Drakk hann að morgni
mungát nætur,
geisla um hádag heiðan;
hugði hann sól
og sumarástir
vara ævi alla.
Kom hin haustkalda/hélugríma,
skalf þá veikstilka vinur:
„Svikið hefur mig
sól í tryggðum.
Nú mun ég bana bíða.“
Brosti ég
að hans barnslyndi,
mundi ég eigin æsku.
Falla munu blöð þín
bleik til jarðar,
en víst mun stofn þinn standa.
Leið nótt,
lýsti nýr dagur,
huldi héla rjóður.
En vininn minn
veikstilka
sé ég aldrei aftur.
Drúpir dimmviður
dökku höfði,
dagur er dauða nær.
hrynja laufatár
litarvana
köldum kvistsaugum.
(Jóhann Sigurjónsson)
Þín systir,
Guðrún.
Ég hitti Gulla fyrst að sumri til 1975 er hann kom í stutta heimsókn til Lundar í Svíþjóð, þar sem ég og Guðrún systir hans, minn verðandi lífsförunautur, bjuggum um hríð. Vel fór á með okkur, en ég man helst eftir hávöxnum og bjarthærðum „strák“. Seinna urðu samskipti okkar meiri og reglulegri hér á landi.
Hann kom oft í heimsókn og var aufúsugestur, því hann hafði frá ýmsu að segja og hægt að ræða við hann um allt milli himins og jarðar. Ekki minnkaði samgangurinn eftir að við vorum báðir komnir með konu og börn.
Hans líf og yndi var fjallamennska af öllu tagi, svo sem klifur, gönguferðir og skíðaferðir. Hann fann líka fjölina sína sem leiðsögumaður um fjöll og firnindi Íslands.
Við fórum gjarnan saman í gönguferðir og á skíði og voru þá Mosfells- og Hellisheiði vinsælar, svo og Bláfjöll. Mér er sérstaklega minnisstæð ferð sem við fórum tveir á Fimmvörðuháls og Eyjafjallajökul. Gulli var vel útbúinn, í sérhönnuðum hnésíðum göngubuxum, skóm og peysu við hæfi og bar myndarlegan bakpoka og ýmsan annan búnað. Ég var í bómullarskyrtu og flauelsbuxum og með tvo litla pokaskjatta. Þarna sá ég fyrst hvernig útbúa skal sig til fjallaferða. Þá fékk ég að heyra af ferð hans á Fimmvörðuháls með Hilke verðandi eiginkonu og móður barna hans, þar sem hann varð að grafa þau í snjóskafl vegna blindhríðar. Þótti mér mikið til koma. Seinna lokkaði hann mig með sér í ýmsar fleiri gönguferðir, meðal annars á Heklutind.
En Gulli hafði sinn djöful að draga, Bakkus, sem hann átti í stöðugri baráttu við gegnum árin. Sá djöfull gerði honum ýmsa skráveifu, m.a. missti hann fjölskylduna úr höndum sér.
En fleiri áföll áttu eftir að dynja yfir. Fyrst má e.t.v. telja leggjarmein, sem hafði töluverð áhrif á getu hans til fjallaferða. Seinna bættust við illvígir ólæknandi sjúkdómar, sem smátt og smátt skertu almenna getu hans.
Fyrir um 13 árum hitti Gulli eftirlifandi eiginkonu sína, Eddu Jónasdóttur, sem gekk með honum gegnum súrt og sætt til hans skapadægurs.
Gulli dvaldi á hjúkrunarheimilinu Eir síðustu tvö árin. Honum hrakaði jafnt og þétt og missti hann m.a. hreyfigetu og máltjáningu.
Þessar brotakenndu minningar af mági mínum eru engan veginn hugsaðar sem lýsing á ævi Gulla. Ég fer e.t.v. ekki hárnákvæmt með öll atriði, en það skiptir ekki mestu máli, heldur að hvati þessara skrifa er söknuður eftir góðum dreng, sem ég hafði mikil og ánægjuleg samskipti við í áratugi.
Ég vil að lokum votta ættingjum og öðrum aðstandendum mína innilegustu samúð.
Páll Reynisson.
Eftir því sem árin liðu fækkaði heimsóknum mínum til þín og þú varst ekki lengur sú fastastjarna í tilveru minni sem þú áður varst og ég er hryggur yfir því hvaða leið þú valdir í lífinu. Það sem ekki breytist er væntumþykja mín á þér, sem mun haldast til æviloka.
Gunnlaugur, þú munt alltaf eiga alveg sérstakan stað í hjarta mínu og ég mun sakna þín mikið.
Illugi Ljótsson.