[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Valdimarsdóttir fæddist 10. ágúst 1921 í torfbæ í Norðurgarði á Skeiðum og var yngst átta systkina. Nú er hún ein eftir af þeim sem muna tímann úr torfbænum með foreldrum sínum.

Margrét Valdimarsdóttir fæddist 10. ágúst 1921 í torfbæ í Norðurgarði á Skeiðum og var yngst átta systkina. Nú er hún ein eftir af þeim sem muna tímann úr torfbænum með foreldrum sínum. Margrét man eftir engjaslætti niðri við Hvítá og klyfjahestum sem báru baggana heim. Hún minnist dásamlegra sumra með ilmandi töðu og fagurri fjallasýn af flatlendinu. Fjölskyldan í Norðurgarði var gestrisin með afbrigðum og þau tóku systurdóttur Valdimars, Ástu Ásmundsdóttur, til sín hvert einasta sumar frá sauðburði fram yfir réttir, en hún hafði misst báða foreldra sína. Margrét var einstaklega hænd að þessari eldri frænku sinni og minnist þess hve hana langaði oft að leika með fínu brúðuna sem frænkan kom með frá Reykjavík.

Systkinin átta í Norðurgarði uxu upp, en einn bróðirinn dó í frumbernsku. Mikill harmur var kveðinn að fjölskyldunni þegar elsta systirin, Guðrún, lést um tvítugt, en hún þótti mjög efnileg og var sárt saknað. Þegar Margrét var um tvítugt var hún ein eftir í kotinu með gömlu hjónunum. Hún kynntist þá mannsefni sínu, myndarlegum pilti, Friðriki Sæmundssyni, síðar múrarameistara, og settu þau niður bú á Selfossi, byggðu þar hús og gömlu hjónin fluttu með þeim á Selfoss. Gestrisnin var ekki síðri hjá Margréti en hjá foreldrum hennar og stóð hún iðulega í eldhúsinu og veitti gestum og gangandi beina af mikilli rausn og Friðrik, eða Fiddi eins og hann var kallaður, taldi ekki eftir sér að draga björg í bú. Margrét sinnti foreldrum sínum af mikilli natni og má segja að síðustu árin hafi hún rekið hjúkrunarheimili fyrir þau og mörg sporin átti hún fram og til baka eftir ganginum inn í herbergi „afa og ömmu“ með hressingu og alls kyns aðstoð.

Þegar um fór að hægjast er ekki eins og Margrét hafi sest í helgan stein. Þá tóku þau Friðrik sig til og komu á fót saumastofu uppi á lofti á Kirkjuveginum og þar voru sniðnar og saumaðar flíkur úr íslenskri ull samkvæmt nýjustu tísku. Höfðu þau um tíma svo mikið umleikis að þau voru með fólk í vinnu hjá sér. Magga hafði jú raunar alltaf saumað og prjónað á alla fjölskylduna, annáluð fyrir myndarskap í þeim efnum.

Þau Friðrik náðu einstaka sinnum að komast frá í frí og nutu þess að ferðast innanlands. Síðan komust þau í nokkrar ferðir til útlanda og Margrét talaði oft um ferð til Parísar með sonardóttur sinni að heimsækja Áslaugu Jónu Marinósdóttur frænku þeirra og hve nýtíndar ferskjurnar í Frakklandi hefðu verið góðar. Margrét er enn ótrúlega hress í anda og dvelur nú við gott atlæti á Sólvöllum á Eyrarbakka, ein fárra sem sluppu við bannsetta veiruna í fyrra. Eins félagslynd og hún er, var það henni ekki að skapi að vera sú sem var sett í einangrun. Svolítið bætir þó úr skák að síminn ber ekki smit á milli.

Margrét er hafsjór af fróðleik um liðna tíð og njóta ættingjarnir þess að heyra hana segja frá gömlum tíma. Þótt aldurinn hafi færst yfir fylgist hún vel með sínum ættgarði og ber hag allra fyrir brjósti, eins og hún hefur alltaf gert.

Fjölskylda

Eiginmaður Margrétar var Friðrik Sæmundsson, múrarameistari, f. 24.2. 1927, d. 1.11. 2005. Foreldrar hans voru Sæmundur Friðriksson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og síðar barnakennari og bóndi í Brautartungu á Stokkseyri, f. 27.6. 1884, d. 10.5. 1953, og Áslaug Halldórsdóttir húsfreyja, f. 3.3. 1894, d. 22.9. 1933. Margrét og Friðrik byggðu sér hús á Kirkjuvegi 20 á Selfossi. Þau fluttust svo á Fífutjörn 3 á Selfossi árið 2000 og loks fluttist Margrét á Sólvelli, dvalarheimili fyrir aldraða á Eyrarbakka í lok árs 2018.

Börn Margrétar og Friðriks eru 1) Valdimar, vélsmíðameistari á Selfossi, f. 10.2. 1948. Maki er Jóhanna María Valdórsdóttir, starfsmaður hjá sveitarfélaginu Árborg og þau eiga: a) Margréti, hjúkrunar- og lífefnafræðing, f. 25.2 1972, sambýlismaður hennar er Sigurður Örn Árnason véliðnfræðingur og þeirra börn eru Árni Matthías, f. 2008, og Valdimar Örn, f. 2012. b) Lena, sameindalíffræðingur, f. 18.9 1983, sambýlismaður hennar er Jóhannes Gunnar Guðmundsson, starfsmaður hjá Marel. c) Friðrik tölvunarfræðingur, f. 22.11. 1989. 2) Sæmundur Hörður, iðnaðarmaður og félagsliði, f. 22.8. 1953. Maki hans er Hafdís Erna Gunnarsdóttir félagsliði. Barn þeirra er Fjóla Dóra nemi, f. 15.5 1996, sambýlismaður hennar er Páll Bárðarson bílstjóri og þeirra börn eru Margrét Auður, f. 2018, og nýfæddur sonur, f. 2021. 3) Erna Friðriksdóttir, deildarstjóri í Öldutúnsskóla, f. 10.3 1957. Maki er Bjarni Þorvaldsson, húsasmíðameistari og kennari. Börn þeirra: a) Valgerður Þórunn, stjórnmálafræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, f. 3.2 1976, maki hennar er Benedikt Eyþórsson, sagnfræðingur hjá Þjóðskjalasafni Íslands og þeirra börn eru Kolfinna Margrét, f. 2006, Bjarni Þór, f. 2008, og Sigrún Hildur, f. 2015. b) Árni Sverrir framhaldskólakennari, f. 23.5 1979, maki hans er Katrín Magnúsdóttir, verkefnisstjóri Skóla á grænni grein og framhaldsskólakennari. Þeirra börn eru Ari Ófeigur, f. 2012, og Edda Margrét, f. 2017. c) Sigrún, sérgreinadýralæknir hjá MAST og bóndi á Efstu-Grund, f. 6.1. 1985, sambýlismaður hennar er Sigurjón Sigurðsson bóndi á Efstu-Grund. Börn Sigrúnar og Sigurmundar Jónssonar eru Freydís Erna, f. 2012, og Sölvi, f. 2014. d) Þorgrímur Guðni nemi, f. 12.1. 1991, maki hans er Tea Maria Guljas nemi. 4) Hrefna, hjúkrunarfræðingur á Spáni, f. 20.8. 1959. Fyrrum eiginmaður er Friðrik Magnússon pípulagningameistari. Börn þeirra: a) Kristrún þrívíddarhönnuður, f. 15.5. 1984, b) Rakel Karen Hrefnudóttir, starfsmaður á leikskóla og nemi, f. 7.10. 1988, maki hennar er Ómar Þór Ómarsson múrari og þeirra börn eru Viktor Logi, f. 2011, Eiríkur Dreki, f. 2013, og Kári Hrafn, f. 2017. c) Tómas Óskar, f. 13.8. 1991. Systkini Margrétar eru Guðrún, f. 3.8. 1906, d. 30.10. 1930; Björn Ingimar, bóndi á Björnskoti á Skeiðum, f. 11.11. 1907, d. 18.4. 1984; Guðmundur, verkamaður á Stokkseyri, f. 21.11. 1908, d. 18.4. 1984; Þorbjörg, húsfreyja á Selfossi, f. 13.2. 1911, d. 10.9. 2003; Finnbogi, iðnaðarmaður í Rvk., f. 28.12. 1911, d. 27.2. 1991; Sigurmar Ágúst, f. 30.8. 1913, d. 21.6. 1914, og Eiríkur, bóndi í Norðurgarði á Skeiðum, f. 29.7. 1915, d. 17.8. 2003.

Foreldrar Margrétar voru hjónin Valdimar Jónsson, f. 26.6. 1880, d. 26.7. 1972, og Sigríður Guðmundsdóttir, f. 4.11. 1876, d. 7.10. 1970, bændur í Norðurgarði á Skeiðum.