Íþróttahreyfingin á heimsvísu þarf að vera á tánum til að viðhalda vinsældum. Neysluvenjur taka breytingum eins og þekkt er. Með aukinni tækni hefur svokölluð fjölmiðlahegðun breyst mikið og kemur til með að halda áfram að breytast.
Íþróttahreyfingin á heimsvísu þarf að vera á tánum til að viðhalda vinsældum. Neysluvenjur taka breytingum eins og þekkt er. Með aukinni tækni hefur svokölluð fjölmiðlahegðun breyst mikið og kemur til með að halda áfram að breytast.

Í íþróttaheiminum hefur fólk vanist miklu sjónvarpsáhorfi varðandi hinar ýmsu íþróttagreinar og þar myndast tekjur. Oft er þar um miklar tekjur að ræða, til dæmis í kringum stórviðburði eins og Ólympíuleika.

Fyrir ekki svo löngu sá ég viðtal við franska hagfræðinginn Arsene Wenger, sem þekktastur er fyrir störf sín sem knattspyrnustjóri. Hann starfar nú fyrir Alþjóðaknattspyrnusambandið og kemur að alls kyns þróunarmálum.

Eitt vakti athygli mína hjá Wenger en hann talaði um að ekki væri hægt að ganga út frá því sem gefnu að fólk myndi hafa eirð í sér til að horfa á heila knattspyrnuleiki í beinni útsendingu í framtíðinni. Kynslóðir sem eru að vaxa úr grasi þekkja best stutt myndskeið af Youtube eða samfélagsmiðlum. Þau horfa á stutt myndskeið hvert á eftir öðru. Athyglin virðist ekki vera lengi á sama stað.

Mun fólk af þessari kynslóð nenna í stórum stíl að horfa á heila leiki í tvo tíma þar sem kannski lítið gerist? Þessu velta menn fyrir sér í knattspyrnuheiminum ef marka má Wenger.

Ef áhuginn fyrir beinum útsendingum fer minnkandi með tíð og tíma virðast aðrir möguleikar vera til skoðunar. Til dæmis helstu atriði leikja klippt saman um leið og þeim lýkur eða svo gott sem.

Óvitlaust er hjá íþróttaheiminum að velta þessu fyrir sér.