100. sjúkraflugið. Ársæll Gunnlaugsson flugstjóri, Guðmundur Óli Scheving flugmaður, Stefán Geir Andrésson sjúkraflutningamaður og Barbara Ruth Hess læknir. Þetta var síðasta sjúkraflug júlímánaðar hjá Mýflugi. Langflestar ferðir voru til Reykjavíkurflugvallar enda er Landspítalinn þar stutt frá.
100. sjúkraflugið. Ársæll Gunnlaugsson flugstjóri, Guðmundur Óli Scheving flugmaður, Stefán Geir Andrésson sjúkraflutningamaður og Barbara Ruth Hess læknir. Þetta var síðasta sjúkraflug júlímánaðar hjá Mýflugi. Langflestar ferðir voru til Reykjavíkurflugvallar enda er Landspítalinn þar stutt frá. — Ljósmynd/Mýflug
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Nýliðinn júlímánuður var alger metmánuður í sjúkraflutningum hjá flugfélaginu Mýflugi. Farið var í 100 sjúkraflug í mánuðinum en mest hefur félagið áður flogið 89 sjúkraflug í einum mánuði.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Nýliðinn júlímánuður var alger metmánuður í sjúkraflutningum hjá flugfélaginu Mýflugi. Farið var í 100 sjúkraflug í mánuðinum en mest hefur félagið áður flogið 89 sjúkraflug í einum mánuði. Áætlað er að 70-80 sjúkraflug verði flogin í ágúst.

Af þessum 100 sjúkraflugferðum var 81 til og frá Reykjavík, eða 81% allra flugferða. 19 flug voru á aðra staði. „Eins og gefur að skilja er Reykjavíkurflugvöllur gríðarlega mikilvægur fyrir sjúkraflugið,“ segir Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, í samtali við Morgunblaðið.

Munar oft ansi litlu

„Það væri alveg svakaleg staða ef við þyrftum að lenda í Keflavík og aka þyrfti með sjúklingana þaðan eftir Reykjanesbrautinni á Landspítalann,“ segir Leifur.

Hann tekur sem dæmi að í þessari viku flutti Mýflug unga konu frá Norðfirði til Reykjavíkur, en hún var komin 33 vikur á leið. „Hún fæddi 10 mínútum eftir að hún kom á fæðingardeildina. Ef við hefðum lent í Keflavík í stað Reykjavíkur hefði hún líklega fætt barnið í sjúkrabílnum á Reykjanesbrautinni. Það hefði vissulega getað farið vel en öryggið er sjálfsögðu miklu meira á spítalanum.“

Leifur bætir því við að í sömu flugvél hafi verið hjartasjúklingur og fór hann beint í þræðingu á Landspítalanum. „Það munar oft ansi litlu,“ segir Leifur.

Landhelgisgæslan sinnti átján sjúkraflugferðum í júlí vegna slysa eða veikinda, samkvæmt upplýsingum Ásgeirs Erlendssonar upplýsingafulltrúa. Í fjórtán skipti, eða í tæplega 78% tilvika, lenti þyrlan á Reykjavíkurflugvelli þar sem sjúkrabíll beið og flutti viðkomandi á Landspítalann. Í fjögur skipti var lent á þyrlupallinum við Landspítalann í Fossvogi. Útkallafjöldinn hjá Landhelgisgæslunni er sambærilegur og fyrri ár. Annríkið vegna þyrluútkalla er alla jafna mest yfir sumarmánuðina. Flest hafa útköll flugdeildar verið alls (öll útköll) 278 árið 2018 og voru 219 árið 2019. Í fyrra fækkaði þeim niður í 184 og má draga þá ályktun að fækkun ferðamanna á landinu vegna farsóttarinnar hafi haft áhrif á fækkun útkallanna, segir Ásgeir.

„Við hjá Mýflugi sinnum öllu sjúkraflugi með flugvélum á landinu og gerum út með tvær sérútbúnar flugvélar frá Akureyri,“ segir Ársæll Gunnlaugsson, sem var flugstjóri í 100. flugferðinni. Fjórir eru í áhöfn vélanna hverju sinni og eru það flugstjóri, flugmaður, sjúkraflutningamaður frá Slökkviliði Akureyrar og læknir frá sjúkrahúsinu á Akureyri.

Ársæll segir hvert flug almennt vera tvo til þrjá leggi. „Við fáum þá boð frá Neyðarlínunni, fljúgum þá kannski austur á Egilsstaði, þaðan til Reykjavíkur með sjúklinginn og svo loks aftur norður til Akureyrar.“ Spurður hvort þetta sé ekki búið að vera mikið álag segir hann: „Jú, eins og þetta er búið að vera undanfarið þá kemur bara flug ofan í flug. Við erum eins og ég segi með tvær vélar og þær hafa margoft verið báðar í loftinu á sama tíma í júlímánuði.“